STIGAR eru í öllum húsum, sem eru fleiri en ein hæð. Þeir eru lífæð húsanna, en um þá fer öll umferð á milli hæðanna, nema lyftur taki af þeim ómakið. Það skiptir því miklu máli, hvernig þeir eru hannaðir. Í viðtalsgrein eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttir hér í blaðinu í dag er fjallað um stiga, en þar ræðir hún við arkitektana Helgu Gunnarsdóttur og Hildigunni Harðarsdóttur.
Stigar í húsum STIGAR eru í öllum húsum, sem eru fleiri en ein hæð. Þeir eru lífæð húsanna, en um þá fer öll umferð á milli hæðanna, nema lyftur taki af þeim ómakið. Það skiptir því miklu máli, hvernig þeir eru hannaðir. Í viðtalsgrein eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttir hér í blaðinu í dag er fjallað um stiga, en þar ræðir hún við arkitektana Helgu Gunnarsdóttur og Hildigunni Harðarsdóttur. Þar segir, að fágætt sé, að fólk hafi fastmótaðar hugmyndir, hvernig standa skuli að gerð stiga í húsum sínum. Nútímafólk sættir sig samt ekki við, að aðalstigi í nýjum húsum sé brattur, en brattir stigar eru algengir í eldri húsum. Þá er það mikilvægt fyrir fatlað fólk, að hugsað sé fyrir þörfum þess, þegar hús eru hönnuð og svæði skipulögð. Léttir stigar eru nú vinsælir, þó að það sé ekki einhlít regla. Í flestum tilvikum ræður það sjónarmið, að stiginn taki sem minnst pláss. Í stórum húsum með mikilli lofthæð er þetta stundum leyst með því að hafa tvo palla milli hæða. Í íbúðarhúsum er aftur á móti algengast að hafa einn pall á milli hæða. Í byggingarreglugerð eru strangari reglur um útitröppur en aðra stiga. Þær Helga og Hildigunnur leggja báðar á það áherzlu, að með útitröppum, sem ekki eru með hitaleiðslum, sé beinlínis verið að búa til slysahættu, t. d. þegar hálkublettir myndast á tröppunum.