Eyvör Ingibjörg Þorsteinsdóttir Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóstið þitt fái svala.Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson.) Elskuleg Eyja amma hefur nú kvatt. Hún hefur alla tíð staðið okkur bræðrunum mjög nærri. Amma var svo lánsöm að eiga langa og góða ævi, hún var heilsuhraust allt fram á síðustu daga.

Það var ætíð mjög bjart yfir ömmu. Hún var brosmild, hlý og endalaus væntumþykja streymdi frá henni. Við vorum svo heppnir að njóta samvista við hana lengi og brunnur dásamlegra minninga er óþrjótandi.

Nær daglega hittum við Eyju ömmu og á skólaárum okkar fórum við til hennar í hverju hádegi. Amma bar kræsingarnar fram á dúkalagt borð. Hún sá til þess að ætíð væri nóg á diskum. Ekkert var til sparað, ekkert var of gott fyrir "strákana hennar". Eyja amma vildi að við borðuðum vel. Oft vildi teygjast úr þessum hádegisheimsóknum hjá ömmu, enda margt sem bar á góma. Amma var mikill vinur og fylgdist vel með öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Það var alltaf jafn gaman að tala við Eyju ömmu enda var hún mjög fróð og vel lesin. Hún var ung í anda og ótrúlega nálæg okkur yngra fólkinu í hugsun og hugðarefnum. Eyja amma var sérstaklega vel að sér um mál líðandi stundar, gilti þar einu hvort um var að ræða fréttir úr atvinnulífinu, menningu eða léttari dægurmálum eins og popptónlist og íþróttum.

Eyja amma var mikil brids- manneskja og spilaði yfirleitt tvisvar í viku. Við nutum góðs af spilaáhuga hennar því ósjaldan tókum við í spil með ömmu. Þær stundir eru ógleymanlegar. Þá voru margar sögur sagðar. Amma var góður sögumaður og fátt var skemmtilegra en þegar hún sagði frá æskuárum sínum og lífinu í Reykjavík í þá daga. Þá kom glöggt í ljós það leiftrandi skopskyn og léttleiki sem bjó með henni alla tíð.

Auk þess að þykja óendanlega vænt um ömmu, bárum við mikla virðingu fyrir henni. Hún var kraftmikil kona og dugnaður einkenndi allt sem hún tók sér fyrir hendur. Við fáum Eyju ömmu aldrei fullþakkað öll þau yndislegu ár sem við áttum með henni. Hún mótaði okkur og minningarnar um hana munu lifa að eilífu. Við vitum að Eyja amma verður okkur alltaf nálæg. Blessuð sé minning hennar.

Árni Oddur Þórðarson,

Magnús Geir Þórðarson.