NORSKU stóriðjufyrirtækin, Elkem, Hydro Aluminium og Norsk Hydro hafa ekki tímasettar áætlanir um fjárfestingar í stóriðju á Íslandi en blaðafulltrúar þeirra sem Morgunblaðið ræddi við segja stöðugt til skoðunar hvar og hvernig megi auka framleiðslu til að mæta aukinni eftirspurn eftir áli. Segja þeir Ísland einn möguleikann en ekki endilega fyrsta kostinn.
Fjárfestingar norskra stóriðjufyrirtækja

Ísland ekki

fyrsti kosturinn

NORSKU stóriðjufyrirtækin, Elkem, Hydro Aluminium og Norsk Hydro hafa ekki tímasettar áætlanir um fjárfestingar í stóriðju á Íslandi en blaðafulltrúar þeirra sem Morgunblaðið ræddi við segja stöðugt til skoðunar hvar og hvernig megi auka framleiðslu til að mæta aukinni eftirspurn eftir áli. Segja þeir Ísland einn möguleikann en ekki endilega fyrsta kostinn.

Fram kom í frétt breska blaðsins Financial Times í vikunni að um næstu aldamót vanti um 900 þúsund tonn á til að eftirspurn eftir áli sé fullnægt jafnvel þótt reiknað sé með auknum útflutningi frá fyrrum Sovétríkjum.

Ísland eitt þeirra landa sem koma til greina

"Enn er of snemmt að segja hvert verður næsta skref í því að auka framleiðslugetuna en Ísland er eitt þeirra landa sem koma til greina," segir Thomas Knutzen upplýsingafulltrúi Hydro-Alumiunum aðspurður um áætlanir fyrirtækisins. Hann segir heldur ekki liggja fyrir af hvaða stærð hugsanlegt álver yrði hérlendis en fulltrúar fyrirtækisins hafi verið hér til viðræðna, síðast snemma á þessu ári.

"Áætlanir okkar gera ráð fyrir að geta séð Evrópu fyrir áli og Ísland er mögulegt sem framleiðsluland fyrir það. Það er skortur á áli í dag og fyrirsjáanlegur fram á næstu öld og því nauðsynlegt að reisa eitt álver á ári fram að aldamótum," segir upplýsingafulltrúinn einnig en taldi óvíst að Ísland yrði næsti kostur fyrirtækisins í þessum efnum.

Tor Steinum upplýsingafulltrúi hjá Norsk Hydro segir fulltrúa fyrirtækisins hafa rætt við Íslendinga en engar ákvarðanir hafi verið teknar um nýjar fjárfestingar en ljóst sé að Norsk Hydro vilji stuðla að aukinni orkuframleiðslu til að auka megi álframleiðslu. Slíkar ákvarðanir verði þó ekki teknar í ár.

Erfiðleikum bundið að fá orku

"Norsk Hydro hefur lagt fram áætlanir um aukna málmbræðslu í Noregi sem krefst aukinnar orku en það er erfiðleikum bundið að fá orkuna nú þegar," segir Tor Steinum og segir umræðuna snúast um að auka gasnotkun við raforkuframleiðslu þar sem langt sé komið í virkjun vatnsorku í Noregi.

"Aukin álframleiðsla verður að fara fram annars staðar en í Noregi og Hydro hefur þegar nokkra staði til skoðunar, svo sem Slóvakíu og Slóveníu og hefur leigt verksmiðju í Bandaríkjunum. Þá er einnig til umræðu að taka þátt í einkavæðingu í Venesúela og mér finnst því líklegt að fyrst yrði fjárfest í einhverjum þessara landa áður en til þess kæmi á Íslandi. Þannig er staðan í dag," sagði Tor Steinum ennfremur.

Þá kom fram í samtali við Paul Nordenberger hjá Elkem að fyrirtækið hefur ekki áætlanir um frekari fjárfestingar hérlendis en þegar hafa verið ákveðnar í sambandi við Grundartanga.