ÍSLENSKA tugþrautarlandsliðið keppti í annarri deild Evrópubikarkeppninnar í fjölþraut í borginni Maribor í Slóveníu um helgina. Markmið liðsins var að endurheimta sæti sitt í 1. deild, en liðið féll í 2. deild í fyrra eftir keppni í Eistlandi. Íslendingum varð ekki að ósk sinni þrátt fyrir að hafa náð 22.192 stigum, besta árangri tugþrautarlandsliðs Íslands frá upphafi.

Önnur besta þraut Jóns

Arnars Magnússonar

ÍSLENSKA tugþrautarlandsliðið keppti í annarri deild Evrópubikarkeppninnar í fjölþraut í borginni Maribor í Slóveníu um helgina. Markmið liðsins var að endurheimta sæti sitt í 1. deild, en liðið féll í 2. deild í fyrra eftir keppni í Eistlandi. Íslendingum varð ekki að ósk sinni þrátt fyrir að hafa náð 22.192 stigum, besta árangri tugþrautarlandsliðs Íslands frá upphafi. Liðið vantaði aðeins herslumuninn á að komast upp, því það lauk keppni í 3. sæti eftir að hafa verið í fyrstu tveimur sætunum 7 fyrstu greinarnar. Jón Arnar Magnússon náði öðrum besta árangri sínum, 8.280 stigum, en hafnaði þó í 2. sæti í einstaklingskeppninni, 10 stigum á eftir hinum pólska Sebastian Chmara.

Jón Arnar var stigahæstur Íslend inganna eins og búist var við, en hann hefur verið undir talsverðu æfingaálagi síðustu vikur og nokkur þreyta sat í honum er hann tók þátt í mótinu. "Ég er að æfa fyrir heimsmeistaramótið í Aþenu í ágúst og lít einfaldlega á þessa keppni sem góða æfingu," sagði hann. Þó hann hafi kallað þetta æfingu, tókst honum að gera betur en á Ólympíuleikunum í Atlanta í fyrra þegar hann setti Íslandsmet, en þá fékk hann 8.276 stig. Besta þraut hans er síðan á tugþrautarmóti í Götesiz, en þar fékk hann 8.470 stig.

Lið Íslands skipuðu þeir Ólafur Guðmundsson frá Selfossi og hinir ungu Sveinn Þórarinsson úr FH og Theodór Karlsson úr UÍS ásamt Jóni Arnari, sem keppir eins og kunnugt er fyrir Tindastól.

Mikill hiti var í Maribor þegar keppnin var haldin. Fyrri daginn var hitinn um 29 gráður, en hann fór allt upp í 35 gráður í forsælu þann síðari og þurfti liðið að drekka mikið vatn. Alls drukku fjórmenningarnir 45 lítra á sunnudag.

Árangur Jóns var góður miðað við líksmsástand hans, en hann var alls ekki eins lipur og frískur og hann hefur áður verið á tugþrautarmótum. Ólafur komst í 3. sæti yfir bestu íslensku tugþrautarmennina frá upphafi með því að ná 7.535 stigum. Þráinn Hafsteinsson er í 2. sæti með 7.592 stig. Sveinn Þórarinsson stóð sig mjög vel og setti tvö Íslandsmet í drengjaflokki, 17­18 ára. Það fyrra setti hann í 400 metra hlaupi, hljóp á 49,59 sek., en það seinna var stigamet í tugþraut, 6.377 stig. Hann átti gamla metið sjálfur, 6.357 stig, en það setti hann á meistaramóti Íslands fyrir þremur vikum. Jón Arnar átti metið þar áður, 6.231 stig. Árangur Theodórs, 5.872 stig, gilti ekki, en hann hafði átt þriðja besta árangur liðsins, 6.375 stig, og bætti Sveinn því þann árangur um tvö stig. "Það er stefnan að bæta sig um þrjú stig næst," sagði Theodór í gamansömum tón.

Héldu fast í 2. sætið fyrri daginn

Liðið komst vel frá fyrstu grein þrautarinnar, 100 m hlaupi. Sveinn bætti persónulegt met sitt í þraut um 3/4 úr sekúndu þegar hann hljóp á 11,10 sek. Áður hafði hann hlaupið á 11,36 sek. í stöku spretthlaupi. Liðið fékk 2.638 stig fyrir hlaupið og var efst, en Portúgalir komu næstir með 2.596 stig. Gísli Sigurðsson, annar tveggja þjálfara liðsins, sagði að nú væru allir komnir vel af stað í þrautinni, "nú er mikilvægt að allir geri gilt í fyrstu tilraun í langstökkinu," sagði hann.

Jón Arnar var að vísu ekki viðstaddur þegar Gísli sagði þetta og gerði afdrifarík mistök með því að gera ógilt í fyrstu og síðustu tilraun. Gísli þjálfari var allt annað en ánægður með það, fórnaði höndum og lét Jón vita af óánægju sinni. Næsta stökk Jóns var því öryggisstökk ­ 7,14 metrar. "Þetta var bara hræðilegt," sagði Jón Arnar skömmu síðar. Ólafur og Sveinn bættu upp það sem á vantaði hjá Jóni, og minnstu munaði að Sveinn gerði enn meira en það þegar hann gerði hárfínt ógilt í síðustu tilraun sinni. "Ég náði bara einhverju undrastökki," sagði Sveinn hissa. Pétur Pétursson, fararstjóri, sagði Svein hafa lent á 7 metra línunni. Theodór var nokkuð frá sínu besta, en fann fyrir verkjum í vinstri ökkla á stökkfætinum, sem háði honum í nokkrum greinum. Eftir langstökkið féllu Íslendingar niður í annað sætið, sem þeir héldu til loka fyrri keppnisdags.

Jón var eini keppandinn sem kastaði kúlunni yfir 15 metra. Það gerði hann í fyrsta kastinu, en eftir það vildi hann ná yfir 16 metrana, en það hefur honum aldrei tekist í þraut. Honum tókst það ekki heldur núna og gerði ógilt í síðustu tilraun. Ólafur náði besta kasti sínu í þriðju og síðustu tilrauninni, 14,68 metrar, og var vel fagnað af þjálfurunum, þeim Kára Jónssyni og Gísla. Ungu drengirnir, þeir Sveinn og Theodór, hafa ekki líkamsburði til að kasta kúlunni langt. Sveinn gerði samt vel og setti persónulegt met.

Systkinasynirnir Jón Arnar og Ólafur lifðu hættulega í hástökkinu. Tvisvar komust þeir yfir í þriðju tilraun, Jón yfir 1,95 m og 1,98 m, en Ólafur yfir 1,92 m og 1,95 m. Hærra komust þeir þó ekki. Ökklameiðslin háði Theodóri bersýnilega í greininni. Hástökkið var eina greinin á fyrra degi þar sem Sveinn náði ekki að bæta sig. 8 keppendur fóru yfir tvo metra og aðalkeppinautur Jóns, Sebastian Chmara frá Póllandi, stökk 2,13 m.

Gísli þjálfari lét þau orð falla snemma í þrautinni að þrír Íslendingar gætu hlaupið 400 m undir 50 sek. Sú varð raunin og Sveinn setti Íslandsmet í flokki 17­18 ára. Ólafur komst einnig í fyrsta sinn undir 50 sek. og var hæstánægður með það. "Það var gaman að setja persónulegt met í 400 m hlaupi og að jafna annað 8 ára gamalt í hástökki," sagði Ólafur í lok fyrri dags.

Eftir þann dag var liðið í 2. sæti með 11.958 stig, en Pólverjarnir með Chmara í fararbroddi voru rúmum 300 stigum ofar. Portúgalir sóttu fast að Íslendingum og höfðu fengið 11.813 stig. "Við erum í skýjunum. Mér sýnist við vera að uppskera eftir því sem við höfum unnið að lengi. Það var líka gott að enda daginn með því að fara þrír undir 50 sek.," sagði Kári þjálfari. Jón Arnar sagði árangur sinn fyrri daginn hafa verið þokkalegan. "Þetta var ekkert slæmt, en ekkert gott heldur. Mér gekk þó ágætlega í 400 m hlaupinu, en langstökkið var algjör hörmung. Liðinu gekk vel. Ólafur og Sveinn eru að bæta sig og þetta lítur vel út. Morgundagurinn verður erfiður því þá koma fleiri tæknigreinar," sagði Jón Arnar, sem var í öðru sæti í einstaklingskeppninni eftir fyrri daginn.

Hvít-Rússar sterkari á seinni hlutanum

Íslensku keppendurnir voru ekki ánægðir með frammistöðu sína í fyrstu grein sunnudagsins, 110 m grindahlaupi. Þeim gekk erfiðlega að byrja aftur af krafti snemma morguns eftir erfiðan fyrri dag. "Ég var frekar stífur og þetta gekk hægt," sagði Jón Arnar. Ólafur rakst í 7. grind og missti aðeins taktinn. "Þetta stefndi í mjög gott hlaup," sagði hann. Theodór rakst í þá fyrstu og tókst ekki að bæta það upp ­ var langt frá sínu besta. "Ég var mjög reiður. Ég hefði viljað kasta kringlunni strax á eftir," sagði Theodór. Þreytumerki voru á Sveini í hlaupinu eftir góðan fyrri dag og var hann u.þ.b. sekúndu frá besta tíma sínum. "Þeir bæta þetta upp í kringlukastinu," sagði Kári.

Ekki tókst liðinu það, þótt Jón Arnar hefði næstum sett persónulegt met í kringlukasti í þraut en hann hefur lengst kastað 46,96 m. Ólafur var nokkuð langt frá sínu besta og taugar þeirra yngri voru farnar að gefa eftir.

Íslenska liðið var enn í 2. sæti eftir kringlukastið en varð að halda mjög vel á spöðunum til að halda því í stangarstökkinu. "Ég er hræddur um að Hvít-Rússar afgreiði þetta í stangarstökkinu," sagði Gísli. Hvít-Rússar, sem voru í 3. sæti, eru sterkir stangastökkvarar og átti íslenska liðið undir högg að sækja í greininni. Þrír Hvít-Rússar fóru yfir 4,50 m en aðeins einn Íslendingur komst yfir þá hæð, en það var Jón Arnar. Ólafur var óheppinn. Í fyrstu tilraun sinni við 4,30 m braut hann stöngina en hann virtist vera á góðri leið yfir. Í þeirri annarri komst Ólafur sjálfur yfir, en stöngin féll á rána og felldi hana. Ólafi mistókst síðan í þeirri síðustu. Sveinn vildi gera betur en að stökkva yfir 3,60 m og var mjög vonsvikinn ­ lá lengi á grúfu á dýnunni. Theodór var nálægt því að jafna persónulegt met sitt. Hver Hvít-Rússinn af öðrum lyfti sér yfir rána. Eftir stangarstökkið voru þeir komnir í 2. sætið, en Íslendingar færðust niður í það 3. Pólverjinn Chmara stökk 5,20 m og komst upp fyrir Jón á stigatöflunni.

Hvít-Rússar eru sterkir í síðustu greinum þrautarinnar og kunna margt fyrir sér í spjótkasti. Jón Arnar átti annað lengsta kastið í keppninni og endurheimti forystuna, var 69 stigum á undan Pólverjanum fyrir síðustu greinina, sem var 1500 m hlaup. Ólaf vantaði 5 metra til að vera við sinn besta árangur, en Theodór var undrandi á hve langt hann náði að kasta, en ökklameiðslin háðu honum mjög í greininni.

Íslendingar áttu enga möguleika á að ná Hvít-Rússum þegar 1500 m hlaupið hófst. Jón Arnar vissi að hann mátti ekki vera meira en u.þ.b. 11 sek. á eftir Chmara. Hann reyndi að halda í við hann, en Pólverjinn er léttari á fæti og komst í mark 13 sek. á undan. Þetta var því aðeins spurning um 2 sek. "Það má bara ekki tapa þessu svona," sagði Jón þegar hann sat við brautina og kastaði mæðinni, en þá voru úrslit mótsins ekki komin í ljós. Sveinn og Ólafur hlupu vel. "Það er besta tilfinning í heimi að vera búinn með þraut," sagði Sveinn örþreyttur, liggjandi á hástökksdýnu.

Vantar fleiri fullorðna menn

Þrátt fyrir að hafa misst af sigri í einstaklingskeppninni, var Jón nokkuð ánægður með þrautina í heild. "Ég tel mig hafa náð mjög viðunandi árangri. Ég er ánægðari með þennan dag en þann fyrri. Það var gaman að ná besta árangri landsliðsins í tugþraut. Við stefndum að því fyrst við komumst ekki upp í 1. deild," sagði Jón.

"Ég er mjög ánægður með Jón. Hann var ekki að keppa undir eðlilegum kringumstæðum, því hann hefur æft mikið undanfarið. Það að fara nálægt 8.300 stigum undir þessu æfingaálagi sýnir vel í hvernig ástandi hann er," sagði Gísli þjálfari. Hann var einnig ánægður með árangur liðsins. "Ég er ánægður með þrautina í heild. Við náðum besta árangri landsliðsins og vorum stutt á eftir Hvít-Rússum, en þeir unnu okkur á stangarstökkinu. Við áttum möguleika að komast upp, en okkur vantar fleiri fullorðna menn í liðið. Ungu drengirnir eru mjög efnilegir, en þeir eru bara ekki nógu sterkir," sagði Gísli. "Sveinn er mjög efnilegur og á eftir að verða góður," bætti hann við.

Ólafur komst í fyrsta sinn yfir 7.500 stig og er á hraðri uppleið. "Ég stefni á að komast á Ólympíuleikana í Sydney árið 2000," sagði hann. "Ég tel mig eiga góða möguleika á því."

Morgunblaðið/Kristinn JÓN ARNAR Magnússon. Edwin

Rögnvaldsson

skrifar frá

Slóveníu