Þórður Kristleifsson Þegar Menntaskólinn að Laugarvatni var stofnaður 12. apríl 1953 var Þórður Kristleifsson einn þeirra sem skipaðir voru fastir kennarar hans. Kennslugreinar hans voru þýska og söngur. Þórður stóð þá á sextugu, hafði kennt við skólana á Laugarvatni frá 1930 en þar áður, frá 1927, starfað við söng- og tungumálakennslu í Reykjavík. Frá 1920­27 hafði hann dvalist erlendis við söng- og tónlistarnám. Auk kennslu hafði hann haldið söngnámskeið víða um land, gefið út bækur, þ. á m. hið stórmerka rit föður síns Úr byggðum Borgarfjarðar í þremur bindum og safnið Ljóð og lög í sjö heftum. Þess utan hafði hann þýtt, eða íslenskað, erlend ljóð til söngs, þekktast af því mun vera Vetrarferðin eftir W. M¨uller, auk þess sem hann orti sjálfur ljóð til söngs, eins og bók hans, Íslenskuð söngljóð, frá 1957, o.fl. ber vitni um.

Það hefði því mátt ætla að Þórður hefði viljað fara að rifa seglin um það leyti er hann komst á sjötugsaldurinn. En slíkt hvarflaði áreiðanlega ekki að honum. Um það munum við öll geta vitnað sem vorum nemendur hans á þeim árum. Það er varla ofmælt að hver kennslustund í þýsku hjá Þórði hafi verið sérstök lífsreynsla, svo ótrúlegum árangri náði hann í því að halda öllum við efnið, virkum og kappsömum, þótt misvel upplagðir væru að öðru leyti. Eftir á að hyggja giska ég á að þjálfun söngstjórans kunni að skýra að hluta hve vel honum tókst að knýja menn til að neyta allrar orku til einbeitingar. Hitt er löngu alþekkt og viðurkennt að þýskukennsla Þórðar var eitt af þyngstu lóðunum á þeirri vogarskál sem fyrst tryggði menntaskóladeildum héraðsskólans viðurkenningu sem fullburða menntaskóli ­ og síðar tilveru hans á frumbýlingsárum með góðri aðsókn.

Sjötugur árið 1963 lét Þórður af kennslu við skólann og fluttist til Reykjavíkur. En ekkert var honum fjær en að setjast í helgan stein. Næstu fimm árin, 1963­68, var hann stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík, við vorum þar samkennarar og ég skynjaði fljótt að sömu einkenni fylgdu kennslu hans sem áður, árangur í fremstu röð en ellimörk engin. Næstu fimm ár, til 1973, var Þórður svo stjórnskipaður prófdómari í þýsku við MR og sýnir það eitt með öðru hvern orðstír hann hafði getið sér. Aldrei féll honum verk úr hendi. Hann hélt áfram að taka saman og birta ýmsan fróðleik úr Borgarfirði, gaf út að nýju Úr byggðum Borgarfjarðar, Vetrarferðina endurskoðaða 1982 o.fl. o.fl.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í ævistarfi Þórðar Kristleifssonar. Þess er þó enn ógetið að um áratuga skeið var einn af megindráttunum í mynd fólks af skólasetrinu á Laugarvatni sönglíf og þróttmiklir kórar undir stjórn Þórðar. Einhvern tíma á fimmta áratugnum sungu nemendur hans inn á hljómplötur hjá Ríkisútvarpinu, slíkt þótti tíðindum sæta á þeim tíma og þau lög hljóma áreiðanlega enn í hlustum margra. Frá því er Þórður fór frá Laugarvatni 1963 og til ársins 1991 tókst ekki til lengdar að fá söngkennara að Laugarvatni. Það var því stór stund þegar skólakórinn okkar, undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar í Skálholti, sem hefur myndað hann og stjórnað frá 1991, heimsótti Droplaugarstaði árið 1993 í tilefni af 100 ára afmæli Þórðar. Þar dvaldist hann mörg síðustu æviárin, og þar fékk kórinn að syngja fyrir vistmenn, með Þórð sjálfan í heiðurssæti. Og nú vill svo til að einmitt þessa dagana er að koma út geisladiskur með söng kórsins, sá diskur er sérstaklega helgaður Þórði og minningunni um söngstarf hans.

Þórður kvæntist 1931 Guðrúnu H. Eyþórsdóttur kennara, gáfaðri mannkostakonu. Hún lést 1983. Þórður lifði lengst af við góða heilsu, fylgdist af miklum áhuga með öllu er snerti skólann okkar, ekki síst fréttum af kórstarfinu síðustu árin. Í september 1996 birtist nýskrifuð heilsíðugrein eftir Þórð í Lesbók Morgunblaðsins. Mér finnst það óneitanlega í samræmi við afl hans og elju að hann skyldi verða elstur allra Íslendinga ­ og halda þó andlegum kröftum.

Menntaskólinn að Laugarvatni þakkar Þórði Kristleifssyni og heiðrar minningu hans. Persónulega þakka ég honum kennsluna forðum, kynnin öll og samstarf síðar og tryggðavináttu til æviloka.

Kristinn Kristmundsson.