Hafþór Vestfjörð Sigurðsson Það er skrýtið að hugsa til þess að hann Hafþór, smíða- og myndmenntakennarinn okkar sem hefur kennt okkur frá því í fyrsta bekk í Álftanesskóla, sé allt í einu dáinn.

Hann var mjög góður kennari og þótti okkur öllum mjög vænt um hann. Við eigum ótal margar myndir og hluti sem minna okkur á frábæra kennslu hans.

Svo þig langar til fiðrildalands?

Jæja, lærðu þá minn vængjaða dans

og flýttu þér;

síðan fylgirðu mér

í flugstigu regnbogans.

(Þorsteinn Vald.) Hann Hafþór sagði okkur að honum þætti afar vænt um þetta ljóð og hann skrifaði það líka í allar minningarbækur okkar.

En nú þurfum við víst að kveðja hann en vonandi líkist sá staður, þar sem hann er nú, fallega Fiðrildalandinu hans.

Að lokum viljum við votta aðstandendum hans og fjölskyldu, okkar innilegustu samúð.

Stefjahreimur

Mitt verk er, þá ég fell og fer,

eitt fræ, mitt land, í duft þitt grafið,

mín söngvabrot, sem býð ég þér,

eitt blað í ljóðasveig þinn vafið.

En innsta hræring hugar míns,

hún hverfa skal til upphafs síns

sem báran, ­ endurheimti í hafið.

(Einar Ben.) Nemendur Hafþórs í smíði og myndmennt í 7. bekk í Álftanesskóla

Berglind Veigarsdóttir,

Freydís Guðný Hjálmarsd.,

og Sigríður Ása Júlíusd.