ÓLAFUR ÞORSTEINSSON

Ólafur Eysteinn Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 18. júní 1933. Hann lést á Landspítalanum 25.júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sveiney Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 29. júní 1906 í Keflavík, d. 5. ágúst 1991, og Þorsteinn Loftsson, bifreiðarstjóri, f. 17. október 1904 í Neðra-Seli í Landssveit, d. 5. júlí 1976. Systkini Ólafs eru Sveinn Þórir, f. 1929, kvæntur Hjördísi Einarsdóttur, og Sólveig, f. 1931, sem gift var Sverri Jónssyni en hann lést 1966. Ólafur kvæntist 1955 Hólmfríði Björnsdóttur. Þau slitu samvistir. Börn þeirra eru: 1) Elsa Jóhanna, f. 1956, maki Rúnar Jónsson. Þeirra börn eru Tinna, Guðrún Ósk og Hólmfríður Björk. 2) Droplaug, f. 1960, hennar barn er Ólafur. 3) Þorsteinn, f. 1962, maki Jóna Fanney Kristjánsdóttir. Þeirra börn eru Sigurbjörg Tekla og Saga Líf. Sambýliskona Ólafs var Guðrún Björgvinsdóttir, þau slitu samvistir. Dóttir þeirra er Rósa, f. 1963, maki Ellert S. Markússon. Þeirra börn eru Hörður Scheving, látinn, Guðrún Björg og Anna Karen. Ólafur var starfsmaður Flugfélags Íslands og síðar Flugleiða allt frá árinu 1952. Útför Ólafs fer fram frá Langholtskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.