HVERS VEGNA er sýningartími nýlegra Disney-teiknimynda einungis rúmlega fjörutíu mínútur á meðan eldri myndbönd eins og Konungur ljónanna eru með næstum helmingi lengri sýningartíma? Verðmunurinn er lítill.
Spurt og svarað um neytendamál Stutt Disney- myndbönd

HVERS VEGNA er sýningartími nýlegra Disney-teiknimynda einungis rúmlega fjörutíu mínútur á meðan eldri myndbönd eins og Konungur ljónanna eru með næstum helmingi lengri sýningartíma? Verðmunurinn er lítill. Hver er skýringin?

Svar: Eyþór Guðjónsson, markaðsstjóri hjá Sam-myndböndum, segir að ástæðan sé sú að Disney geri bæði myndir í fullri lengd fyrir kvikmyndahús eins og Konung ljónanna og síðan styttri þætti sem fara beint á myndband eins og t.d. Sögur úr Andabæ. "Við förum eftir stöðlum sem berast frá Disney-fyrirtækinu og svipað fyrirkomulag er í flestum löndum sem selja Disney-spólur," segir Eyþór. Hann bendir á að þessar styttri myndbandsspólur séu ódýrari en þær sem eru í fullri lengd eða 300 krónum munar í verði frá Sam-myndböndum. "Á hinn bóginn ráðum við ekki útsöluverði búðanna.

Við erum undir afar ströngu eftirliti frá Disney-fyrirtækinu en forsvarsmenn ytra fara fram á að fá send eintök af öllum hulstrum, veggspjöldum, auglýsingum og svo framvegis. Meðal skilyrða sem þeir setja er að allar spólur séu merktar með sýningartíma svo viðskiptavinir geti áttað sig á því hvað þeir eru að kaupa."

­ Hvaða teiknimynd kemur næst?

"Næsta stóra útgáfa er teiknimyndin Dúmbó í ágúst sem um þessar mundir er verið að talsetja."

Arfinn í garðinum

- Hvað á til bragðs að taka þegar arfi er orðinn hvimleiður í trjábeði og blönduðu beði?

Svar:"Björn Gunnlaugsson garðyrkjukandidat og ráðunautur hjá Gróðurvörum segir að ef um trjábeð sé að ræða geti fólk tekið til bragðs að hreinsa þau einu sinni nokkuð gróflega. Eftir það er eiturefninu Casaron stráð yfir. "Það er líka hægt að nota sáldur, möl eða trjákurl. Árangursríkast er að útvega börk því í honum eru vaxtartregðuefni sem hindra vöxt illgresis."

Arfaeyðirinn Topgun hefur verið nokkuð notaður. Í honum eru náttúruleg lífræn efni og hann er millistig eiturs og lífrænna aðferða.

"Ef um blönduð beð er að ræða má ekki nota Casaron en Topgun arfaeyðir kemur til greina. Honum má þó alls ekki úða á skrautplöntur en svæði í beðinu eru úðuð þar sem gróður þekur ekki.

Sáldur má nota á sama hátt og í trjábeðum."

Ef erfitt er að verða sér úti um trjákurl geta garðeigendur sjálfir búið það til. Ef trjákurlari er ekki til á heimilinu er hægt að leigja slíka vél á ýmsum stöðum og segir Björn að hjá þeim kosti hálfsdagsleiga á tækinu frá 1.200 krónum. Trjágreinar úr garðinum eru settar í kurlarann og kurlið síðan sett í beðin.

Að sögn Björns eru önnur eiturefni til á arfa en greint er frá hér að ofan en í þeim tilfellum þurfa garðeigendur að leita sérstaklega til ráðgjafa á sölustöðum.

Morgunblaðið/Árni Sæberg