HLUTVERK SVR er að veita þjónustu á sviði fólksflutninga í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Í þjónustuframboði sínu leggur SVR áherslu á frumkvæði, markvissa boðmiðlun, öryggi, gæði og hæfni til að aðlagast breytilegum þörfum markaðarins. Að jafnaði eru farnar 22.000 ferðir á dag með SVR. Kannanir sýna að 25­30% borgarbúa nota strætó vikulega eða oftar.
Ferðamannafyrirtækið SVR

Góðar almenningssamgöngur, segir Þórhallur Örn Guðlaugsson eru gildur þáttur í ferðaþjónustu.

HLUTVERK SVR er að veita þjónustu á sviði fólksflutninga í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Í þjónustuframboði sínu leggur SVR áherslu á frumkvæði, markvissa boðmiðlun, öryggi, gæði og hæfni til að aðlagast breytilegum þörfum markaðarins. Að jafnaði eru farnar 22.000 ferðir á dag með SVR. Kannanir sýna að 25­30% borgarbúa nota strætó vikulega eða oftar. Ljóst er þó að viðskiptavinir SVR eru ekki eingöngu íbúar á höfuðborgarsvæðinu.

Könnun

Sumarið 1996 var gerð á vegum Reykjavíkurborgar könnun meðal erlendra ferðamanna sem sóttu Reykjavík heim. Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga með það fyrir augum að bæta þjónustuna við erlenda ferðamenn og geta unnið markvissar að markaðssetningu en hingað til. Í skýrslu, sem birtir niðurstöður könnunarinnar, kemur fram að yfirfæra megi niðurstöður hennar á alla þá erlendu ferðamenn sem koma hingað til lands og dvelja að minnsta kosti eina nótt í Reykjavík.

Margir fara í strætó

Ekki er það nú svo að allir þeir ferðamenn sem koma til Reykjavíkur taki sér far með strætisvagni. Hins vegar kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að 40% ferðamanna nýti sér þjónustu SVR. Þó vitað sé að ferðamenn noti strætisvagna mikið, kemur sú mikla notkun sem niðurstöður gefa til kynna nokkuð á óvart. Sem dæmi þá fara fleiri ferðamenn í strætó en í sund, Gullfoss og Geysi, Bláa lónið, Árbæjarsafn, Þjóðminjasafn eða kvikmyndahús svo eitthvað sé nefnt.

Ferðamenn frá Norður-Evrópu virðast mun líklegri en aðrir til að ferðast með strætisvögnum á meðan Norðurlandabúar nota strætisvagna hlutfallslega minnst. Nokkur munur er þó milli Norðurlandanna innbyrðis og sem dæmi þá nota einungis rúm 19% Dana strætisvagna á meðan rúm 47% Finna gera það.

Nokkur munur er einnig milli starfsstétta og stöðu viðkomandi. Ellilífeyrisþegar, stjórnendur og atvinnurekendur nota strætisvagna hlutfallslega minnst á meðan kennarar og nemar nota þá hlutfallslega mest. Ekki virðist vera marktækur munur milli aldurshópa eins og þeir voru skilgreindir í könnuninni.

Samkvæmt upplýsingum frá Upplýsingamiðstöð ferðamála, fór heildarfjöldi ferðamanna til Íslands í fyrsta skiptið yfir 200 þús. árið 1996. 95% þeirra koma til Reykjavíkur. Ef 40% þeirra nota strætó, má gera ráð fyrir að 76 þús. einstaklingar taki sér far með strætisvagni á meðan á dvöl þeirra stendur. Vitað er að þeir sem á annað borð nota strætó fara fleiri en eina ferð. Ef við gefum okkur að þeir sem nota strætó fari að jafnaði þrjár ferðir og borgi fullt fargjald, kr. 120, má áætla að tekjur SVR vegna erlendra ferðamanna séu á bilinu 25­30 millj. Munar um minna en þó ber að hafa í huga að hér er aðeins um að ræða 2­3% af heildarveltu SVR.

Ferðamenn ánægðir

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra er tóku afstöðu í könnuninni virtist vera ánægður með þjónustu SVR. Í könnuninni var spurt hversu auðvelt eða erfitt var að átta sig á leiðakerfi SVR. Tæp 60% áttu fremur auðvelt eða mjög auðvelt með að átta sig á leiðakerfinu. Sú mikla notkun á þjónustu SVR, sem niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna, bendir jafnframt til þess að hún sé ferðamönnum aðgengileg og uppfylli vel þeirra þarfir.

Dæmi eru einnig um að ferðamenn hafi haft samband við fyrirtækið og lýst ánægju sinni með þjónustuna. Sem dæmi þá barst SVR bréf frá enskum ferðamanni sem var hér á ferð sl. haust. Í bréfinu segir m.a.: "I would like to say, thank you very much, for a friendly and efficient bus service and to your staff who were so ready to help and advise." Og í íslenskri þýðingu: "Ég vil þakka þér kærlega fyrir vinalega og skilvirka þjónustu og starfsfólkinu sem var svo viljugt að hjálpa og leiðbeina."

Það er ánægjulegt þegar viðskiptavinir sjá ástæðu til að hrósa fyrir veitta þjónustu og er vissulega hvetjandi fyrir starfsfólk fyrirtækisins.

Mikilvægi SVR

Ljóst er að þjónusta SVR er ekki frumaðdráttarafl fyrir ferðamenn sem hingað koma. Menning og náttúra landsins hefur þar líklega mest að segja. Þjónusta SVR er hluti af þeim þáttum sem auðvelda eiga ferðamönnum að sækja okkur heim. Ef marka má niðurstöður könnunarinnar meðal erlendra ferðamanna eru góðar almenningssamgöngur mikilvægar í því sambandi. Stór hluti ferðamanna notar strætisvagna sem fyrsta kost til að komast milli staða. Áfangastaðurinn er oftar en ekki miðborg Reykjavíkur, en þangað sækja margir ferðamenn ýmsa þjónustu, s.s. kaffihús og verslanir. Góðar almenningssamgöngur, þ.e. að vagnar verði fyrir sem minnstum töfum og umhverfið sé vinsamlegt, er því sameiginlegt hagsmunamál allra er starfa við ferðaþjónustu.

Þórhallur Örn Guðlaugsson

Höfundur er forstöðumaður markaðs- og þróunarsviðs SVR.