Ólafur og Theodór í samfloti KEPPT var í tveimur flokkum í stangarstökki og voru dýnurnar hlið við hlið. Svo skemmtilega vildi til að þeir Ólafur Guðmundsson og Theodór Karlsson stukku samtímis á báðum stöðum.
Ólafur og Theodór í samfloti

KEPPT var í tveimur flokkum í stangarstökki og voru dýnurnar hlið við hlið. Svo skemmtilega vildi til að þeir Ólafur Guðmundsson og Theodór Karlsson stukku samtímis á báðum stöðum. Ólafur var að reyna að komast yfir 4,20 m og lagði af stað aðeins á undan, en Theodór freistaði þess að stökkva yfir 4 metra slétta. Þeir stukku báðir í sömu andrá og fóru hátt yfir. Þeir félagar höfðu mjög gaman af þessu atviki eins og félagar þeirra. Ólafur var aftur á móti nokkuð vonsvikinn þegar hann komst að því að Pétur fararstjóri hafði ekki tekið stökkin þeirra upp á myndbandstökuvél, sem hann hafði notað töluvert yfir helgina.

Þröngt um Jón Arnar

SJÁ mátti á svip Jóns Arnars að honum var brugðið þegar hann klæddist hvítri keppnistreyju sinni, en hún var af kvennastærð. Hann fékk að heyra glósur frá félögum sínum, sem ræddu af kappi um kosti og alla þess að vera í of lítilli treyju í tugþrautarkeppni, en Jón hafði þetta einnig í flimtingum sjálfur. "Ég var bara látinn hafa þennan bol," sagði hann, sem varð að vera í þessum þrönga bol sínum allt til loka því hann hafði engan til vara með í för.

Gunnhildur keppti ein

GUNNHILDUR Hinriksdóttir úr íþróttafélaginu Eilífi í Mývatnssveit var á meðal keppenda í sjöþraut en FRÍ gat ekki sent sjöþrautarlandsliðið til keppni vegna þess að bestu frjálsíþróttakonur landsins tóku þátt í Evrópumóti í Danmörku á sama tíma. Gunnhildur hljóp 100 m á 16,50 sek., stökk 1,60 m í hástökki, varpaði kúlunni 8,06 m og hljóp 200 m á 26,86 sek. fyrri daginn. Þann síðari stökk hún 5,36 m í langstökki, kastaði spjótinu 27,62 m, sem hún var ekki allskostar ánægð með, og hljóp 800 m á 2.27,29 mín. Alls hlaut hún 4.336 stig. "Þetta er ein lélegasta þrautin mín í langan tíma," sagði Gunnhildur.