1892 "Knattleikur er t.d. flestra unglinga yndi og mætti tíðka hann miklu meira en gert er í skólunum. Englendingar hafa miklar mætur á knattleik, og eru kennarar þar opt að þeim leikjum með nemendum sínum, og sýnast hafa engu minna gaman af leikjunum en unglingarnir." Þessi orð ritaði Jón Þórarinsson skólastjóri í Ísafold í júní 1892.

Ártöl í sögu

knattspyrnunnar

á Íslandi 1892 "Knattleikur er t.d. flestra unglinga yndi og mætti tíðka hann miklu meira en gert er í skólunum. Englendingar hafa miklar mætur á knattleik, og eru kennarar þar opt að þeim leikjum með nemendum sínum, og sýnast hafa engu minna gaman af leikjunum en unglingarnir." Þessi orð ritaði Jón Þórarinsson skólastjóri í Ísafold í júní 1892. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem minnst er á knattspyrnu í rituðu máli á Íslandi.

1899 Fótboltafélag Reykjavíkur, síðar KR, stofnað 16. janúar 1899. Aðdragandinn að stofnun félagsins var sá að á milli tíu og tuttugu strákar í vesturbænum ákváðu að safna fyrir fótbolta sem þeir keyptu síðar með afborgunum.

1911 Fyrsti alvöru knattspyrnuleikurinn milli íslenskra knattspyrnuliða fór fram á Melavellinum á 17. júní-mótinu 1911. Mótið stóð frá 17. júní til 25. sama mánaðar og fór leikurinn fram 20. Áttust við Fram og Fótboltafélag Reykjavíkur. Fram sigraði, 2:0.

1912 Fyrsti leikurinn á Íslandsmótinu í knattspyrnu fór fram á Melavellinum í júní 1912. Það var hið nýstofnaða Íþróttasamband Íslands sem stóð fyrir mótinu. Þrjú lið tóku þátt í mótinu, Fótboltafélag Reykjavíkur, Fram og Knattspyrnufélag Vestmannaeyja. Fram og FR áttust við í fyrsta leiknum og lyktaði honum með janftefli, 1:1. Formaður Fram, Pétur J.H. Magnússon, skoraði fyrsta mark Íslandsmótsins. Fótboltafélag Reykjavíkur varð fyrsti Íslandsmeistari í knattspyrnu eftir 3:2 sigur á Fram í úrslitaleik.

1919 Akademisk Boldklub, Kaupmannahafnarmeistarinn í knattspyrnu, kom hingað til lands í heimsókn, fyrst erlendra liða og lék nokkra leiki. Sá fyrsti var við sameinað lið Vals og Víkings. Danska liðið sigraði 7:0. Mikill áhugi var fyrir leiknum sem fór fram Melavellinum og alls komu 1.000 áhorfendur.

Knattspyrnunefnd Reykjavíkur var stofnað í tengslum við heimsókn AB. Hlutverk nefndarinnar var að hafa forystu um knattspyrnuna í Reykjavík. Egill Jacobsen var formaður. Í framhaldinu var Knattspyrnuráð Íslands stofnað nokkru síðar fyrir tilstuðlan Knattspyrnunefndar Reykjavíkur.

1930 Fyrsta utanför íslenskra knattspyrnumanna. Úrvalslið Reykjavíkurfélaga lagði af stað til Færeyja 23. júlí í þeim tilgangi að keppa við Færeyinga á Ólafsvöku. Liðið lék þrjá leiki og sigraði í þeim öllum með samtals átta mörkum gegn engu.

1946 Þann 17. júní lék Ísland fyrsta landsleik sinn í knattspyrnu er Danir komu hingað. Reynt var að undirbúa íslenska liðið eins og kostur var, en það olli vonbrigðum þegar á hólminn var komið og Danir sigruðu 3:0. Leikurinn fór fram á Melavellinum að viðstöddum 8.000 áhorfendum.

1947 ÍSÍ samþykkti beiðni um stofnum Knattspyrnusambands Íslands og var boðað til stofnfundar 26. mars. Stofnfundurinn var haldinn í Verzlunarmannahúsinu við Vonarstræti í Reykjavík. Fimmtán fulltrúar frá tólf félögum mættu á fundinn, en alls voru félög og íþróttabandalög sem áttu aðild að KSÍ frá byrjun 14 talsins. Agnar Klemens Jónsson var kjörinn fyrsti formaður KSÍ.

Albert Guðmundsson varð fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu þegar hann skrifaði undir samning við franska 1. deildar félagið Nancy 29. júlí.

Fyrsti landsleikurinn eftir að KSÍ var stofnað var við Noreg 24. júlí á Melavelli og höfðu Norðmenn betur, 4:2. Albert Guðmundsson skoraði bæði mörk Íslands.

1949 Fyrsti sigurinn í landsleik var á Finnum á Melavelli 2. júní, lokatölur 2:0. Ríkharður Jónsson skoraði bæði mörin.

Í fyrsta sinn lék íslenskt landslið á útivelli er Danir voru sóttur heim 7. ágúst. Danir sigruðu 5:1 og gerði Halldór Halldórsson mark Íslands.

1954 Á ársþingi KSÍ árið 1954 var ákveðið að taka upp deildaskiptingu á Íslandsmótinu og að keppt skyldi í 1. og 2. deild sumarið eftir.

1957 Á 10 ára afmæli sínu ákvað KSÍ í fyrsta sinn að senda landslið til þátttöku í undankeppni HM. Ísland lennti í riðli með Frakklandi og Belgíu. Fyrsti leikurinn í keppninni var við Frakka í Nantes 2. júní og tapaðist, 8:0.

Í tilefni afmælis KSÍ var Laugardalsvöllur tekinn í notkun 8. júlí og komu Norðmenn í heimsókn til þess að leika vígsluleikinn sem tapaðist, 3:0. Tólf þúsund áhorfendur komu á fyrsta landsleikinn hér á landi sem fram fór á grasvelli.

1960 Bikarkeppni KSÍ fór fram í fyrsta skiptið um haustið. Sextán lið tóku þátt og sigraði KR lið Fram í úrslitaleik, 2:0.

1962 Íslenska landsliðið lék í fyrsta skipti í undankeppni Evrópumóts landsliða. leikurinn var við Íra í Dublin 12. ágúst og tapaðist, 4:2. Bæði mörk Íslands gerði Ríkharður Jónsson.

1970 Fyrsti opinberi kvennaleikurinn var háður þann 20. júlí, en þá mættust lið Reykjavíkur og Kelfavíkur í forleik að karlalandsleik Íslands og Noregs. Reykjavík sigraði 1:0.

1971 Íslenskt félagslið sigraði í fyrsta í kappleik á Evrópumóti er Fram lagði Hibernians á Möltu 2:0. Erlendur Magnússon skoraði bæði mörkin.

Í fyrsta sinn var keppt í kvennaknattspyrnu á Íslandsmótinu innanhúss. ÍA sigraði Fram 5:1 í úrslitaleik.

1972 Átta félög tóku þátt í fyrsta Íslandsmóti kvenna í knattspyrnu utanhúss. Leikið var í tveimur riðlum og sigurvegarar riðlanna FH og Ármann áttust við í úrslitaleik. FH sigraði 2:0 og varð fyrsti Íslandsmeistari kvenna utanhúss.

1975 Íslands sigraði í fyrsta sinn í kappleik í undankeppni Evrópumótsins. Það voru Austur-Þjóðverjar sem biðu lægri hlut fyrir íslenska liðinu 2:1 á Laugardalsvelli 5. júní. Mörk Íslands skorðu Jóhannes Eðvaldsson og Ásgeir Sigurvinsson. A-Þjóðverjar voru á þeim tíma með eitt sterkast landslið heims sem hafði m.a. komist í 8-liða úrslit í lokakeppni HM árið áður.

1977 Fyrsti sigur Íslands í undankeppni HM var staðreynd í leik Íslands og N-Íra á Laugardalsvelli 11. júlí, lokatölur 1:0. Ingi Björn Albertsson skoraði sigurmarkið.

1981 Íslenskt kvennalandslið lék sinn fyrsta landsleik gegn Skotum í Kilmarnock. Leikurinn tapaðist 3:2, Bryndís Einarsdóttir og Ásta B. Gunnlaugsdóttir skoruðu.

1996 KSÍ og Reykjavíkurborg gerðu með sér samning um að Knattspyrnusambandið annist rekstur Laugardalsvallar og framkvæmdir þar næstu 15 árin. Hafist var handa við byggingu nýrrar stúku sem tekur 3.500 manns í sæti og hresst skyldi upp á gömulu stúkuna þannið að hún rúmi sama fjölda í sæti og nýja stúkan.

1997 KSÍ tekur við rekstri Laugardalsvallar í ársbyrjun og lýkur framkvæmdum við stúkubyggingu um mitt ár. Vígsluleikur á endurbættum vellinum fór fram 11. júní er Litháen mætti Íslandi í undankeppni HM. Leikurinn endaði 0:0 og greiddu 4.025 áhorfendur aðgang. Skömmu síðar flutti sambandið skrifstofu sínar í endurbætt húsnæði undir gömulu stúku Laugardalsvallar.

Heimildir: Knattspyrna í heila öld, eftir Víði Sigurðsson og Sigurð Á. Friðþjófsson. Útgefandi KSÍ 1997.