INGI Björn Albertsson var um helgina ráðinn þjálfari Stjörnunnar í Garðabæ og tekur hann við á næstu dögum. Ingi Björn er ekki óvanur þjálfun því hann hefur haldið um stjórnartaumana hjá FH, Val, Breiðabliki og Keflavík auk þess sem hann hefur þjálfað kvennaflokka og yngri flokka. Ingi Björn er kvæntur Magdalenu Kristinsdóttur og eiga þau hjón sex börn. Ingi Björn er fæddur í Nice í Frakklandi 3.
NAFN VIÐ STOFNANDI:: SUS \: \: Fær íþróttamaðurinn INGI BJÖRN ALBERTSSON aldrei leið á íþróttum? Ekki nokkur

einasta leið

INGI Björn Albertsson var um helgina ráðinn þjálfari Stjörnunnar í Garðabæ og tekur hann við á næstu dögum. Ingi Björn er ekki óvanur þjálfun því hann hefur haldið um stjórnartaumana hjá FH, Val, Breiðabliki og Keflavík auk þess sem hann hefur þjálfað kvennaflokka og yngri flokka. Ingi Björn er kvæntur Magdalenu Kristinsdóttur og eiga þau hjón sex börn. Ingi Björn er fæddur í Nice í Frakklandi 3. nóvember 1952 en flutti til Íslands með foreldrum sínum árið 1955.

Ingi Björn hefur leikið knatt spyrnu frá blautu barnsbeini, enda var Albert Guðmundsson faðir hans einn besti knattspyrnumaður sem Ísland hefur alið. Þrátt fyrir að hafa komið víða við í knattspyrnunni hefur hann gefið sér tíma til að "snerta aðeins á öðrum íþróttagreinum", eins og hann orðaði það. Þegar Morgunblaðið náði sambandi við hann í gærkvöldi var hann að gleypa í sig matinn eftir að hafa leikið golf og var á leiðinni að fylgjast með knattspyrnuleik. En var ekki ætlunin að taka golfið föstum tökum í sumar?

"Jú, jú, það var meiningin, en nú verður það að bíða. Þetta passaði alveg. Það er vika síðan ég var tekinn inn í Golfklúbb Reykjavíkur og þetta er sennilega síðasta vikan sem ég leik golf í sumar. Golfið verður bara að bíða betri tíma."

Þú hefur komið víða við, setið á Alþingi maðal annars. Æfðir þú knattspyrnu með þingmönnum?

"Já, blessaður vertu. Það var fyrsta málið sem ég kom í gegnum þingið; að útvega æfingatíma í Valsheimilinu fyrir þingmenn og þeir æfa þar ennþá."

Eru einhverjir frambærilegir knattspyrnumenn sem leynast á Alþingi?

"Við skulum segja að þeir hafi mjög sérstakan stíl."

Einhver, eða einhverjir sem hafa sérstakari stíl en aðrir?

"Jaaaá. Já og nei. Þeir verða svo montnir þessir blessaðir fyrrum starfsfélagar ef ég tek einhverja útúr ­ og hinir að sama skapi sárir. Ég held ég sleppi því að skapa mér velvild sumra þeirra og illvilja hinna."

Þú varst að taka við Stjörnunni og í beinu framhaldi af þingumræðunni má því spyrja hvort þú sért bjargvætturinn úr Árbænum.

"Tja, það á alveg eftir að koma í ljós. Hver og einn hjálpar sér alltaf sjálfur og menn verða að sameinast um að skila félaginu á viðunandi stað í deildinni. Ég tel að það sé allt til staðar til þess. Ég sé ekki annað en að félaginu sé vel stjórnað og aðstaðan góð. Leikmannahópurinn er góður, líka þó svo það sé nokkuð um meiðsli sem stendur. Þegar menn jafna sig af þeim er efniviðurinn nægur til að liðið sé í efstu deild knattspyrnunnar."

Nú varðst þú afi á dögunum þegar Kristbjörg dóttir þín og Guðmundur Benediktsson eignuðust son. Eins og þú veist tala margir um að faðir þinn heitinn gæti eignast alnafna.

"Jú, jú, ég kannast við þessa umræðu. Þau eru ekki búin að nefna drenginn og ég er ekkert viss um að það verði endilega niðurstaðan."

Ert þú eitthvað að blanda þér í þetta?

"Nei, alls ekki. Það er alveg fráleitt."

Þú ert einn þeirra sem hvarfst ekki af sjónarsviðinu eftir að þú hættir að keppa. Færðu aldrei leið á íþróttum?

"Nei, það er ekki nokkur einasta leið að fá leið á íþróttum. Sem betur fer eru til íþróttir sem henta hvaða aldri sem er. Þegar einni lýkur, sem krefst æsku, táps og fjörs, eru til aðrar greinar sem taka við. Þar má meðal annars nefna golf og hestamennskan er önnur."

Morgunblaðið/Arnaldur INGI Björn Albertsson með golfkylfurnar sem hann ætlaði að nota mikið í sumar en verða nú að bíða betri tíma. Eftir

Skúla Unnar

Sveinsson