HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra segist hlynntur því að Pósti og síma hf. verði skipt upp í tvö fyrirtæki. "Þegar lögin um Póst og síma hf. voru sett var gert ráð fyrir að fyrirtækinu yrði skipt í tvennt. Nú er verið að athuga ofan í kjölinn hvort slík breyting er hagkvæm og ef svo reynist vera, finnst mér að það eigi að gerast eins fljótt og kostur er.
Samgönguráðherra um Póst og síma hf.

Verði skipt sem fyrst

ef það er hagkvæmt

HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra segist hlynntur því að Pósti og síma hf. verði skipt upp í tvö fyrirtæki. "Þegar lögin um Póst og síma hf. voru sett var gert ráð fyrir að fyrirtækinu yrði skipt í tvennt. Nú er verið að athuga ofan í kjölinn hvort slík breyting er hagkvæm og ef svo reynist vera, finnst mér að það eigi að gerast eins fljótt og kostur er."

Eins og fram kom í samtali við Guðmund Björnsson, forstjóra Pósts og síma hf., í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag, hefur stjórn Pósts og síma hf. óskað eftir því við samgönguráðherra að fyrirtækinu verði skipt upp í tvennt, Póst annars vegar og Síma hins vegar. Guðmundur sagði að samfara miklum breytingum á fjarskiptum og póstþjónustu ættu pósturinn og síminn minna sameiginlegt en áður og því ekki mikil ástæða til að reka þessa þjónustu undir sama hatti. Telur hann að aðskilnaður þessarar þjónustu myndi meðal annars leiða til aukinnar hagræðingar sérstaklega í póstþjónustu en nú er pósturinn rekinn með tapi á meðan hagnaður er af rekstri símans.

Ekki þarf sérstaka lagabreytingu til að Pósti og síma hf. verði skipt uppí tvö fyrirtæki. Ef slíkt verði talið hagkvæmt sér samgönguráðherra ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækin verði orðin tvö um næstu áramót.