Í BLAÐI Þroskahjálpar var nýlega lýst eftir pólitískum vilja til að tryggja fötluðum jafnrétti til menntunar og skólagöngu. Stefnan RITSTJÓRNARGREIN blaðsins er rituð af Gerði Steinþórsdóttur. Þar segir m.a.: "Landssamtökin Þroskahjálp hafa mótað skýra stefnu í menntamálum og varðað leið að settu marki.
»Menntun

fatlaðra Í BLAÐI Þroskahjálpar var nýlega lýst eftir pólitískum vilja til að tryggja fötluðum jafnrétti til menntunar og skólagöngu.

Stefnan

RITSTJÓRNARGREIN blaðsins er rituð af Gerði Steinþórsdóttur. Þar segir m.a.:

"Landssamtökin Þroskahjálp hafa mótað skýra stefnu í menntamálum og varðað leið að settu marki. Jafnrétti til menntunar og skólagöngu telst til grundvallarmannréttinda. Í stefnuyfirlýsingunni segir: "Möguleikar fatlaðra til menntunar og starfa eru aðeins að hluta háðir sjálfri fötluninni. Lífsgæði þeirra eru ekki síður undir viðhorfum samfélagsins komin og þeim vaxtarskilyrðum sem það býr þeim." Þessi orð mættu margir hugleiða.

Næg þekking

"TIL að fatlaðir nemendur fái góða kennslu í framhaldsskólum landsins þarf að hyggja að mörgu. Til þess þarf fjármagn, gott skipulag og markvisst þróunarstarf. Þá þarf sérmenntað starfslið og kennslugögn við hæfi. Ég hygg að við búum yfir nægri þekkingu til að leysa vandann á stuttum tíma, sé pólitískur vilji fyrir hendi. Um þessi atriði öll og miklu fleiri er fjallað í yfirlýsingu sem samþykkt var í Salamanca á Spáni 1994 af 92 ríkisstjórnum, þ.á m. ríkisstjórn Íslands. Þessari yfirlýsingu fylgir greinargóð rammaáætlun í 85 liðum um aðgerðir vegna nemenda með sérþarfir.

Forgangsverkefni

ÞAR segir að virkasta leiðin til að tryggja menntun öllum til handa sé að koma á skólum án aðgreiningar og beri því að taka þá leið upp sem opinbera stefnu og forgangsverkefni. Það geti verið raunhæf byrjun að styrkja þá skóla sem vilja stuðla að námi án aðgreiningar eða koma á staðbundnum tilraunaverkefnum. Þannig fáist reynsla sem nauðsynleg er til að gera hið sama víðar og útfæra framkvæmdina á almennan hátt. Borgarholtsskóli er gott dæmi um slíkan tilraunaskóla."

Pólitískur vilji

Í lok ritstjórnargreinarinnar, sem rituð er á vegum stjórnar Þroskahjálpar, segir m.a., að lýst sé eftir eindregnum pólitískum vilja til að halda áfram á þessari braut. Þá þurfi foreldrar fatlaðra barna ekki að halda ein út í óvissuna með börn sín.