Ólafur Þorsteinsson Einn af mínum kærustu og bestu vinum er farinn. Hann Ólafur Þorsteinsson, alltaf kallaður Lalli, kvaddi þennan heim 25. júní. Mig langar til að kveðja hann með fáeinum orðum.

Þegar ég hugsa aftur í tímann, kannski sextán ár eða meira, þá sé ég best hvað ég hef verið heppin að eiga þig fyrir traustan og tryggan vin sem alltaf var tilbúinn til að hlusta og taka þátt í gleði og sorg með mér. Þú lést þér alltaf annt um það hvernig mér liði á leið til betra lífs og þú barst virðingu fyrir því sem ég var að gera og þökk sé þér fyrir það, vinur. Það var alltaf svo gott að hringja í þig eða fá þig í kaffi til að spjalla saman. Lalli minn, þú varst nefnilega maður sem var hægt að treysta fullkomlega fyrir sínum innstu málum, maður vissi alltaf að það færi ekki lengra. Það eru ýmis verkefni lögð fyrir mann í lífinu og það verður bara mikið léttara að takast á við þau þegar maður getur miðlað því með öðrum og það stóð aldrei á þér að veita mér áheyrn. Já, Lalli minn, ég þakka þér fyrir allar þær stundir sem við sátum og röbbuðum saman og ég geymi þær í minningunni um þig. Meira að segja í veikindum þínum varst þú að hlífa mér og sagðir sem minnst um líðan þína. Það er mikið fyrir að þakka að hafa fengið að vinna með þér í 15 ár hjá Flugleiðum og það voru góð ár sem ekki gleymast og fá svo að eiga þig fyrir vin sem eftir var.

Jæja, Lalli minn, nú kveð ég þig með innilegri virðingu og þakklæti og ég á eftir að sakna þín, minn kæri. Ég bið Guð að gefa ættingjum og vinum þínum styrk í gegnum sorgina.

Guð blessi svo minningu góðs drengs.

Þín vinkona,

Edda.