EINVÍGI aldarinnar á milli þeirra Mikes Tysons og Evanders Holyfields um heimsmeistaratitil WBA í þungavigt hnefaleika í Las Vegas aðfaranótt sunnudags varð að hneyksli aldarinnar þegar áskorandinn, Tyson, var dæmdur úr keppni fyrir að bíta heimsmeistarann, Holyfield, í bæði eyrun.
Auga fyrir auga, tönn fyrir

tönn var ekki nóg

Villi-

dýrs-

eðlið

varð

Tyson að falli EINVÍGI aldarinnar á milli þeirra Mikes Tysons og Evanders Holyfields um heimsmeistaratitil WBA í þungavigt hnefaleika í Las Vegas aðfaranótt sunnudags varð að hneyksli aldarinnar þegar áskorandinn, Tyson, var dæmdur úr keppni fyrir að bíta heimsmeistarann, Holyfield, í bæði eyrun.

Atvik þetta á sér enga hliðstæðu í sögu íþróttarinnar en að dragandi þess var sá að í annarri lotu bardagans skallaði Holyfield Tyson eftir að heimsmeistarinn hafði læst þeim síðarnefnda ­ þ.e.a.s. haldið honum þétt upp að sér ­ og við þetta opnaðist nokkuð djúpur skurður á hægri augabrún Tysons. Dómarinn, Mills Lane, úrskurðaði hins vegar að um óviljaverk hefði verið að ræða en við það missti Tyson algjörlega stjórn á skapi sínu.

Þegar 33 sekúndur voru síðan eftir af þriðju lotu beit hann flipa af hægra eyra Holyfields, en fyrr í bardaganum hafði litið út fyrir að Tyson hefði reynt að brjóta handlegg heimsmeistarans. Í sömu andrá og Tyson hrækti út úr sér flipanum af eyranu stökk Holyfield hátt í loft upp af kvölum og gekk út í horn hringsins til aðhlynningar, en hljóp þá Tyson á eftir honum og ýtti heldur óþyrmilega á bak hans.

Þegar þarna var komið sögu bjuggust margir við að Lane dómari myndi umsvifalaust dæma Holyfield sigurinn því Tyson hafði greinilega tekið munnstykkið út úr sér áður en lotan hófst og var því um hreinan ásetning að ræða. Eftir að hafa skoðað sárið taldi læknir heimsmeistarans þó að hann gæti haldið áfram að berjast og hélt því lotan áfram. Lane dómari lét nægja að draga tvö stig frá Tyson, sem þegar var undir eftir fyrstu tvær loturnar, og aðvara hann með þeim orðum að ef þetta myndi gerast einu sinni enn myndi hann dæma Tyson úr keppni.

Tyson lét sér hins vegar ekki segjast og þegar tíu sekúndur voru eftir af þriðju lotunni beit hann Holyfield í vinstra eyrað svo á sá. Lane stóð við orð sín þegar lotunni lauk og dæmdi Holyfield sigurinn en varð þá allt vitlaust á hótelinu þar sem einvígið fór fram og þurftu lögregla og öryggisverðir að ryðja sér leið inn í hringinn og skerast í leikinn.

Ekki var hins vegar öllu lokið enn því þegar vösk sveit lögreglunnar reyndi að stilla til friðar gerði Tyson, sem áhorfendur bauluðu nú óspart á, sér lítið fyrir og greiddi einum lögreglumannanna bylmingshögg.

50 manns slösuðust í átökunum, þó enginn alvarlega, en þegar allt hafði fallið í ljúfa löð á ný var nýkrýndur heimsmeistarinn, Evander Holyfield, fluttur á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans.

Hið ótrúlega var hins vegar að þrátt fyrir öll lætin inni í hringnum fann einn starfsmanna hótelsins flipann af eyra Holyfields og var reyna að sauma hann á aftur með átta sporum.

Einvígið á laugardagskvöld var einhver furðulegasti atburður sem átt hefur sér stað í íþróttasögunni allri og mun að öllum líkindum skilja eftir sig skugga á hnefaleikum um ókomna tíð. Ekki er ólíklegt að unnendur hnefaleika hafi séð Mike Tyson, yngsta heimsmeistarann í greininni frá upphafi, berjast í hringnum í síðasta sinn en villidýrseðli þessa skapbráða þokkapilts virðist nú einn ganginn enn hafa orðið honum að falli.

Reuter HEIMSMEISTARINN Holyfield þjáðist greinilega mjög eftir að Tyson beit flipa af eyra hans, eins og sjá má á efri myndinni. Eyra Holyfields ber þess glöggt merki hvað Tyson gerði í þriðju lotu einvígisins um heimsmeistaratitil, eins og sést á þeirri neðri.