SORÐURLANDA-, Nærsvæða- og Evrópunefnd Norðurlandaráðs voru staddar hér á landi í síðustu viku vegna funda. Siv Friðleifsdóttir er varaformaður Evrópunefndarinnar, sem kom hingað til lands í beinu framhaldi af heimsókn nefndarinnar til Brussel.
Evrópunefnd Norðurlandaráðs

Ræddu við æðstu

ráðamenn ESB

SORÐURLANDA-, Nær svæða- og Evrópunefnd Norðurlandaráðs voru staddar hér á landi í síðustu viku vegna funda. Siv Friðleifsdóttir er varaformaður Evrópunefndarinnar, sem kom hingað til lands í beinu framhaldi af heimsókn nefndarinnar til Brussel.

­ Hvað er Evrópunefnd Norðurlandaráðs?

"Í byrjun árs 1996 var skipulagi Norðurlandaráðs breytt í kjölfar þess að þrjú Norðurlandanna, Danmörk, Svíþjóð og Finnland, höfðu gengið í Evrópusambandið. Þetta voru erfiðar breytingar og í þeim lá mikil vinna en mönnum fannst tímabært að endurskoða skipulag og starfsemi ráðsins til að mæta breyttum tímum.

Áður starfaði Norðurlandaráð í fagnefndum, eins og þjóðþingin gera, og einnig vann hvert land innan sinnar landadeildar. Nú starfar það hins vegar í þremur stórum nefndum í stað allra litlu fagnefndanna. Þessar nefndir eru Norðurlandanefnd, Nærsvæðanefnd og Evrópunefnd. Norðurlandanefndin fjallar um Norðurlönd auk þess sem hún fer með hefðbundin norræn samstarfsverkefni, eins og menningarmál. Nærsvæðanefndin fer með umhverfismál og samskipti við nærsvæðin, þar á meðal Eystrasaltsríkin. Evrópunefndin fer svo með Evrópumál, þ.e. samstarf Norðurlandanna gagnvart Evrópusambandinu og önnur Evrópumál. Önnur breyting á ráðinu er sú að í stað þess að löndin vinni í landadeildum erum við nú að starfa í pólitískum flokkahópum."

­ Hvernig starfar Evrópunefndin?

"Við erum búin að vera að fóta okkur áfram í þessum nýju vinnubrögðum og sem lið í því hefur Evrópunefndin gert ýmislegt, m.a. haldið tvær ráðstefnur um ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins. Á þessar ráðstefnur hafa komið utanríkisráðherrar Norðurlandanna, norrænir þingmenn á Evrópuþinginu og fólk sem er í lykilstöðum í Evrópunefndum þjóðþinganna. Þessar ráðstefnur hafa verið vettvangur norrænu landanna gagnvart ríkjaráðstefnunni þar sem við bæði fylgjumst með því sem þar er að gerast og ýtum á eftir málum."

­ Hvað voruð þið að gera í Brussel?

"Þetta var þriggja daga heimsókn og við hittum m.a. Emmu Bonino frá Ítalíu, Anitu Gradin frá Svíþjóð, og Erkki Liikanen frá Finnlandi, sem öll eiga sæti í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og fara þar með ákveðna málaflokka. Við hittum þau á sérstökum lokuðum fundum og var þetta því kjörið tækifæri til að ræða við valdamesta fólkið í Evrópusambandinu um það sem Norðurlöndin setja efst á sinn forgangslista. Ég vil taka það fram að sjávarútvegsmál voru ekki rædd við Emmu Bonino enda stóð það ekki til. Hins vegar kom fram í máli hennar að nú er tekið meira tillit til neytendamála innan sambandsins en verið hefur, en hún fer með þau mál."

­ Hvernig er samstarfi Norðurlandanna og samskiptum við Evrópusambandið háttað?

"Í Brussel áttum við fund með öllum sendiherrum Norðurlandanna, sem staðsettir eru í Brussel, þar sem þeir gerðu grein fyrir því hvernig þeir vinna saman að norrænum málum. Þar kom m.a. fram að samstarf norrænu landanna í Brussel er aðallega óformlegt samstarf bæði á milli sendiherra og sendiráða. Það eru haldnir fundir á milli fagaðila en auk þess hringja þeir mjög mikið sín á milli. Það eru ekki miklar stofnanir í kringum þetta samstarf en sendiherrarnir sögðu það þó skilvirkt. Einnig kom fram að Íslendingar eru mjög ánægðir með það upplýsingastreymi sem þeir fá frá þeim Norðurlöndum sem eru í Evrópusambandinu.

Þá kom það fram að sumir sendiherrarnir telja að þegar fleiri lönd komi inn í Evrópusambandið, sem er fyrirsjáanlegt þó það verði ekki alveg á næstunni, muni Norðurlöndin þurfa að vinna meira saman innan Evrópusambandsins. Í dag eru 15 lönd í sambandinu og ekki hægt að tala um neina norræna blokk innan þess þar sem Norðurlöndin hafa talið sterkara að tala hvert fyrir sig og koma sameiginlegum sjónarmiðum ítrekað á framfæri. Á næstu árum er sennilegt að löndum sambandsins fjölgi jafnvel upp í 27 og þá aukast líkur á að Norðurlöndin þurfi að vinna meira saman til að rödd þeirra heyrist."

Siv Friðleifsdóttir er fædd í Ósló árið 1962. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1982 og BS- prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands árið 1986. Hún starfaði fyrst sem sjúkraþjálfari en var kosin í bæjarstjórn Seltjarnarness, sem fulltrúi bæjarmálafélagsins, árið 1990. Hún var endurkjörin árið 1994 og kosin á þing árið 1995 fyrir Framsóknarflokkinn á Reykjanesi. Siv á sæti í utanríkisnefnd, heilbrigðisnefnd og félagsmálanefnd. Hún á einnig sæti í Norðurlandaráði þar sem hún er varaformaður Evrópunefndar. Einnig er hún fulltrúi Íslands í Vestur-Evrópusambandinu.Siv Friðleifsdóttir

Fáum mikilvægar upplýsingar frá Norðurlöndunum.