EKKI virðist skipta sköpum hvort kunnátta nemenda er prófuð snemma eða við lok skyldunáms, á báðum þessum tímamótum sama vankunnátta. Almenningur telur framtíð barna sinna stefnt í tvísýnu með þessari vankunnáttu í viðamiklum greinum. Kennarar virðast annarrar skoðunar. Þann 18.
Almenning og kennara greinir á um gildi TIMSS- skýrslu

Margföldunartaflan var talin svikamilla djöfulsins, segir Jón Á. Gissurarson , sem forða bæri börnum frá að kynnast.

EKKI virðist skipta sköpum hvort kunnátta nemenda er prófuð snemma eða við lok skyldunáms, á báðum þessum tímamótum sama vankunnátta. Almenningur telur framtíð barna sinna stefnt í tvísýnu með þessari vankunnáttu í viðamiklum greinum. Kennarar virðast annarrar skoðunar.

Þann 18. júní spurði DV: "Sýnir Timms (sic) að rangri skólastefnu hafi verið fylgt hérlendis síðastliðin ár?" Svanhildur Kaaber svarar: "Nei - alls ekki ..." Úr orðum hennar má lesa að nemendur sæki ekki skóla til þess að auka þekkingu sína, heldur til þess að öðlast umburðarlyndi og víðsýni. Rangt sé að miða við Asíu-þjóðir, þær fá hæsta einkunn, nær væri bera okkur saman við nágrannaþjóðir, þær séu álíkar skussar og við, enda skyldastar að menningu.

Svanhildur er síður en svo ómerkingur meðal grunnskólakennara. Sjálf er hún kennari og varaformaður fræðsluráðs. Hún er fyrrverandi formaður Kennarafélags Íslands og þá í fylkingarbrjósti endurtekinna verkfalla kennara. Má því ætla að hún tali fyrir hönd grunnskólakennara.

Lítum um öxl. Í upphafi áttunda tugs þessarar aldar var ýmislegt á döfinni sem gjörbylti öllu skólakerfi. Skal hér vikið að þremur atriðum. Rauðsokkahreyfingin reið húsum og öflugri en nokkurn tíma endanær. Með offorsi réðst hún gegn háttalagi giftra kvenna, sem þá gættu bús og barna, þeim væri nær að fara út á vinnumarkað - og þær hlýddu kalli. Nú höfðu ýmsir gagnfræðaskólar komið á fót hússtjórnardeildum sem bjuggu stúlkur undir heimilisstörf. Aðsókn hafði verið meiri en húsrúm leyfði en hvarf nú með öllu. Hússtjórnarskólar vítt og breitt um landið lögðu líka upp laupana, höfðu þó verið eftirsóttir og best búnu skólar þá á Íslandi.

Landspróf hafði valið nemendur inn í menntaskóla. Þeir einir komust í gegn sem vænta mátti að réðu við háskólanám. Þegar hér var komið sögu lá próf þetta undir gagnrýni, enda orðið einstrengingslegt með eindæmum, gerði lítinn mun á aðal- og aukaatriðum. Kennsla dró dám af þessu og varð andlaus ítroðsla. Í stað þess að ráða hér bót á var próf þetta fellt niður og allar gáttir opnaðar öllum sem lokið hafa lokaprófi grunnskóla.

Á dögunum skýrði háskólarektor frá að einungis þriðjungur þeirra, sem innritast í HÍ ljúki námi með prófi, hinir hefðu ekki haft nægan undirbúning. Allir höfðu þó lokið stúdentsprófi. Sía í líkingu við landsprófið gamla hefði forðað mörgum frá slíku skipbroti og sparað ríkinu of fjár.

Sálfræðingar, námsráðgjafar og félagsfræðingar færðust mjög í aukana um þessar mundir, enda hefur menntamálaráðherra eftir traustum heimildum að þá "hefðu uppeldis- og kennslufræðingar í raun tekið kennara í fóstur." Kennaraefni í KÍ fóru ekki varhluta af því fóstri og fengu sitt veganesti. Margföldunartafla væri svikamilla djöfulsins. Forða bæri börnum að komast í tæri við hana. Sem kennarar virðast þeir hafa fylgt því af kostgæfni. Upp á íslenska nemendur mætti heimfæra kviðling frá Höfn: Á veturna þeir reikna ekki en slumpa/ á vorin þeir taka ekki próf en dumpa; enda ekki í samræmi við "umburðarlyndi og víðsýni" hennar Svanhildar Kaaber.

Brýnt er að kjör kennara batni svo að hæfir kennarar fáist að skólum landsins. Vænta má að sveitarfélög verði leiðitamari í þeim efnum en ríkið var, enda eiga varla annarra kosta völ. Gæti það orðið á ýmsan hátt sem ekki ylli spennu á vinnumarkaði.

Gísli Helgason rektor leggur til að lögleidd verði skólagjöld í framhaldsskólum og þeim varið til launauppbótar kennara. Þetta er fýsilegur kostur. Þyrfti að hrinda því í framkvæmd hið bráðasta áður en um seinan yrði. Efnahagur fjölda manna er svo rúmur að án teljandi fórna þyldu þeir þessi útgjöld, barnafjöldi hverrar fjölskyldu er svo lágur að sjaldan þyrfti að grípa til þessara ráða. Með þessari gjaldtöku næðist og í nokkuð af því fé sem skotið er undan skatti. Auðvitað yrði heimilt að undanþiggja þurfandi nemendur og þá sem sækja verða skóla fjarri heimabyggð.

Jón Á. Gissurarson

Höfundur er fyrrv. skólastjóri