FORSETI Albaníu, Sali Berisha, viðurkenndi síðdegis í gær að flokkur hans, Demókrataflokkurinn, hefði beðið ósigur í þingkosningunum sem fram fóru í landinu á sunnudag. Bashkim Fino, sitjandi forsætisráðherra Sósíalistaflokksins, lýsti því yfir í gær að flokkur sinn hefði unnið sigur í kosningunum, og að þær hefðu farið vel fram.
Eftirlitsfulltrúar sáttir við framkvæmd kosninganna í Albaníu Berisha ját-

ar ósigur

Tirana. Reuter.

FORSETI Albaníu, Sali Berisha, viðurkenndi síðdegis í gær að flokkur hans, Demókrataflokkurinn, hefði beðið ósigur í þingkosningunum sem fram fóru í landinu á sunnudag. Bashkim Fino, sitjandi forsætisráðherra Sósíalistaflokksins, lýsti því yfir í gær að flokkur sinn hefði unnið sigur í kosningunum, og að þær hefðu farið vel fram.

Úrslit í kosningunum hafa ekki verið formlega tilkynnt. Berisha sagði í gær að svo virtist sem albanskir kjósendur hefðu ákveðið að Demókrataflokkurinn yrði í stjórnarandstöðu. Flokkurinn var við völd frá 1992 þar til í mars sl. er Fino tók við. Þá hafði verið mynduð 10 flokka stjórn til þess að hefta rísandi óöld í landinu. Enn hefur ekki tekist að koma á lögum og reglu í suðurhlutanum.

Berisha kvaðst myndu standa við öll loforð sem hann hafði gefið í kosningabaráttunni, en ekki var ljóst í gær hvort hann ætlaði að láta af embætti. Hann hefur gefið í skyn nokkrum sinnum að hann myndi hætta ef vinstrimenn bæru sigur úr býtum í kosningunum.

Leiðtogi sósíalista, Fatos Nano, sem látinn var laus úr fangelsi í mars sl., sagði á sunnudagskvöld að flokkur hans hefði unnið 60 sæti af þeim 115 sem kosið var um. Sagði Nano, að ásamt samstarfsflokkum á vinstri vængnum hefðu sósíalistar náð tveim af hverjum þrem sætum á þingi, og myndi það duga til þess að úthýsa Berisha forseta með atkvæðagreiðslu.

Kosningar fóru fram í landinu í fyrra, en ollu deilum og voru gagnrýndar af fulltrúum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem höfðu eftirlit með þeim. Fulltrúar ÖSE, Evrópuráðsins og Bandaríkjanna fylgdust með kosningunum á sunnudag og voru að flestu leyti sáttir við framkvæmd þeirra.

Reuter

UNGUR Albani situr á öxlum föður síns þar sem stuðningsmenn Sósíalistaflokksins fögnuðu í Tirana í gær.