Hólmfríður Ólafsdóttir Kragh Þegar undirritaður var að alast upp í föðurhúsum áttu foreldrar mínir fjölmennan og fjölskrúðugan vinahóp. Þá var ekkert sjónvarp til að trufla fólk frá því að hittast og gleðjast, tala saman og vera saman. Mér eru enn í barnsminni öll þau boð og samkvæmi sem haldin voru á heimili mínu, þar sem þessi stóri kunningja ­ og venslahópur gerði sér dagamun. Fólk mætti prúðbúið til leiks og gekk hægt um gleðinnar dyr. Samræður, söngur, spilamennska. Allt í stíl. Allt með þessum siðprúða menningar- og yndisþokka, þar sem karlmennirnir voru sjentilmenn og konurnar heillandi skemmtilegar. Og stundum fengum við krakkarnir að vera með og þar var ekkert kynslóðabil og þar var engin yfirborðsmennska. Hver var það sem hann var og kom til dyranna eins og hann var klæddur.

Í þessum föngulega hópi var Fríða Kragh. Geislandi falleg, brosmild og jákvæð, ljóshærð fegurðardrottning með manni sínum, óaðskiljanlegur vinur fjölskyldunnar. Það segir nokkuð um þann hug sem við börnin bárum til þessarar konu að ég á enn í fórum mínum ljóð sem ég samdi, tíu ára gamall, til hennar fertugrar, hálfgert ástaljóð sem endaði svona:

Að vera með Fríðu lífið er

enga stund að líða,

lofuð sé hún, líka hér,

lengi lifi Fríða.

Þetta litla og barnalega ljóð, segir allt um þann hug sem ég, tíu ára gamall snáðinn, bar til þessarar óvandabundnu konu.

Og allt frá þessum æskudögum mínum fylgdist hún með fjölskyldu okkar og var partur af henni, frjálsleg í fasi, gestrisin, glöð. Umfram allt glöð.

Fríða var eiginkona Hansa Kragh, sem var frægur fótboltaspilari með KR í tíð föður míns, spilafélagi hans, veiðifélagi og vinur í raun. Hansi var sérstakt glæsimenni, alltaf til fara eins og hann væri klipptur út úr enskri heldrimannastétt, beinn í baki, fríður sýnum, fjaðurmagnað göngulag, háttprúður, hófsamur og hæverskur. Með Fríðu við hlið sér var þetta flottasta parið í Reykjavík. Það sér maður á myndum og man í minningunni. Ég hef leitað að lýsingarorði sem hentar en finn ekkert betra en þetta enska og besta: þau voru elegant.

Nú er hún horfin hún Fríða eftir margra ára veikindi og er sjálfsagt frelsinu fegin. En aldrei gleymast gömul kynni og aldrei gleymist hennar fölskvalausa vináttu við okkur systkinin og mömmu og pabba og nú er þessi kynslóð að hverfa og ekkert við því segja. Það er lífsins gangur.

En mikið hljóta þetta að hafa verið dýrðlegir dagar, sem þetta fólk átti og nú geta þau bráðum hist aftur öll, þarna hinum megin, prúðbúin og glæsileg og rifjað upp þær stundir, þegar reykvísk alþýða, reykvískar fjölskyldur, stigu vals á Borginni og nutu íslenskrar náttúrufegurðar í tíðum fjallaferðum og gerðu sér glaðan dag í kyrrlátri og menningarlegri samvist.

Það var reisn yfir þessu fólki. Það var reisn yfir henni Fríðu.

Blessuð sé minning hennar.

Ellert B. Schram.