SAMTÖKIN Lífsvog taka heilshugar undir greinaskrif Félags ungra lækna til heilbrigðisráðherra, er birtust í Mbl. þann 25. 6., þar sem þeir benda á óraunsæjan sparnað, og hugsanlegar afleiðingar af slíku fyrir sjúklingana.
Sífellt öryggisleysi sjúklinga, sumar eftir sumar

Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

SAMTÖKIN Lífsvog taka heilshugar undir greinaskrif Félags ungra lækna til heilbrigðisráðherra, er birtust í Mbl. þann 25. 6., þar sem þeir benda á óraunsæjan sparnað, og hugsanlegar afleiðingar af slíku fyrir sjúklingana. Í grein þeirra er á skýran hátt varpað ljósi á þá þætti er geta leitt til mistaka í greiningu, meðferð og eftirliti sjúklinganna, undir álagi því er vinnuaðstæður sumarlokana geta skapað. Mistök á þessum vettvangi verða ekki aftur tekin, það er staðreynd er menn hljóta að þurfa að horfast í augu við fyrr en síðar.

Sjúklingar þeir er í slíku lenda munu nefnilega sækja ábyrgð á hendur rekstraraðila þjónustunnar á hverjum tíma eftir þeim leiðum er til þess eru færar. Þótt enn þurfi að ryðja braut réttlætisins í þeim efnum, hafa Lög um réttindi sjúklinga nú litið dagsins ljós í framsetningu og flutningi heilbrigðisnefndar Alþingis, en þar er að finna spor í rétta átt, til dæmis hvað varðar eign sjúklinga á upplýsingum þeim er um þá eru færðar í sjúkraskýrslur. Áherslur á upplýsingaskyldu heilbrigðisstarfsmanna til handa sjúklingum sem og almenna mannvirðingu er einnig að finna í lögum þessum. Lífsvog vill hvetja almenning til þess að kynna sér lög þessi er taka gildi 1. júlí, en vilja um leið þakka ungum læknum fyrir að reyna að opna augu stjórnvalda í hinni mjög svo afstæðu sparnaðarhyggju er viðgengst enn á þessum vettvangi.

f.h. Samtakanna Lífsvog.

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,

ÁSDÍS FRÍMANNSDÓTTIR.