ÞAÐ ER alltaf gaman að lesa greinarnar hans Halldórs Þorsteinssonar, nú síðast í Morgunblaðinu þann 24. júní, en ég hnaut nú um nokkur orð í greininni. Hann býst við aukningu á hjónaskilnuðum í kjölfar ranglátra skattabreytinga. Orðrétt: "Eftir skilnað gæti t.d.
"Hórdómur mikill"

Margréti Hansen:

ÞAÐ ER alltaf gaman að lesa greinarnar hans Halldórs Þorsteinssonar, nú síðast í Morgunblaðinu þann 24. júní, en ég hnaut nú um nokkur orð í greininni. Hann býst við aukningu á hjónaskilnuðum í kjölfar ranglátra skattabreytinga.

Orðrétt: "Eftir skilnað gæti t.d. fráskilinn maður hugsanlega leigt fyrrverandi eiginkonu sinni herbergi eða gert hana að ráðskonu hjá sér svona á pappírnum og þá færu þau að búa saman í opinberum hórdómi ..."

En nú er mér spurn, væri ekki eins hægt að snúa þessu alveg við og konan leigði þá fyrrverandi manni sínum herbergi og gerði hann að ráðsmanni hjá sér svona á pappírnum?

Nei og aftur nei, svona einfalt er það bara ekki, því í langflestum hjónaböndum ennþá er aðeins maðurinn skrifaður fyrir íbúð og eignum og ég vísa til aðvarana Svölu Thorlacíus hdl. þar sem hún segir að alltof oft gerist það við skilnað eða fráfall maka að konan sitji eftir eignalaus þar sem á pappírunum eigi hún í rauninni ekkert.

Ég vil þess vegna vara konur við þessu, ef svona fer í skattamálum, hafið vaðið fyrir neðan ykkur og gangið frá eignaskiptapappírum á undan skilnaðarpappírum, því enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

MARGRÉT HANSEN,

Ásholti 2, 105 Rvík.