Ólafur Þorsteinsson Elsku afi,

Það var sorgardagur hjá okkur miðvikudaginn 25. júní, þegar mamma og pabbi komu heim af spítalanum og sögðu okkur að þú værir dáinn. Það var bara ein vika síðan við komum í afmælið þitt og borðuðum með þér afmælistertu heima hjá þér. Við skiljum ekki af hverju Guð vill taka þig frá okkur, þú varst ekkert gamall og okkur fannst þú alltaf svo skemmtilegur. Við gleymum aldrei þegar við vorum litlar og vorum með þér og ömmu í sumarbústaðnum sem þið voruð að byggja og við fengum rólur og sandkassa svo við gætum leikið okkur þar. Þú fannst hreiður og sýndir okkur pínulitla unga sem héldu að við ætluðum að gefa þeim mat.

Nú ert þú ekki veikur lengur. Við vitum að þér líður vel þarna uppi og vonum að þú sért búinn að hitta Hörð bróður okkar. Við vitum að þú passar hann vel fyrir okkur.

Guðrún Björg og Anna Karen.