Ólafur E. Þorsteinsson Nær jafnskjótt og sumri tók að halla lauk jarðvist sinni vinur minn og samstarfsmaður um fjögurra áratuga skeið, Ólafur E. Þorsteinsson, verkstjóri í hlaðdeild Flugleiða á Reykjavíkurflugvelli. Ólafur eða Lalli, eins og hann var ávallt kallaður, hóf störf hjá Flugfélagi Íslands hf. 18. apríl 1952 og er því margs að minnast á nær hálfrar aldar starfi manns, sem spannar næstum því flugsögu okkar Íslendinga. Hann tók þátt í þróun og uppbyggingu þeirrar flugstarfsemi sem nú er svo snar þáttur í daglegu lífi okkar. Þökk sé þeim frumherjum sem með áræði og dugnaði mörkuðu leiðina til þeirra miklu framfara sem orðið hafa í flugmálum okkar.

Á vordögum árið 1958 hóf ég störf í hlaðdeildinni og hófst þar með ágætt og farsælt samstarf okkar, sem aldrei bar skugga á. Það var ör þróun í flugflota Flugfélagsins á tímabilinu 1957 til 1967 þegar Katalínuflugbátarnir og þristarnir voru að víkja fyrir Fokkervélunum og sexurnar fyrir þotunum. Eins og nærri má geta þurftu starfsmenn að laga sig að þessari þróun og var hlutur Lalla í þeim verkefnum afar farsæll.

Á langri stafsævi á fjölmennum og áhugaverðum vinnustað fer ekki hjá því að kunningsskapur og vinátta myndist á meðal starfsmanna. Lalli var afar glaðsinna og hrókur alls fagnaðar á skemmtunum og hátíðum starfsmanna. Þótt sárþjáður væri lét hann sig ekki vanta á samkomu á Þingvöllum nú í vor er lýsa skyldi yfir sjálfstæði Flugfélags Íslands.

Með æðruleysi og karlmennsku mætti hann örlögum sínum og var aðdáunarvert að fylgjast með aðstandendum hans og vinum létta honum síðustu sporin.

Ég þakka Lalla vináttu hans og samstarfið og votta börnum, tengdabörnum, barnabörnum og vinum hans mína dýpstu samúð.

Vertu að eilífu Guði falinn.

Aðalsteinn Dalmann

Októsson.