NÝR heiðursborgari Stykkishólms er Árni Helgason en Ólafur Hilmar Sverrisson bæjarstjóri greindi á afmælishátíðinni frá þeirri ákvörðun bæjarstjórnar frá 26. júní að gera Árna að heiðursborgara. Slík viðurkenning var síðast veitt fyrir 17 árum, þá Jóhanni Rafnssyni.
Í göngutúr á hverjum degi og heimsæki kunningjana

NÝR heiðursborgari Stykkishólms er Árni Helgason en Ólafur Hilmar Sverrisson bæjarstjóri greindi á afmælishátíðinni frá þeirri ákvörðun bæjarstjórnar frá 26. júní að gera Árna að heiðursborgara. Slík viðurkenning var síðast veitt fyrir 17 árum, þá Jóhanni Rafnssyni.

"Ég veit ekki hvort ég á þetta skilið," hafði Árni á orði við blaðamann þegar reynt var að ná spjalli af honum milli þess sem bæjarbúar óskuðu honum til hamingju með viðurkenninguna. Hafði hann þetta reyndar á orði þegar hann tók við hamingjuóskunum en menn voru á einu máli um að hann væri vel að þessu kominn og sumir nefndu að það væri löngu tímabært. "Þetta kom mér mjög á óvart og ég hef ekki áttað mig almennilega á þessu ennþá".

Árni býr nú á dvalarheimilinu og er mikið á ferli. "Ég borða þar og sef en er mikið heiman frá mér á daginn, fer í göngutúr á hverjum degi, heimsæki kunningjana og skrepp öðru hverju til Reykjavíkur og heimsæki þá gjarnan ritstjórn Morgunblaðsins," segir Árni en hann hefur í meira en hálfa öld sent blaðinu fréttir og myndir frá Stykkishólmi. Hann leggur í dag upp í sex daga ferð til Hornafjarðar með gömlum samstarfsmönnum frá Pósti og síma.

Bindindismál og margháttuð félagsmál önnur voru dagleg viðfangsefni Árna með annasömu starfi fyrir Póst og síma en hann er annar núlifandi stofnenda Lionsklúbbsins í bænum og einn stofnenda lúðrasveitarinnar á lýðveldisárinu. "Ég lék á althorn en hætti því eftir nokkur ár þar sem ég átti erfitt með að mæta á æfingar," segir Árni sem gerði líka mikið af því að yrkja gamanvísur og syngja á mannamótum við góðan orðstír.

Kona Árna var Ingibjörg Gunnlaugsdóttir sem lést fyrir nokkrum árum. "Það breyttist mikið hjá mér við fráfall hennar en ég les og fylgist með fréttum og tel mig þokkalega hressan þótt ég sé orðin hægari en var," segir Árni sem enn heldur sér við efnið með því að senda öðru hverju frá sér áminningar um bindindismálin. "Ég skil ekki hvernig menn tíma að eyða tíma og peningum í það að eyðileggja sig á áfengi," sagði Árni í Hólminum að lokum og bað fyrir þakklæti til bæjarstjórnar fyrir þann heiður sem sér hefði verið sýndur.

NÝR heiðursborgari Stykkishólms er Árni Helgason.