Keld Gall Jørgensen

Góður vinur okkar, Keld Gall Jørgensen, bókmenntafræðingur og háskólakennari, verður í dag borinn til grafar í Óðinsvéum, þar sem hann lést aðeins fjörutíu og tveggja ára að aldri, eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Við kynntumst Keld fyrst sem starfsbróður en þau kynni urðu skjótt að vináttu. Sú vinátta hélst óskert þótt hann flyttist aftur til Danmerkur þar sem hann kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Annette, og eignaðist með henni dóttur og stjúpsyni. Það er sárt að horfa á eftir slíkum sómadreng, sem var fullur af lífsvilja og metnaðarfullum áformum.

Keld kom til Íslands snemma á níunda áratugnum með þáverandi eiginkonu sinni, Ragnheiði Ragnarsdóttur, en með henni eignaðist hann tvær dætur. Hann lét fljótlega að sér kveða í íslensku menningarlífi með greinaskrifum, fyrirlestrahaldi og dagskrárgerð í útvarpi. Einnig kenndi hann dönsku og danskar bókmenntir og var um sex ára skeið sendilektor í dönsku við Háskóla Íslands. Keld var sannkallaður völundur á þeim starfsvettvangi sem hann valdi sér. Snar þáttur í ævistarfi hans var að byggja brýr skilnings milli þeirra menningarheima sem hann þekkti best, Danmerkur og Íslands. Hér á landi var hann óþreytandi við að kynna í ræðu og riti það sem hæst bar í dönskum bókmenntum og menningarumræðu. Í heimalandi sínu ritaði hann greinar um Ísland og íslenskar bókmenntir, en e.t.v. ber hæst að hann þýddi á dönsku nokkur nýleg íslensk bókmenntaverk, m.a. skáldsögurnar Hringsól eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur og Falsarann eftir Björn Th. Björnsson, sem og tvær Íslendingasögur, Gísla sögu Súrssonar og Egils sögu. Hann þýddi einnig skáldsagnabálk Péturs Gunnarssonar um Andra, en sú þýðing hefur enn ekki verið prentuð. Þegar hann féll frá var hann að hefjast handa við að þýða Brennu-Njáls sögu. Fáir voru jafn ötulir og hann að fjalla um og kynna íslenska menningu á Norðurlöndunum, þannig að Ísland hefur nú misst atkvæðamikinn sendiherra í menningarmálum. Og áhugi hans var ekki einskorðaður við bókmenninguna, eins og glöggt kom í ljós sumarið 1995 þegar þau Annette komu hingað, ferðuðust með börnin vítt og breitt um Ísland og enduðu ferðalagið með því að kaupa sér tvo íslenska hesta sem fluttir voru til Óðinsvéa.

Keld náði aðdáunarverðum tökum á íslensku, ritaði skýrt og fagurt mál og talaði rétt og nánast hreimlaust, þótt danskur sjarmi litaði málfar hans alla tíð. Sem dæmi um vald hans á máli okkar og menningu má nefna að hann er einn fárra útlendinga sem skrifað hafa ritdóma um nýjar íslenskar bækur í dagblöð hér á landi.

En Keld lét sér ekki nægja að smíða skilningsbrýr milli þjóða. Hann var einnig hugkvæmur fræðimaður og kenningasmiður. Hérlendis var hann ötull við að kynna nýja strauma í bókmenntafræði sem og tengsl hennar við málvísindi og sálgreiningu. Auk fjölmargra greina sem birtust í tímaritum, samdi hann fjórar bækur á dönsku um bókmenntagreiningu, táknfræði, stílfræði og þýðingafræði, sem allar komu út hjá viðurkenndum forlögum, m.a. komu tvær þeirra út hjá hinu virta útgáfufyrirtæki Gyldendal. Þegar veikindi hans ágerðust á síðasta ári var hann staddur í Bandaríkjunum þar sem hann var að leggja drög að því sem átti að verða hans stærsta framlag til fræðanna, en það var hagnýting kenninga bandaríska heimspekingsins C.S. Peirce í þágu málvísinda. Því miður entist Keld ekki aldur til að ljúka við þær rannsóknir, en grein hans um þetta viðfangsefni birtist í bók um hagnýta táknfræði sem hann ritstýrði og kom út í Kaupmannahöfn fyrir örfáum vikum.

Keld lagði sérstaka rækt við Íslendingasögurnar. Auk fyrrnefndra þýðinga fjallar ein bóka hans um viðtökur Íslendingasagna í Danmörku og er það verk byggt á doktorsritgerð hans. Einnig ritaði hann nokkrar fræðilegar greinar um einstakar sögur, m.a. um táknfræði og Egils sögu, í samvinnu við Árna Sigurjónsson, og um tímann í Gísla sögu Súrssonar og Vopnfirðingasögu. Greinar þessar eru merkilegt framlag til rannsókna á menningararfi Íslendinga.

Keld var hæfileikamaður á mörgum sviðum. Sem dæmi má nefna að á unglingsárunum vann hann til fjölmargra verðlauna sem knattborðsleikari. Það er freistandi að tengja það við þann árangur sem hann náði síðar í rannsóknum sínum. Hæfileiki hans til að skynja og skilja flókið samspil afls, tíma og rúms á knattleiksborðinu nýttist honum síðar í vinnu með erfið hugtök og gerði honum kleift að koma auga á reglu þar sem aðrir greindu óreiðu eina. Í þessu sem öðru komu fram skapfesta hans og þolgæði, eiginleikar sem hann þurfti mjög á að halda síðustu ævimisseri sín í baráttu við sjúkdóminn sem varð honum að aldurtila.

Keld var einstaklega ljúfur maður og hjartahlýr, fágaður í framkomu og skýr í hugsun. Hann var skemmtilegur félagi, hafði hárfínt skopskyn og næmt auga fyrir fjölbreytileika mannlegrar tilveru. Við hugsum með söknuði til góðra stunda sem við áttum saman, oftar en ekki yfir góðum mat og drykk. Það er heldur kuldalegra um að litast í heiminum nú þegar Keld er allur.

Eiginkonu Kelds, börnum og öðrum vandamönnum sendum við hugheilar samúðarkveðjur.

Ástráður Eysteinsson,

Friðrik Rafnsson.

Torfi H. Tulinius.