Eyvör Ingibjörg Þorsteinsdóttir Fáein kveðjuorð til elskulegrar tengdamóður minnar, Eyvarar Ingibjargar Þorsteinsdóttur, sem í friðsæld kvaddi eftir eins árs veikindi, sem hún bar mjög vel, því andlegur lífsþróttur hennar var óbugaður nánast til hins síðasta, en líkaminn ekki eins sterkur, í eitt ár er hún búin að berjast hetjulegri baráttu. Fyrir ári um þetta leyti var hún að hafa áhyggjur af því hvort gengi nú vel að fá ökuskírteinið endurnýjað og keyrði bílinn sinn af miklu öryggi allt sem hún þurfti, var ekki mikið fyrir að biðja um aðstoð, spilaði brids við vinkonur sínar tvisvar í viku og mundi allt sem hún vildi muna.

Atgervi og mannkosti átti hún ekki langt að sækja, faðir hennar, Þorsteinn, skipstjóri og dannebrogsmaður, hafði orð á sér fyrir greiðvikni og framsýni, mjög vel ritfær, ritaði m.a. í Ísafold og Ægi um menntun og kjör sjómanna, hafnarmál og slysavarnir, m.a. hvatamaður að stofnun slysavarnafélags. Móðir hennar, Kristín, verður ekkja 1918, þá með fimm börn, það elsta 17 ára og yngsta 4 ára, segir það mikið hennar dugnaðarsögu, að hún á þessum erfiðu tímum ein og óstudd hélt saman heimilinu, kom upp börnum sínum og öllum til mennta. Framganga tengdamóður minnar einkenndist af þessum eiginleikum. Í veikindum hennar komu ekki síst sterkt fram allir hennar góðu eiginleikar, aldrei heyrðist hún kvarta, henni liði vel, allir væru svo elskulegir við hana og nú færi þetta allt að lagast, hún var sannkölluð dama fram í fingurgóma. Tilveran hafði verið svo góð við hana, að láta útlitið hæfa innrætinu, hún var einstaklega falleg kona, hún Eyvör, eins og systur hennar voru einnig, gamalt fólk hefur sagt mér að þær Garðhúsasystur við Bakkastíg í Reykjavík hafi þótt athygliverðir kvenkostir og tengdamamma sagði mér sögur af því, að þrátt fyrir lítinn húsakost í Garðhúsum, var herramönnunum sem voru það heppnir að þær þáðu boð þeirra á dansleiki, ævinlega boðið til stofu áður en dömurnar fylgdust með þeim. Væri ég nægjanlega ritfær gæti ég skrifað heila bók um ævina hennar Eyvarar Ingibjargar, hún hafði skemmtilega frásagnargáfu og stutt var í glettnina, hún sagði frá hestaferðunum um Ísland, þegar hún var leiðsögumaður, sá ég hana fyrir mér glæsilega og reista, hvernig sem aðstæður voru og margt framandi heimskonunni, borgarbarninu. Hún var mjög vel skrifandi og talandi bæði á ensku og dönsku, hún gat einnig bjargað sér á þýsku og frönsku.

Eitt gamalt máltæki kemur upp í huga mér þegar ég hugsa til hennar: Maður þarf ekki alltaf að syngja allt sem maður kann. Hún kunni að þegja þegar það átti við, en engum duldist þó að þarna fór kona sem hafði sínar ákveðnu meiningar, sem ekkert breyttust við vindblæ. Fyrir rúmum tuttugu árum, þegar við vorum að kynnast, vorum við báðar mjög varkárar, en við náðum að kynnast og ég lærði að meta staðfestu hennar og ólýsanlega umhyggju hennar fyrir börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, systkinum og systkinabörnum sem hún vakin og sofin vildi gefa allt sitt besta, hún lagði mikla rækt við að treysta fjölskylduböndin, sem hún mat öðru fremur og allt fram að því síðasta safnaði hún öllum hópnum sínum í kringum sig með stórveislum hvenær sem tækifæri gafst og þau sem erlendis voru í námi og starfi við þau tækifæri fengu þá upphringingar frá henni og fengu brot af hátíðinni.

Eyvör átti sína barnatrú óskerta, hún hampaði henni ekki, en naut þaðan friðar og styrks, hún stundaði kirkjuna sína og til minningar um trúarstaðfestu hennar er fallegi altarisdúkurinn í Álftaneskirkju á Mýrum, sem hún saumaði af mikilli vandvirkni og gaf árið 1950, í þakklæti fyrir þrjú heilbrigðu börnin sín.

Hún hefði ekki verið ánægð með mikil skrif um sig, en ég get ekki látið hjá líða að þakka henni fyrir góða viðkynningu og leiðbeiningar á lífsbrautinni. Einnig vil ég þakka henni fyrir elsku og umhyggju sýnda langömmubörnunum, barnabörnum okkar Jóns, sem eru börn Guðmundar og Bonniar; Bragi, María Sjöfn, Styrmir Þór, Valgerður Bára og Jón Baldur, börn Kristínar Önnu og Kristins; Gunnar Jón og Helga María og barn Björgvins og Sigríðar Dóru; Margrét Erla.

Ég þakka starfsfólki Hrafnistu í Hafnarfirði frábæra og nærfærna aðhlynningu, sem Eyvör mat mikils.

Lýk ég þessum orðum með tveim erindum úr Hulduljóðum Jónasar Hallgrímssonar, sem hún hafði yndi af:

Smávinir fagrir, foldar-skart,

fífill í haga, rauð og blá

brekkusóley, við mættum margt

muna hvort öðru að segja frá.

Prýðið þér lengi landið það,

sem lifandi guð hefir fundið stað

ástarsælan, því ástin hans

allstaðar fyllir þarfir manns.Faðir og vinur alls, sem er!

annastu þennan græna reit;

blessaðu faðir! blómin hér,

blessaðu þau í hverri sveit.

Vesalings sóley! sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig;

hægur er dúr á daggar-nótt;

dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

Blessuð sé minning Eyvarar Ingibjargar Þorsteinsdóttur.

Valgerður Bára

Guðmundsdóttir.