KELD GALL JØRGENSEN

Keld Gall Jørgensen fæddist í Kaupmannahöfn 1.febrúar 1955. Hann lést 26.júní síðastliðinn. Foreldrar hans eru hjónin Anne-Lise Themstrup, sjúkraliði í Kaupmannahöfn, og Ib Jørgensen, leigubílstjóri og síðar húsvörður í Kaupmannahöfn. Systur Keld eru tvær, Kathe og Susanne. Keld var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Ragnheiður Þóra Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýlistasafnsins, f. 12.9. 1949 í Reykjavík. Dætur þeirra eru Marta og Nína Gall Jørgensen, f. 22. 10. 1982. Síðari kona Keld er Annette Gall Jørgensen, f. 1955 og eiga þau eina dóttur, Nönnu Gall Jørgensen, f. 1993. Keld var doktor í dönskum fræðum frá Kaupmannahafnarháskóla, lektor í dönsku við Háskóla Íslands á tímabilinu 1984-1990. Lektor í dönsku við háskólann í Hróarskeldu frá 1991 og Kaupmannahafnarháskóla frá 1993-94. Sérsvið hans var táknfræði og liggur eftir hann fjöldi verka á því sviði, greinar og bækur. Hann var afkastamikill þýðandi íslenskra bókmennta á dönsku, þýddi m.a. Gísla sögu Súrssonar og Egils sögu, var auk þess mikilvirkur brautryðjandi íslenskra nútímabókmennta, þýddi m.a. skáldsögurnar Hringsól eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur og Falsarann eftir Björn Th. Björnsson. Hann skrifaði fjölda greina um bókmenntir, bæði í íslensk blöð og dönsk, annaðist útvarpsþætti og var virkur liðsmaður íslenskrar menningar í Danmörku.

Útför Keld fer fram frá Kirkegårdskapelle í Óðinsvéum í dag og hefst athöfnin klukkan 14.