Þrjár leiðir eru til þess að endurvekja Geysi í Haukadal og fá hann til að gjósa á ný að mati Ísleifs Jónssonar, sem rannsakað hefur hverinn. Tvær leiðirnar eru skammtímalausnir, en sú þriðja er varanleg. Verði ekkert að gert mun Geysir aðeins verða lygn pollur, sem lifir á fornri frægð.
Hvers vegna

sefur Geysir? Þrjár leiðir eru til þess að endurvekja Geysi í Haukadal og fá hann til að gjósa á ný að mati Ísleifs Jónssonar , sem rannsakað hefur hverinn. Tvær leiðirnar eru skammtímalausnir, en sú þriðja er varanleg. Verði ekkert að gert mun Geysir aðeins verða lygn pollur, sem lifir á fornri frægð.

ÞAÐ ER kunnara en frá þurfi að segja að okkar heimsfrægi Geysir í Haukadal er hættur að gjósa af sjálfsd áðum, hann hefur "tekið sér hvíld frá störfum". Sagt er að Geysir hafi gefið öllum öðrum goshverum, "Geysers", í heiminum nafn svo mér finnst mikils um vert að hann "standi undir nafni", sé raunverulegur "Geysir" en ekki bara forngripur sem einu sinni var eitthvað annað.

Yfirleitt sýnist mér að menn séu búnir að afskrifa Geysi sem eðlilegan goshver og setja hann á lista með forngripum sem hafa misst gildi sitt í raunverulegu lífi en sjálfsagt sé að forða frá glötun vegna "sögulegs gildis" hvað svo sem það nú er.

Mín skoðun er sú að við eigum ekki að afskrifa Geysi og líta á hann sem forngrip. Við eigum að lífga hann við, gefa honum vítamínsprautu, en ekki dánarvottorð, svo hann geti tekið upp fyrri lífsvenjur og gosið sjálfur án hjálpar einu sinni á sólarhring eða með annarri tíðni sem "hans hátign" þóknast sem konungi goshvera á jörðu hér.

Í næsta nágrenni Geysis er annar goshver, Strokkur, sem vakinn var "til lífsins" á ný 1963 af áratuga svefni og gýs síðan á nokkurra mínútna fresti öllum til ánægju sem koma þó til að sjá hinn fræga nágranna, Geysi í Haukadal, sem venjulega sefur "svefni hinna réttlátu" og bærir ekki á sér. Það er rétt að benda á að Strokkur var aldrei samskonar goshver og Geysir. Þegar horft er á Geysi eins og hann er í dag vaknar spurningin: Hvers vegna gýs hann ekki eins og áður? Hvers vegna sefur Geysir? Ég tel augljóst að annað eða hvort tveggja af eftirfarandi hafi gerst:

1. Vatnsrennslið inn í Geysi hefur minnkað.

2. Hitastig vatnsins hefur lækkað frá því sem það var þegar hann gaus reglulega.

Vatnsmagnið sem streymir inn í Geysi og hitastig þess hefur mikil áhrif á gostíðni hans. Í rauninni stjórnar innrennslið gostíðninni. Þegar Geysir gaus tæmdist gospípan alveg niður í botn og eitthvað niður í sprungurnar þar fyrir neðan, sem vatnið kemur úr.

Til að fylla Geysi á ný þarf því talsvert magn af vatni. Þetta tók hér áður fyrr minna en einn sólarhring, því sagt var að Geysir hafi stundum gosið daglega eða jafnvel oftar.

Geysir gýs aldrei fyrr en gosskálin er full og síðan þarf vatnið að hitna í skálinni upp í ákveðið hitastig, yfir 90 C við yfirborð, áður en gos getur byrjað að nýju.

Ég held, að til að útskýra hvað þarf að gera, sé best að reyna að lýsa því hvernig Geysir hagaði sér, þegar hann var raunverulegur Geysir.

Hvers vegna gaus Geysir?

Hugsum okkur að við komum að Geysi þegar hann er nýbúinn að gjósa. Skálin er tóm, einnig gospípan eins langt og séð verður. Gufu leggur upp úr hvernum og langt niðri heyrist krauma eins og í stórum potti. Þetta er eðlilegt því hitastig vatnsins sem rennur inn í Geysi er 125­130 C og hlýtur því að sjóða þegar það rennur inn í tóma gospípuna. (Hitastigið var mælt 1960 og gæti því mælst annað í dag ef mælt væri.) Smám saman hækkar vatnið í gospípunni og sýður kröftuglega í henni. Eftir nokkra klukkutíma í viðbót er gospípan full og ólgar mjög í henni svo við höldum að nú hljóti að byrja nýtt gos. Svo er þó ekki, því hverinn er alls ekki í standi til að gjósa. Nú er hann aðeins venjulegur sjóðandi hver. Ólgan minnkar þegar skálin fyllist og kæling eykst frá stækkandi yfirborði. Öðru hvoru vottar þó fyrir suðu þegar gasbólur stíga upp í gegnum vatnið.

Enn hefur ekkert vatn runnið úr hvernum, skálin er að fyllast. Kæling frá yfirborði skálarinnar veldur því að suðan hættir. Kælda vatnið frá yfirborðinu leitar niður, blandast því heita sem er á leið upp og kælir það niður fyrir 100 C svo engin suða myndast. Gos er því óhugsandi við þær aðstæður eins og þær eru í dag. Þegar vatn byrjar að renna út úr skálinni þegar hún fyllist er það aðeins um 90 C. Við þær aðstæður er gos útilokað. Þegar vatnið fer að renna úr skálinni myndast gegnumrennsli.

Inn streymir vatn ca. 125­130 C í gospípuna sem endar í um 18,2 m á dýpt, mælt frá yfirborði vatnsins í skálinni þegar hún er full, og sama magn rennur út ca. 90 C. Kælingin er nær eingöngu frá yfirborði vatnsins, eins og áður er minnst á. Þannig myndast jafnvægi milli heita vatnsins sem streymir inn og kælingarinnar frá yfirborðinu. Blöndunin á sér stað í gospípunni á 8­10 m dýpi. Þar ríkir mjög breytilegt og óstöðugt ástand. Kalda vatnið leitar niður með hliðunum en heita vatnið teygir sig upp eins og í tungum í miðri gospípunni. Þarna í tungunum er vatnið oft heitara en suðumark vatns er á þessu dýpi við venjulegar aðstæður. Það er því þarna sem gos byrjar þegar aðstæður eru til þess! Veðrið, einkum hitastig og vindhraði, hefur mikil áhrif á kælingu vatnsins í skálinni. Það var oft talað um "gott gosveður" þegar lygnt var og hlýtt í veðri (lítil kæling).

Ef heitar tungur með yfirhituðu vatni ná svo hátt upp, vegna minnkandi kælingar frá yfirborði, að yfirhitunin nemur mörgum gráðum, getur myndast hvellsuða og aðstæður skapast til að gos byrji.

Það er ástæða til að taka það fram hér að allar upplýsingar um dýpi og hitastig í Geysi eru fengnar með mælingum sem ég gerði ásamt Sigurði Hallssyni verkfræðingi í júní árið 1960 á vegum Geysisnefndar. Sigurður var þá að rannsaka áhrif octadecanols til að minnka uppgufun og þar með kælinguna frá yfirborði vatnsins í gosskálinni. Við létum Geysi gjósa nokkrum sinnum á þeim dögum sem við vorum við þessar rannsóknir svo að lýsing mín á hegðun Geysis er byggð á raunverulegum athugunum.

Dr. Trausti Einarsson prófessor lét fyrir mörgum árum (1935) höggva rauf í gosskál Geysis til að lækka vatnsborðið og minnka kælinguna frá yfirborðinu. Þetta olli því að Geysir byrjaði að gjósa aftur eftir langa bið (1915­1935), sú lausn dugar ekki lengur. Gosin í Geysi byrja alltaf með dynkjum. Þeir stafa af því að hvellsuða myndast í heitu tungunum á um 8­10 m dýpi í gospípunni. Þessi suða myndast mjög snögglega líkt og sprenging. Við suðuna eykst rúmmál vatnsins sem sýður úr um 1 l/kg í um 900 l/kg á 10 m dýpi sem eykst áfram í 1.700 1/kg við yfirborð.

Þetta veldur ólgu í gosskálinni svo að vatn flæðir yfir barma hennar. Við það lækkar vatnborðið í skálinni og ný suða myndast niðri vegna lækkandi þrýstings. Þetta er byrjun á gosi og þessi keðjuverkun verður ekki stöðvuð fyrr en gospípan er tóm!

Það er ekki hægt að stöðva gos, eftir að það hefst, fyrr en gospípan er tóm! Gos í Geysi stóð í allt að 45 mínútur. Segja má að gosið skiptist í tvo þætti nokkurn veginn jafn langa. Fyrri þátturinn er sá tími sem það tekur að tæma skálina og gospípuna niður fyrir þrengslin sem eru á 8­10 m dýpi. Þessi þrengsli eru klettasprunga um 30 cm víð og um 1 m á lengd. Geysir þeytti vatninu hátt í loft upp, en sá hluti vatnsins sem féll í skálina rann aftur niður í gospípuna. Seinni þáttur gossins hefst þegar vatnið minnkar í gospípunni og gufan þeytir því sem eftir er mjög hátt í loft upp. Eftir því sem vatnið minnkar verður gosið tilkomumeira.

Frægustu gosin, og þau hæstu (sum mældust yfir 70 m) komu þegar vatnsborðið var komið niður fyrir þrengslin. Vegna viðnámsins í þrengslunum myndast talsverður þrýstingur neðan við þau. Sú orka sem safnast þar fyrir nægir til þess að þeyta vatninu sem er á leið niður gospípuna um 60­70 m í loft upp. Smám saman minnkar það vatn sem í skálina fellur. Þá minnkar um leið tign og kraftur gossins enda þótt innstreymið í hverinn sé næstum óbreytt allan tímann. Að lokum hætta vatnsgusurnar að ná upp úr hvernum og úr honum streymir aðeins gufa eins og úr gufuhver. Gosinu er lokið. Smám saman safnast aftur vatn í gospípuna eins og áður var lýst, þar til skálin er full af vatni.

Hvers vegna hætti Geysir að gjósa?

Hér að framan er lýst því sem gerðist þegar Geysir gaus án aðstoðar. Þegar hann var konungur goshveranna. Þá er næst að svara spurningunni: Hvers vegna hætti Geysir að gjósa?

Af því sem áður er lýst er auðvelt að skilja hvað það er sem gerir gæfumuninn hvort Geysir gýs eða ekki. Það sem öllu veldur er það hvort nægileg yfirhitun verður í heitu tungunum í gospípunni til að koma gosi af stað. Ef yfirhitunin nær ekki að valda hvellsuðu til að ryðja burtu vatni og lækka vatnsborðið í skálinni verður ekkert gos í Geysi.

Ástæðan fyrir því að gosin hættu er því lægra hitastig í gospípunni sem stafar af minna innrennsli og/eða lægra hitastigi á innrennslinu.

Hvað er til ráða?

Er hægt að vekja Geysi?

Mitt svar er: Já, það er hægt.

Til þess eru nokkur ráð:

1. Lækka vatnsborðið enn frekar til að minnka yfirborðið og þar með kælinguna. Sama árangri má ná með því að breiða yfir hann segl.

2. Nota sápu til að framkalla gos ásamt lækkun á vatnsborði eins og gert hefur verið nú í áratugi.

3. Auka innrennslið í hverinn með borun.

Ráð nr. 1 og 2 eru aðeins nefnd hér sem skammtímalausn. Þau duga aðeins í skamman tíma. Aðeins í nokkur ár til að skemmta ferðamönnum eða tignum gestum við hátíðleg tækifæri. Ráð nr. 3 er varanleg lausn, vítamínsprauta til að lífga hans hátign, Geysi í Haukadal. Gera hann aftur konung goshveranna.

Það að bora í botninn á Geysi er sú eina lausn sem er varanleg til að vekja hann til lífsins á ný sem goshver.

Minnkandi rennsli inn í Geysi stafar af því að vatnsæðarnar eru smám saman að fyllast af kalki eða kísil sem sest í þær. Vatnið í Geysi er háhitavatn sem inniheldur mikið af uppleystum efnum. Þegar vatnið kólnar yfirmettast það og hluti efnanna, einkum kísill og kalk, sest í æðarnar og lokar þeim smám saman. Gosskálin við Geysi er að mestu hlaðin upp úr þessum efnum. Ef ekkert verður gert minnkar innrennslið í Geysi enn meira og tryggir dauðadóminn yfir honum. Hann hættir alveg að geta gosið jafnvel með aðstoð eins og nú. Hann verður forngripur! Aðeins minningin lifir!

Með borun má endurlífga Geysi. Gera hann aftur að konungi goshveranna. Ég tel að 3­5 lítrar á sekúndu í viðbót við núverandi rennsli mundu nægja til að endurlífga Geysi.

Það verður að sjálfsögðu að bora með fullri aðgát þannig að engin spjöll verði unnin á hvernum og umhverfi hans og ganga þannig frá að engin ummerki sjáist á yfirborði. Með nútíma tækni er ekkert vandamál að stilla rennsli úr borholu inn í hverinn þannig að hann gjósi með þeirri tíðni sem var honum eðlileg hér áður fyrr.

Lokaorð

Ég geri ráð fyrir, raunar vona ég, að þessar hugmyndir og skýringar mínar veki umtal, efasemdir og ef til vill andstöðu. Þetta eru þó þau einu ráð sem duga til að vekja Geysi til lífs á ný. Þetta væri hans nirvana.

Þegar Geysir hefur aftur tekið sinn sess sem konungur goshveranna gleymist fljótt hvernig hann byrjaði aftur að gjósa. (Eins og gerðist með Strokk á sínum tíma.) Aðalatriðið er: Hann gýs á ný öllum til ánægju. Ef ekkert verður að gert verðum við að halda áfram að sýna gestum og ferðamönnum lygnan poll og segja þeim sögur af því sem einu sinni var.

Ég vil eindregið hvetja rétt yfirvöld, hvort heldur það er nú Geysisnefnd eins og var fyrir 25 árum eða okkar nýja umhverfisráðuneyti, til að taka þetta mál til umræðu og ákveða hvort óskað er eftir dánarvottorði eða lyfseðli fyrir Geysi.

Ég vænti þess að ósk mín, að Geysir í Haukadal verði aftur konungur goshveranna rætist.

Sá sem sér Geysi í Haukadal gjósa af fullum krafti gleymir því aldrei!

Höfundur er verkfræðingur.Ljósmynd/SS GOS í Geysi í Haukadal.

Ísleifur Jónsson