BRESKA ríkið var í síðustu viku dæmt brotlegt við Mannréttindasáttmála Evrópu í máli fyrrverandi lögreglukonu sem taldi að síminn hjá sér hefði verið hleraður. Málavextir voru þeir að lögreglukonan, Alison Halford að nafni, var skipuð aðstoðaryfirlögregluþjónn í Merseyside árið 1983 og varð þar með hæst setta konan í bresku lögreglunni.
Mannréttindadómstóll Evrópu

Brot á friðhelgi

einkalífs að hlera

síma starfsmanns Strassborg. Morgunblaðið. BRESKA ríkið var í síðustu viku dæmt brotlegt við Mannréttindasáttmála Evrópu í máli fyrrverandi lögreglukonu sem taldi að síminn hjá sér hefði verið hleraður. Málavextir voru þeir að lögreglukonan, Alison Halford að nafni, var skipuð aðstoðaryfirlögregluþjónn í Merseyside árið 1983 og varð þar með hæst setta konan í bresku lögreglunni. Næstu árin sótti hún ítrekað um æðri stöður í lögreglunni en án árangurs. Höfðaði hún þá mál á hendur innanríkisráðuneytinu og Merseyside lögreglunni og hélt því fram að sér hefði verið mismunað á grundvelli kynferðis. Hún féll þó frá málshöfðuninni í ágúst 1992 í kjölfar samkomulags um að hún hætti störfum hjá lögreglunni og fengi bætur að fjárhæð 15.000 pund. Halford taldi að vegna málshöfðunarinnar hefði hún sætt ofsóknum af hálfu vissra aðila innan Merseyside lögreglunnar. Þeir hefðu meðal annars komið sögusögnum um hana til fjölmiðla, sakað hana um agabrot og hlerað bæði heimasíma hennar og vinnusíma til að afla sönnunargagna gegn henni. Bar Halford fram kvörtun við breska kærunefnd er fjallar um símahleranir.

Í febrúar 1992 var henni tilkynnt sú niðurstaða að bresk lög frá 1985 um símahleranir hefðu ekki verið brotin hvað heimasíma hennar áhrærði. Nefndin taldi sig ekki hafa heimild til að tilgreina hvort þetta væri vegna þess að engar hleranir hefðu átt sér stað eða hvort fengin hefði verið lögleg heimild til þeirra. Þingmaður í kjördæmi Halford beitti sér í máli hennar en fékk þau svör frá innanríkisráðuneytinu að hleranir sem einskorðuðust við innanhússsímkerfi lögrelunnar í Merseyside féllu utan við gildissvið laganna frá 1985 og til þeirra þyrfti ekki sérstaka heimild. Mannréttindadómstóll Evrópu taldi ósannað að símtöl Halford heima fyrir hefðu verið hleruð en ágreiningslaust væri að vinnusími hennar hefði verið hleraður. Dómstóllinn kvað einróma upp þann dóm að brotið hefði verið gegn 8. gr. mannréttindasáttmálans er verndar friðhelgi einkalífs. Dómvenja væri fyrir því hjá dómstólnum að telja símtöl úr vinnusíma falla undir friðhelgi einkalífs. Ekkert benti til þess að Halford hefði verið vöruð við því að sími hennar kynni að verða hleraður og þess vegna mátti hún treysta því að símtöl hennar væru trúnaðarmál. Bresku lögin frá 1985 hefðu ekki tekið til innanhússsímkerfa í opinberum stofnunum og því væri ekki unnt að telja að skilyrði 8. gr. mannréttindasáttmálans um að símhleranir byggðust á lagaheimild væri uppfyllt. Einnig hefði breska ríkið brotið gegn 13. gr. sáttmálans þar sem kærandi hefði ekki átt þess neinn kost að leita réttar síns fyrir breskum stjórnvöldum. Voru Halford dæmd 10.000 pund í miskabætur og 25.000 pund í lögmannskostnað.