16. júlí 1997 | Myndlist | 337 orð

"Ævintýr"

Nýlistasafnið/Gryfja, Vatnsstíg 3b RADDSKÚLPTÚR OG INNSETNING Magnús Pálsson. Opið þriðjudaga­sunnudaga kl. 14­18 til 20. júlí,

Magnús Pálsson. Opið þriðjudaga­sunnudaga kl. 14­18 til 20. júlí, aðgangur ókeypis. Í GRYFJU Nýlistasafnsins hefur Magnús Pálsson klætt veggi, loft og gólf með silfurdúk og skreytt með litskrúðugum borðum. Innsetningin er vettvangur raddskúlptúrs sem byggist á fornu ítölsku ævintýri. Sagan segir frá jarðyrkjumanninum Jósep, sem dag einn gengur fram á lík á akrinum og býr um það.

"Ævintýr"

MYNDLIST

Nýlistasafnið/Gryfja, Vatnsstíg 3b

RADDSKÚLPTÚR OG

INNSETNING

Magnús Pálsson. Opið þriðjudaga­sunnudaga kl. 14­18 til 20. júlí, aðgangur ókeypis.

Í GRYFJU Nýlistasafnsins hefur Magnús Pálsson klætt veggi, loft og gólf með silfurdúk og skreytt með litskrúðugum borðum. Innsetningin er vettvangur raddskúlptúrs sem byggist á fornu ítölsku ævintýri. Sagan segir frá jarðyrkjumanninum Jósep, sem dag einn gengur fram á lík á akrinum og býr um það. Þegar hann snýr aftur til vinnu sinnar hefur plógur hans sjálfkrafa yrkt hálfan akurinn á göldróttan hátt. Stjúpi Jóseps kemur af stað illu umtali og rekur hann að heiman. Frásögnin segir síðan frá ferðalagi Jóseps í leit að vinnu og slæst hann í för með betlara. Þeir semja um að deila öllu sem þeim áskotnast og fá að lokum að yrkja akur hjá kóngi einum. Kóngsdóttir verður ástfangin af Jósep og strýkur burt með honum. Betlarinn fylgir fast á eftir og heimtar einnig brúðina og er þar kominn dauði maðurinn sem á akrinum lá.

Magnús býr til nýtt sögusvið í kringum ævintýrið og er verkið flutt af fjórum leikurum. Eyvindur Erlendsson er sögumaður og aðrir flytjendur eru Elfar Logi Hannesson, Lilja Þórisdóttir og Marta Nordal. Frásögn sögumannsins er þungamiðja verksins og er textinn endurtekin af leikurum á sviðinu. Með ljóðrænum hrynjanda og taktfastri raddbeitingu hljómar textinn á víxl um salinn. Atburðarás verksins er einnig túlkuð með látbragði og söng og hreyfanlegum búningum leikaranna og hreyfingu á sviðsmynd.

Sýningin sem eftir stendur er leiksvið gjörningsins og er flutningur hans spilaður af bandi og tekur um 40 mínútur í senn. Heildarmynd innsetningarinnar er yfirdrifin og til að mynda er notað brúðarskraut frá Indlandi til að búa til ævintýralegt umhverfi. Hér er unnið á mörkum myndlistar, leiklistar og ljóðforms og er handrit Magnúsar fært til íslenskrar sagnahefðar. Verkið er nýstárlegt í allri umgerð sinni og býr Magnús yfir breiðri þekkingu til að tefla saman hefðbundnum og óhefðbundnum aðferðum í túlkun verka sinna. Með aðstoð þaulvanra leikara verður til raddskúlptúr þar sem slegið er á ólíka strengi á skemmtilegan hátt.

Hulda Ágústsdóttir

MAGNÚS Pálsson, "Ævintýr" 1997.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.