Leikstjóri: John Ford. Handrit: Dudley Nichols. Kvikm.taka: Bert Glennon. Leikarar: John Wayne, Tim Holt, Thomas Mitchell og Claire Trevor. PÓSTVAGNINN má kalla klassík allra vestramynda, og undir hana skrifar John nokkur Ford.
MERKIS-MYND

Póstvagninn

Stagecoach ­ 1939

Leikstjóri: John Ford. Handrit: Dudley Nichols. Kvikm.taka: Bert Glennon. Leikarar: John Wayne, Tim Holt, Thomas Mitchell og Claire Trevor.

PÓSTVAGNINN má kalla klassík allra vestramynda, og undir hana skrifar John nokkur Ford. Auk þess að skjóta John Wayne upp á stjörnuhimininn, lyfti myndin "vestranum" upp úr B-mynda flokknum sem hann hafði áður tilheyrt, og öðlaðist hann þar með virðingu. Enda átti myndin eftir að hafa mikil áhrif á komandi kúrekamyndir hvað varðar stíl, efnistök og persónusköpun.

Myndin fjallar um hóp fólks í póstvagni á leið til Arizona, sem lenda í bardagaglöðum indíánum. Þessi hópur þykir smækkuð mynd af samfélagi þess tíma. Persónusköpun myndarinnar er margbrotin og átök eiga sér stað milli þegna misjafnlega hátt settra í þjóðfélagsstiganum og gilda þeirra. Samstaða fólksins á raunastundu á eftir að eyða fordómum þeirra á milli. John Ford dáði þetta umfjöllunarefni: Hópur fólks samankominn og hvernig hver og einn bregst við andspænis dauðanum.

John Ford kvikmyndar í uppáhalds landslaginu sínu. Atriðið þar sem indíáni ræðst á John Wayne, sem er að reyna að gera að festingum póstvagnsins á fullri ferð, þykir enn mjög merkilegt. Staðgengill Jóns Væna lék líka indíánann sem réðst á hann! Þetta atriði er mjög einkennandi fyrir John Ford, þar sem einhver fórnar sér fyrir samfélagið.

Þótt Póstvagninn hafi verið nýstárleg mynd að mörgu leyti, er hún líka íhaldssöm á neikvæða vísu. Indíánarnir eru vondu karlarnir eins og oft, og Mexíkóarnir aðhlátursefnið.

Til gamans má geta þess að Orson sjálfur Welles segist hafa lært að klippa kvikmyndir með því að horfa á Póstvagninn 45 sinnum!