Veitingastaðurinn Við Pollinn Sjallinn tekur yfir reksturinn REKSTRARAÐILAR Sjallans á Akureyri taka yfir rekstur veitingastaðarins Við Pollinn í dag, 1. júlí.
Veitingastaðurinn Við Pollinn Sjallinn tekur

yfir reksturinn

REKSTRARAÐILAR Sjallans á Akureyri taka yfir rekstur veitingastaðarins Við Pollinn í dag, 1. júlí. Þórhallur Arnórsson, framkvæmdastjóri Sjallans segir að Pollurinn njóti vinsælda og hafi gott orð á sér og því sé stefnt að því að reka staðinn áfram á sömu nótum.

Þórhallur segir að unga fólkið sæki frekar Sjallann en aftur eldra fólk Við Pollinn. Hann segir mögulegt að samnýta staðina að einhverju leyti, t.d. varðandi starfsfólk og skemmtikrafta.

Grand ehf. heitir fyrirtækið sem rekur Sjallann og er það í eigu Þórhalls og Elís Árnasonar. Þórhallur segir að rekstur Sjallans hafi gengið vel og hann segir það leggjast vel í sig að takast einnig á við rekstur Pollsins.

Veitingastaðurinn Við Pollinn er til húsa að Strandgötu 49 og hefur verið rekinn af Gránufélaginu, sem einnig á húsnæðið. Gránufélagið er í eigu hjónanna Sigurðar Sigurðssonar og Auðar Dúadóttur og Alfreðs Gíslasonar og Köru Guðrúnar Melstað.