Hólmfríður Ólafsdóttir Kragh Látin er Hólmfríður P. Ólafsdóttir Kragh, eða Fríða Kragh eins og hún var nefnd í daglegu tali. Ég kynntist Fríðu þegar ég kynntist konu minni, Sólveigu, en hún er bróðurdóttir Fríðu. Ég man hve mér fannst Fríða hafa yfir sér heimsborgaralegt yfirbragð. Framkoman "elegant" og fáguð. Fríða var ætíð það sem kallað er heimavinnandi húsmóðir. Hún hélt heimili fyrir Hans bónda sinn og bróðurinn Kristján. Hans vann alla sína starfstíð hjá Símstöðinni í Reykjavík. Þetta var áður en tímaleysi og streita tóku völd og þá var almennt að menn höfðu klukkutíma í matarhlé. Það var því í hverju hádegi að sporléttur maður gekk Suðurgötuna meðfram gamla kirkjugarðinum til að hitta sína frú, snæða og ræða málin. Ég var það lánsamur að koma um tíma nokkuð oft til þeirra í hádeginu og verða vitni að þessari föstu hefð margra áratuga og um leið að upplifa þá elsku sem var á milli Fríðu og Hansa. Þau voru samhent í einu og öllu og KR var þeim eitthvað alveg heilagt. Enda ekki furða, Hans hafði verið keppnismaður í knattspyrnu fyrir KR til margra ára og eftir að skórnir fóru á hilluna tóku félagsstörfin fyrir félagið þeirra við. KR skipaði stóran sess í lífi þeirra hjóna. Það auðveldaði mér inntökuna í hádegissamfélagið að hafa sömu trúna og þau hjón hvað KR varðaði.

Hans lést 9.12. 1978 og var það óvænt fráfall og mikið áfall. Hann hafði þá hætt störfum einni viku áður og ekkert sem benti til annars en að þau ættu mörg góð ár eftir saman. Fríða og Hans voru barnlaus en frá því 1950 var til heimilis hjá þeim bróðir Fríðu, Kristján Valgeir. Fríða og Hans voru samtaka í að reynast Kristjáni vel og eftir fráfall Hans bjuggu þau Kristján bæði áfram á Birkimelnum. Samband þeirra var sérstaklega náið og fallegt, velferð Kristjáns var Fríðu allt.

Fríða hafði átt við vanheilsu að stríða til nokkurra ára og dvalist að mestu síðustu þrjú árin á Vífilsstöðum og þar lést hún. Hún tók þeim örlögum með sínu góða geði og jafnlyndi og dásamaði mjög þá velvild sem starfsfólkið á Vífilsstöðum sýndi henni ætíð þann tíma sem hún dvaldi þar.

Fríða var sem fyrr segir ætíð mjög jákvæð, en hún var undir lokin tilbúin til að kveðja þennan heim og hitta sinn kæra Hansa á nýjan leik. Einu áhyggjur hennar voru hvernig Kristjáni hennar myndi farnast. Nú er það ættingja og vina að sjá til þess að ævikvöld hans verði notalegt.

Dómkirkjan var kirkja Fríðu eins og svo margra af eldri borgurum Reykjavíkur, hvar svo sem þeir hafa sett sig niður innan borgarmarkanna. Í Dómkirkjunni var hún fermd, þar giftu þau sig, þar var Hans jarðsunginn og þar vildi hún láta útför sína fara fram. Þann tíma er þau bjuggu á Birkimelnum og Hans vann í miðbænum var gamli kirkjugarðurinn miðja vegu milli þeirra og fram hjá honum var gengið oft á dag í nær fjörutíu ár. Þar hvílir Hans í dag og þar munu þau hvíla saman. Hringnum er lokað og gengin er góð kona.

Börn okkar Sólveigar, Hrund og Steinar Þór, sakna þess að geta ekki, vegna dvalar erlendis, fylgt góðri frænku síðasta spölinn. Þau senda kærar kveðjur og við þökkum samfylgdina.

Sveinn H. Skúlason.