ÞÓRÐUR KRISTLEIFSSON

Þórður Kristleifsson var fæddur á Uppsölum í Hálsasveit 31. mars 1893. Hann lést á Droplaugarstöðum í Reykjavík 24. júní síðastliðinn. Foreldrar hans, Andrína Guðrún Einardóttir, f. 31.8. 1859 á Urriðafossi í Villingaholtshreppi, d. 25.1. 1899 á Stórakroppi, og Kristleifur Þorsteinsson, f. 5.4. 1861 á Húsafelli í Hálsasveit, d. 1.10. 1952 á Stórakroppi. Systkini Þórðar voru: Katrín, f. 20.4. 1889, d. 7.12. 1890; Þorsteinn, f. 4.10. 1890, d. 7.9. 1990; Ingibjörg, f. 28.11. 1891, d. 8.9. 1930; Katrín, f. 16.9. 1894, d. 10.4. 1991; Einar, f. 7.6. 1896 , d. 14.10. 1982: Jórunn, f. 5.10. 1897, d. 27.5. 1972; Andrína Guðrún, f. 4.1. 1899, d. 18.12. 1985; systir samfeðra Guðný, f. 14.5. 1900, d. 2.11. 1932, og stjúpsystir Kristín Jónatansdóttir, f. 19.8. 1883, d. 28.11. 1967. Þórður kvæntist 11.9. 1931 Guðrúnu Hólmfríði Eyþórsdóttur, f. 12.3. 1897 á Tindum í Svínavatnshreppi, d. 25.5. 1983 í Reykjavík. Þau eignuðust dóttur 3. okt 1936 sem andaðist skömmu eftir fæðingu. Foreldrar Þórðar fluttu að Stórakroppi 1897 og þar ólst Þórður upp. Eftir að móðir hans dó kom Snjáfríður Pétursdóttir að Stórakroppi og hún varð stjúpmóðir Þórðar. Þórður fór í skólann í Hjarðarholti í Dölum 1913-1914 og 1915- 1916. Hann starfaði við plægingar í Borgarfirði, var í Reykjavík 1919-1920 við nám í þýsku, dönsku og píanóleik. Árið 1920 fór hann til Sjálands í Danmörku og vann þar við jarðræktarstörf, 1921-1925 við tónlistarnám í Dresden og Mílanó á árunum 1925- 1927. Hann kenndi í Reykjavík 1928- 1930 í einkaskóla söng, þýsku og ítölsku. Hann var ráðinn söngkennari við Menntaskólann á Akureyri 1930 og fór í námsför til útlanda og kynnti sér tónlistarkennslu í skólum, einkum söngkennslu. Þegar hann kom heim úr þessari för var ráðherra búinn að ráða annan í starf hans. Hann gerðist kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni 1931. Þegar skólanum hafði verið sagt upp á vorin fór Þórður að þjálfa kóra á Akureyri og Reykjavík. Tók hann söngmenn kóranna í tíma og kenndi þeim söng. Ef til vill voru Jóhann Konráðsson og Friðrik Eyfjörð meðal þekktustu nemenda Þórðar frá þessum tíma. Þegar Menntaskólinn á Laugarvatni var stofnaður réðst hann yfirkennari við hann og starfaði þar til 1963. Eftir það kenndi hann nokkuð við Menntaskólann í Reykjavík. Þórður kenndi aðallega söng, þýsku og íslensku. Þórður var mikill frömuður á sviði söngmála. Hann þýddi ljóð og orti talsvert. Hann hvatti föður sinn við ritstörf, bjó verk hans til prentunar og gaf út ritsafn hans, Úr byggðum Borgarfjarðar og Fréttabréf úr byggðum Borgarfjarðar. Þórður gaf út bækurnar: Skólasöngva 1931 (í samvinnu við félaga á tónlistarsviði), Ljóð og lög á árunum 1939-1949, Íslenskuð söngljóð 1957, Baugabrot 1973, Hrakhólamenn 1979 (í Borgfirskri blöndu), Bugumst ekki bræður góðir (í Andvara), Prestsdóttirin frá Reykholti og hagyrðingurinn frá Jörfa (í Andvara). Hann var ritstjóri Viðars, ársrits héraðsskólanna 1939-1942. Áður en hann fór til náms erlendis var hann einn aðalhvatamaður að stofnun Bræðrakórsins en það var söngfélag sem stofnað var 1915 og starfaði lengi í Borgarfirði undir stjórn Bjarna Bjarnasonar á Skáney. Hann var einn af stofnendum Ungmennafélags Reykdæla og sá yngsti. Útför Þórðar fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30.