JÓN ÞORLÁKSSON fæddist í Selárdal í Arnarfjarðardölum, 13. desember 1744. Faðir hans hét Þorlákur Guðmundsson og stundaði preststörf en var dæmdur af prestskap 1749 vegna þess að hann var drukkinn við guðsþjónustu og fór allt í svo miklum handaskolum við embættisstörfin að hneyksli mátti heita.

SKÁLDIÐ

Á BÆGISÁ

EFTIR EYÞÓR RAFN GISSURARSON

Séra Jón Þorláksson, löngum kenndur við Bægisá, var af vestfirskum uppruna og orðinn 44 ára þegar hann fluttist norður. Hann er minnst sem brautryðjanda í ljóðlist og fyrir að hafa þýtt Paradísarmissi Miltons á íslensku. JÓN ÞORLÁKSSON fæddist í Sel árdal í Arnarfjarðardölum, 13. desember 1744. Faðir hans hét Þorlákur Guðmundsson og stundaði preststörf en var dæmdur af prestskap 1749 vegna þess að hann var drukkinn við guðsþjónustu og fór allt í svo miklum handaskolum við embættisstörfin að hneyksli mátti heita. Móðir Jóns hét Guðrún Tómasdóttir úr Tálknafirði, og var faðir hennar einn af hinum svonefndu Sellátrabræðrum sem voru annálaðir um Vestfirði og víðar fyrir frábæra burði, harðfengi og karlmennsku.

Um æsku Jóns er lítið vitað og lítið kunnugt um nám hans í uppvexti, nema það sem sjá má af vitnisburði úr Skálholtsskóla. Eftir því sem þar segir hefur hann komið í skólann um haustið 1760. Eftir þriggja ára nám var hann útskrifaður með þeim orðstír að hann sé "engum skólabræðra sinna síðri í vísindum og tungumálum, heldur flestum fremri". Fyrir siðferði fær hann góðan vitnisburð. Hann var þá nítján ára. Jón gerðist síðan skrifari hjá Magnúsi amtmanni Gíslasyni og fluttist með honum að Bessastöðum 1766. Þá vildi til að Magnús amtmaður andaðist um haustið og fór Jón þá til Ólafs amtmanns Stephánssonar og var hjá honum þar til hann varð vígður kapellán hjá Gísla presti í Saurbæjarþingum í Dalasýslu 1768. Skömmu síðar andaðist Gísli prestur og fékk Jón þá brauðið og var þar prestur í tvö ár.

Á þeim tíma bjó í Fagradal gildur bóndi sem hét Brynjólfur Bjarnason og kona hans Ingibjörg Pálsdóttir. Ein af dætrum þeirra hét Jórunn, álitleg stúlka og efnileg. Jón felldi mikla ást til hennar og vildi eiga hana, en faðir hennar var því ósamþykkur, mun honum hafa þótt prestur óefnilegur til búskapar. En ekki hefur Jórunni litist illa á Jón því hún átti með honum tvö börn. Hið fyrra fæddist 1770 og varð Jón þá að sleppa kjóli og kalli. Var hann þá ýmist að Hjarðarholti í Borgarfirði, hjá Þorgrími sýslumanni Sigurðarsyni eða með Ólafi prófasti Einarssyni á Ballará, í nánd við Fagradal. Veturinn 1771­72 var hann í Nesi hjá Bjarna landlækni Pálssyni og skrifaði fyrir hann.

Um vorið 1772 fékk Jón uppreisn æru og var veittur Staður í Grunnavík. Þangað fór hann og tók við embættinu, en var þar skamma stund, því þá ól Jórunn annað barn og kenndi það Jóni og var á sömu stundu lokið prestskap hans. Fór hann þá aftur til Beiðafjarðar og vistaðist þar. Á þessu ári missti hann föður sinn, en móðir hans var önduð áður.

Árið sem Jón missti prestskap í Grunnavík (þ.e. 1772) fékk Ólafur Ólafsson leyfi konungs til að setja á stofn prentsmiðju í Hrappsey og var hún flutt til Íslands 1773. Um haustið 1773 ræðst Jón til starfa í Hrappseyjarprentsmiðju sem prófarkalesari. Meðan Jón var í Hrappsey varð hann ástfanginn af konu er hét Margrét Bogadóttir, en þær voru systkinadætur, hún og Jórunn í Fagradal. Fékk Jón Margrétar og fóru þau að búa í Galtardal en búskapur þeirra gekk mæðulega og samfarir eigi síður, þó eignuðust þau eina dóttur, Guðrúnu sem giftist Eyjólfi presti Gíslasyni, Ólafssonar biskups.

Ekki var prestskap Jóns Þorlákssonar að öllu lokið þótt hann væri búinn að missa hempuna tvisvar því með hjálp velgjörðarmanna fékk hann uppreisn með konungsbréfi, dagsettu 11. ágúst 1786, með því skilyrði að hann mætti ekki vera prestur í Skálholtsbiskupsdæmi.

Um sumarið andaðist Árni prestur Tómasson að Bægisá í Eyjafjarðarsýslu og fékk séra Jón þá það brauð og fór þegar um haustið norður að Bægisá. Er hann var settur prestur þar hafði Jón fjóra um fertugt. Margrét, kona Jóns, vildi ekki fara með honum norður og voru nefndir menn til að koma á skilnaði milli Jóns og Margrétar en þeir menn leiddu það mál ekki til lykta og enginn skilnaðardómur varð milli þeirra hjóna, en Margrét bjó að því sem þau áttu fyrir vestan, þar til hún andaðist veturinn 1808.

Fljótt varð Jóni til vina þegar hann kom norður og urðu þeir honum miklir aðstoðarmenn: Stephán amtmaður Þórarinsson, Magnús prófastur Erlendsson, Þorlákur bóndi Hallgrímsson á Skriðu og Einar Hjaltested á Akureyri. Sjá má á kvæðum til þessara manna að þeir hafa styrkt Jón á allan hátt og þó óbeðnir, því aldrei kvartaði Jón, hversu bágt sem hann átti og ætti hann nokkuð, var það öðrum jafn heimilt og honum sjálfum.

Jón Þorláksson er oft kenndur við Bægisá þó að hann hafi upphaflega verið Vestfirðingur og er það allmerkilegt því hann var orðinn 44 ára þegar hann verður prestur á Bægisá en ástæðan er þó líklega sú að hann hafði áður verið á hálfgerðum hrakningum á milli staða og á Bægisá ritar hann þau verk sem hann er frægastur fyrir, þ.e. þýðingar sínar, Paradísarmissi eftir John Milton, Tilraun um manninn (Essay on man) eftir Alexander Pope og Messías eftir Klopstock.

Lund og list

Ef lesendur hefði séð mann, meðallagi að hæð og grannvaxinn, nokkuð lotinn í herðum, með gult slegið hár, breiðleitan og brúnamikinn en þó lítið höfuðið, snareygan og harðeygan, sem í tinnu sæi, bólugrafinn mjög með mikið skeggstæði, söðulnefjaðan og hafið mjög framanvert, meðallagi munnfríðan, útlimanettan og skjótan á fæti, málhreifinn og kvikan svo líkaminn allur væri jafnan sem á iði, þá hefði þeir séð þjóðskáld Íslendinga Jón prest Þorláksson á þroskaárum sínum.

Lýsing Guðmundar G. Hagalíns á Jóni á Bægisá er svipuð en þó frábrugðin. Þar kemur fram að augu Jóns hafi verið skær, líkt og þau sindri þegar hann rennir þeim til og beinir þeim að einhverju sérstöku, að hárið sé liðað neðst og varirnar í þykkara lagi, en þó ekki svo að óprýði sé að. Guðmundur nefnir einnig að Jón hafi verið lágur vexti.

Guðmundur G. Hagalín lýsir skapgerð Jóns Þorlákssonar á þann veg að hann hafi verið ör og tilfinninganæmur, geðbrigðin snögg, skapið ríkt, ástríðurnar miklar og lífsfjörið svo ákaft að það birtist jafnvel í óvenju snöru og tindrandi augnaráði og snöggum en þó mjúkum hreyfingum. Jón Sigurðsson segir að á yngri árum sínum hafi Jón verið léttlyndur og síglaður, hugsað lítt fram en tekið hverja stundargleði með báðum höndum og ekki allsjaldan verið gjálífur og léttúðugur í orðum en þó jafnan góðlyndur og viðkvæmur. Sigurður Stefánsson segir að Jón hafi verið heillandi æskumaður, fallegur með sitt gullslegna hár og sín tindrandi augu, en hófsamur og hæverskur, drengur góður og hvers manns hugljúfi.

Ljóð Jóns á Bægisá eru mörg gamansöm en hitt kom þó fyrir að hann orti skammarkvæði og gat þá orðið allsvæsinn í orðavali því hann var fljótur að reiðast en þó sjaldan langrækinn. Jón lenti í mikilli deilu við Magnús Stephensen og ástæðan var sú að Magnús gaf út sálmabók. Magnús tók nokkra sálma eftir Jón í bókina en breytti þeim að höfundinum forspurðum og olli það gremju Jóns. Sálmabókin var í daglegu tali nefnd Leirgerður vegna þess að hún var prentuð í Leirgörðum.

Eftirfarandi vísa er kveðja Jóns til títtnefndrar sálmabókar:

Farvel Leirgerður, drambsöm drilla,

drottnunargjörn og öfundsjúk!

Þú skalt ei fleiru frá mér spilla,

freyddu sem best af þínum kúk.Jón Þorláksson var mikið upp á kvenhöndina og átti börn með konum sem hann var eigi giftur, hafði hann þessi fósturbörn stundum hjá sér og játaði jafnvel undir rós í vísum að hann væri faðir þeirra.

Jómfrú Jóhanna!

hann Jón og hún Anna

það er ei meira um það

þau eru þínir smiðir,

því er von þú iðir

úr einum í annan stað.

Jón gat reyndar sýnt á sér milda hlið í frumortum ljóðum eins og kemur fram í ljóðinu Tittlingsminning. Þar syrgir Jón hinn vængjaða vin sinn.

Mjög er nú hljótt í söngva sæti!

sá fór í burt er skemmta nam,

er þá mitt fegurst eftirlæti

orðið að dauðum tittlings-ham?

Ó gæti ég lífgað aftur þig!

ó hvað það mundi gleðja mig!Ef lifði Túllín enn hjá Dönum,

um þig sá gæti kveðið brag;

ættfuglar þínir áður honum

yndælan gjörðu Maí-dag,

ég má og vitna það um þig:

þú hefur tíðan gladdan mig.. . .

Ó, hvað lystilig yndis-kvæði

á þinn hljómfagra barkastreng

lék hún, þá morgunljómann bæði

lofaði' og nýjan sigurfeng:

að hálfur unninn vetur var,

vorblóminn gladdi skepnurnar.

Þetta er hluti úr kvæðinu. Richard Beck telur að hér skrifi Jón í ákveðnum hæðnistíl og í anda rómantíkurinnar (þ.e. stíll sem samsvarar rómantískum hæðnistíl Heine) en í henni er samúð með dýrum jafnt sem mönnum eitt af grundvallaratriðunum. Sami maður minnist einnig á það að ljóð Túllíns, sem Jón þýddi, hafi upphaflega verið rituð undir áhrifum frá forverum rómantíkurinnar. Þannig að samkvæmt þessu má segja að Jón hafi að einhverju leyti verið rómantíkus.

Það gætir jafnvel formælinga hjá Jóni ef honum rennur í skap. Þegar hann var orðinn aldurhniginn varð hann haltur og kallaði halta fótinn Kolbein svarta. Þá spottaði maður einn hann fyrir heltina. Jón kvað:

Þú sem mæddum manni geð

meiðir án saka og raka,

annað eins hefur áður skeð

og þú rækir niður hnéð

á kaldan klaka.

Segja má að þetta hafi orðið að áhrínisorðum því að síðar sama dag datt maðurinn svo illa að hnéskelin brotnaði og gekk hann aldrei óhaltur síðan.

Í kveðskap Jóns sem tengist daglegu amstri bregður fyrir ádeilu á kaupmannsvaldið. Eitt sinn ætlaði kaupmaður á Akureyri að taka hryssu af Jóni upp í verslunarskuld. Þá kvað hann:

Varla má þér, vesælt hross!

veitast heiður meiri,

en að þiggja kaupmanns koss

og kærleiks-atlot fleiri,

orðin húsfrú hans;

þegar þú leggur harðan hóf

háls um egtamanns,

kreistu fast og kyrktu þjóf!

kúgun Norðurlands.

Jón Þorláksson orti fallega vísu til Jórunnar, þeirrar sem hann mátti ekki eiga en gat þó við tvö börn:

Sorgarbára ýfir und,

elda rasta njórunn!

freyju tára fögur hrund

falleg ertu Jórunn!

Jóni þótti vænt um þessi "fósturbörn sín" og góður vitnisburður um það er vísa sem hann orti til laundóttur sinnar sem hann átti með bústýru sinni, Helgu Magnúsdóttur.

Komdu til mín, kona góð!

kættu mér í geði!

þér á ég að þakka fljóð!

það sem ég hef af gleði.Öll er von ég elski þig,

yndisperlan ljúfa!

aðrir flestir angra mig,

en aldrei þú, mín dúfa!Þér þó goldin umbun er

öllu minni' en skyldi,

fyrirmunar fátækt mér

að fóstra þig sem vildi.Sá sem gladdi með þér mig

mitt í þrautum nauða,

elski blessi' og annist þig,

eins í lífi' og dauða.

"Fósturbörn" Jóns voru sögð vera börn annarra manna í sveitinni því ef viðurkennt væri að séra Jón Þorláksson væri faðir þeirra þá hefði hann misst hempuna í þriðja sinn, líklega að fullu og öllu.

En Jón hefur þó ekki viljað vera án kynfæranna eins og eftirfarandi vísa vitnar um:

Betra' er að vera hátt með haus

hengdur upp á snaga

en að ríða eistnalaus

alla sína daga.

Jón Þorláksson setti á prent sínar fyrstu þýðingar ásamt nokkrum frumsömdum kvæðum árið 1774. Hann var þrítugur þegar honum fyrstum íslenskra skálda öðlaðist sá heiður og sú hamingja að fá að líta og handleika sín eigin ljóð í prentaðri bók. Jón er þó frægastur fyrir þýðingar sínar á Paradísarmissi eftir John Milton, Messíasi eftir Klopstock og Tilraun um manninn eftir Alexander Pope eins og fyrr er sagt.

Um og eftir sextugsaldurinn varð nokkur breyting á hugarfari Jóns frá Bægisá og er ástæðan ef til vill sú að hann hefur verið farinn að finna fyrir ellinni. Hann varð þunglyndari og bitrari í orðatiltækjum en fyrr og sár yfir því að menn mætu verk hans ekki að maklegheitum. Samt sem áður brá ekki sjaldan fyrir glaðlyndi hans og hafði hann þá veikleika sinn og fátækt að gamni.

Úr Paradísarmissi

Blíður er árblær,

blíð er dags koma,

fylgja henni tónar

töfrafullir

árvakra fugla,

sem er eyrnalist.

Blíður er röðull,

þá er breiðir hann

austan árgeisla

á unaðsfoldir,

yfir grös, eikur

og aldini,

sem þá deig glansa

fyrir döggfalli.

Samantekt

Af heimildum um Jón Þorláksson má ráða að hann hefur verið skáld gott, bókvís, ljóðelskur, verið kvennamaður, gleðinnar maður, gamansamur, klæminn, lítill búmaður og frekar fátækur alla sína tíð.

Sjálfslýsing

Hér með lýsist hjörfa Þór:

hann á að vera skrafinn,

herðalotinn mjög og mjór,

mikið bólugrafinn.Hann er næsta höfuðsmár,

um höku' og kinnar loðinn,

gult á kolli hefir hár,

hvergi búkur snoðinn.Seggurinn hefir söðulnef,

sem er hátt að framan,

mælir oft frá munni stef

mörgum þykir gaman.Ærið þungur undir brún,

ör og þver í lyndi,

meður litla hönd, en hún

heitir strá í vindi.Upp í loftið álnir tvær,

átta' og sjö þumlunga

voga loga viður nær,

vegur tólf fjórðunga.Einatt hýrum augum vann

auðs á renna jarðir,

ei til handa annað kann

en að bregða gjarðir.Við þeim glæp sig vari fólk,

sem vill að sínu búa:

honum fyrir ferskri mjólk

og feitu spaði' að trúa.Eitt hans merki vitum vær,

víst ei forgleymandi:

ákaflega' hann allur rær,

eins á sjó og landi.Stundum klúr í orðum er,

augun hörð sem tinna.

Ef hann fyrir einhvern ber

eigi þeir sem finna.

Heimildir:

Erlendur Jónsson. 1977. Íslensk bókmenntasaga 1550­1950. Reykjavík. Bókagerðin Askur.

Guðmundur G. Hagalín. 1948. "Jón Þorláksson". Samtíð og saga, ritstjóri Steingrímur Þorsteinsson. Reykjavík. Ísafoldarprentsmiðja H.F.

Íslensk ljóðabók Jóns þorlákssonar prests að Bægisá. 1843. Kaupmannahöfn. Prentað á kostnað Þorsteins stúdents Jónssonar.

Jón Sigurðsson. 1947. Merkir Íslendingar. Reykjavík. Bókfellsútgáfan.

Richard Beck. 1957. "Jón Þorláksson, Icelandic Translator of Pope and Milton". Studia Islandica 15­17. Reykjavík. H.F. Leiftur.

Sigurður Stefánsson. 1963. Jón Þorláksson. Reykjavík. Almenna bókafélagið.

Sverrir Kristjánsson og Tómas Guðmundsson. 1971. Gamlar slóðir. Reykjavík. Forni.

Mynd: Árni Elfar.

ÞEGAR Jón missti kjól og kall eftir að hafa eignast tvö börn með Jórunni Brynjólfsdóttur, fékk hann uppreisn æru og nýtt braut að Stað í Grunnavík. En þegar Jórunn ól honum þriðja barnið var lokið prestskap hans vestra.