ALMENNINGUR í Perú hefur snúið baki við Alberto Fujimori forseta landsins og hafa óvinsældir hans aldrei verið meiri frá því hann hófst til valda árið 1990. Þetta kemur glögglega fram í tveimur skoðanakönnunum sem birtar voru í Perú á dögunum og gefa þær til kynna að mikil umskipti hafi orðið á stjórnmálasviðinu þar í landi.
Þverrandi stuðningur við Alberto Fujimori, forseta Perú Almenningur hafnar einræðinu Stjórnarandstaðan í Perú segir að þar hafi lýðræðið verið fótum troðið og þar ríki "mafía" í skjóli Alberto Fujimori forseta. Ásgeir Sverrisson segir frá tilraunum forsetans til að hundsa stjórnarskrána og vaxandi óánægju í röðum almennings. ALMENNINGUR í Perú hefur snúið baki við Alberto Fujimori forseta landsins og hafa óvinsældir hans aldrei verið meiri frá því hann hófst til valda árið 1990. Þetta kemur glögglega fram í tveimur skoðanakönnunum sem birtar voru í Perú á dögunum og gefa þær til kynna að mikil umskipti hafi orðið á stjórnmálasviðinu þar í landi. Fyrir aðeins tveimur mánuðum studdu um 70% kjósenda í Perú forsetann, sem nú er vændur um valdníðslu og stjórnarskrárbrot. Kannanir þessar sýna að almenningur í Perú hefur fengið sig fullsaddan af einræðislegum stjórnarháttum Fujimori sem ítrekað hefur fótum troðið leikreglur lýðræðisins til að treysta völd sín. Nú virðist forsetinn hafa gengið of langt. Tilraunir hans til að tryggja sér þriðja kjörtímabilið á forsetastóli, þvert á það sem stjórnarskrá landsins mælir fyrir um, hafa sýnilega lagst illa í landsmenn, sem nú lýsa yfir því að þeir beri ekki traust til Fujimori. Í könnunum þessum tveimur kváðust 66-68% þeirra sem þátt tóku vera andvígir stefnu forsetans. Í annarri könnuninni sögðust 89% þeirra sem spurðir voru bera lítið eða ekkert traust til Fujimori. "Þetta er mikið fylgistap sem virðist viðvarandi," sagði Bernando Vervojsky, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Analistas y Consultores, sem sá um að gera aðra könnunina, í viðtali við spænska dagblaðið El País . Upphafning "hetjunnar" Fyrir aðeins tveimur mánuðum var staðan önnur. Þá lýstu um 70% Perúbúa yfir stuðningi við Alberto Fujimori. Þessar miklu vinsældir áttu rætur að rekja til árásar perúskra sérsveita á bústað sendiherra Japana í Lima, höfuðborg Perú, þar sem vinstrisinnaðir skæruliðar höfðu mánuðum saman haft erlenda gísla í haldi. Aðgerðin heppnaðist fullkomnlega. Skæruliðarnir féllu allir í árásinni en fram hafa komið fullyrðingar þess efnis að nokkrir þeirra hafi verið teknir af lífi eftir að hafa gefist upp. Fujimori bauð til sannkallaðrar sjónvarpsveislu. Í fjölmiðlum í Perú var látið líta svo út sem forsetinn hefði skipulagt aðgerðina og birtar voru myndir af honum þar sem hann, klæddur skotheldu vesti og hinn vígalegasti í hvívetna, gaf fyrirskipanir til hermanna í gegnum talstöð. Myndir voru birtar af forsetanum þar sem hann stóð við lík hins fallna leiðtoga skæruliðanna og á blaðamannafundi sem boðað var til eftir árásina tók forsetinn að sér að útskýra í smáatriðum hvernig staðið hefði verið að frelsun gíslanna. Þetta hreif og landsmenn fylltust lotningu og aðdáun en erlendir fulltrúar fjölmiðla og sendimenn í Perú kváðust aldrei hafa orðið vitni að viðlíka lýðskrumi. Stjórnarskráin til vandræða Stjórnarhættir Fujimoris hafa löngum sætt gagnrýni. Í aprílmánuði árið 1992 lýsti hann yfir því að stjórnarskrá landsins hefði tímabundið verið felld úr gildi og vísaði til þess að öryggi landsins væri ógnað innan frá. Þetta virtust landsmenn geta liðið ekki síst þar sem stjórnarhernum tókst loks að handtaka heimspekinginn hámenntaða Abimael Guzmán, leiðtoga skæruliðasamtakanna "Skínandi stígs" (Sendero Luminoso), sem staðið höfðu fyrir fjölmörgum sprengjutilræðum og illvirkjum er kostað höfðu mikinn fjölda mannslífa. Forsetinn þráaðist lengi við að leiða stjórnarskrána í gildi á ný, sem aftur kallaði yfir hann gagnrýni erlendis frá. Mafíu-stjórn Á síðustu árum hefur gagnrýnin magnast ekki síst af hálfu rithöfunda og menntamanna sem kosið hafa að yfirgefa fósturjörðina. Skáldmennið Mario Vargas Llosa lýsti þannig nýverið yfir því að Perú væri ekki lýðræðisríki heldur væri þar við völd einræðisherra, sem safnað hefði um sig hópi glæpamanna. Undir þessi orð tekur Henry Pease, þingmaður flokksins UPP (Unión Por el Perú) en leiðtogi þessara samtaka er Javier Pérez de Cuellar, fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Pease telur að "mafía" hafi tekið völdin í Perú og segir þjóðfélagið allt nötra og skjálfa af þeim sökum. Fjölmiðlum ógnað Fjölmiðlamenn í Perú segja að Fujimori og menn hans hiki ekki við að hafa í hótunum við þá sem dirfist að andmæla stefnu og stjórnarháttum forsetans. "Sýndarlýðræði" ríki í landinu ekki ósvipað því sem við eigi í Króatíu þar sem Franjo Tudjman forseti hefur hundsað flest grundvallarviðmið lýðræðislegra stjórnarhátta. Stjórnarandstaðan segir að blásið hafi verið til herferðar gegn dagblöðum þeim sem ekki séu Fujimori undirgefin og öllum þeim sem á einhvern hátt geti ógnað einræðisstjórn hans. Fyrrum starfsmaður leyniþjónustunnar í Perú (SIE) fullyrðir að stjórnvöld hafi áformað að láta myrða sjónvarpsfréttamanninn César Hildebrandt sem gengið hefur einna lengst í gagnrýni sinni á Fujimori. Rannsóknar hefur verið krafist en þá kröfu virðast stjórnvöld ætla að virða að vettugi. "Þjóðin þarfnast mín" Á undanförnum tveimur mánuðum hefur mesta athygli vakið tilraun Fujimori til að túlka stjórnarskrána með þeim hætti að honum sé heimilt að bjóða sig fram á ný þegar kjörtímabili hans lýkur árið 2000. Skömmu eftir árásina á sendiherrabústaðinn, þegar vinsældir forsetans voru mestar, lýsti Fujimori yfir því að hann hygðist fara fram á ný þar sem við blasti að honum væri það heimilt og þjóðin þyrfti enn á kröftum hans að halda, líkt og nýverið hefði sannast. Ólíkt því sem við á um flest ríki Suður-Ameríku kveður stjórnarskrá Perú skýrt á um að forseti megi aðeins sitja tvö kjörtímabil en Fujimori segir það ákvæði ekki eiga við þar eð hann hafi verið kjörinn árið 1995 samkvæmt nýrri stjórnarskrá, sem samþykkt var naumlega í þjóðaratkvæðgreiðslu árið 1993. Fujimori var fyrst kjörinn forseti Perú árið 1990 og aftur tveimur árum síðar eftir að hann hafði numið stjórnarskrána úr gildi. Nú heldur hann því fram að hann hafi í raun aldrei verið endurkjörinn. Þessi túlkun forsetans vakti strax hörð viðrögð. Þrír dómarar í stjórnarskrárdómstóli Perú lýstu yfir því að þessi ákvörðun forsetans væri ólögleg og skýlaust stjórnarskrárbrot. Fujimori brást hinn versti við og rak dómarana úr embætti með aðstoð undirsáta sinna á þingi. Dómararnir neita að gefast upp og hafa vænt forsetann um valdarán. Þeir segja að um pólitíska aðför sé að ræða til að tryggja einræðisstjórn Fujimori lengri lífdaga. Fólkið gegn forsetanum Vera kann að forsetinn hafi nú gengið of langt þó svo hann sýni engin merki iðrunar og reynslan kenni að hann sé tilbúinn til að sýna algjört miskunnarleysi í átökum við andstæðinga sína. Almenningur í Perú virðist að sönnu litla virðingu bera fyrir valdastéttinni sem ræður þar ríkjum en öðru máli gegnir um stjórnarskrárdómstólinn, sem settur var á laggirnar sem óháð dómsvald til að unnt reyndist að bregðast við sérhverri tilraun ráðamanna til að hundsa lögin í landinu. Skoðanakannanirnar eru til marks um að alþýða manna styðji dómarana og vilji að ráðamenn starfi í samræmi við reglur lýðræðisins. Framtíð lýðræðisins í Perú kann því að ráðast af viðbrögðum forsetans. Fujimori