Nítján hundruð nefna má nú með geði hlýju upp nam rísa seggur sá sjö og fjörutíu. Svo orti faðir okkar Kristleifur Jónsson þegar Kleifabúi var risinn á stalli sínum sumarið 1947.

KLEIFABÚI 50 ÁRA

Nítján hundruð nefna má

nú með geði hlýju

upp nam rísa seggur sá

sjö og fjörutíu.Svo orti faðir okkar Kristleifur Jónsson þegar Kleifabúi var risinn á stalli sínum sumarið 1947.

Vegur hafði verið lagður af vegavinnuflokki Kristleifs frá Patreksfirði yfir Mikladal og Hálfdán til Bíldudals, inn Raknadalsskriður og yfir á Rauðasand, og nú var akfær vegur kominn upp Kleifarnar upp á Kleifaheiði. Öll þessi vegalagning var unnin með handverkfærum um torleiði, grýttar og brattar skriður að miklum hluta.

Braut í halla hér ég ryð,

hart þó valla miðar.

Það er galli að glíma við,

grjót á allar hliðar.

Orti frændi okkar Kristján Samsonarson.

Í Kleifunum hafði faðir okkar reist drang upp á endann, beint í urðinni þar sem hann lá. Margir forvitnir ferðamenn komu til að fylgjast með framkvæmdum og staðnæmdust við dranginn. Hann fékk skýluklút og nafnið Kleifagudda. Þessi athygli, sem svo ómerkilegur dangur upp á endann fékk, varð þeim vegavinnumönnum hvatning til frekari dáða.

Á þeim árum var vegagerð eftirsótt sumarvinna, í hana völdust ungir, duglegir atorkumenn. Og nú voru tímamót. Við blasti Kleifaheiðin torfærulaus og slétt, auðveld vegalagning ofan af heiðinni til suðurs og þar tók við Barðaströndin blómleg, víðfeðm og falleg.

Þingmannaheiðin var víðs fjarri og enginn farinn að hugsa til vísunnar frægu.

Þess óska ég drottinn ef á ég mér sál

og ætlirðu að tyftana í reiði

þá sendana í ís, í bik eða bál

en bar ekki á Þingmannaheiði.

Á Kleifaheiði voru hins vegar Kleifarnar að baki og fyrsta jarðýtan International Harvester TD 9, sem fékk hið virðulega nafn Ása-Þór, í sjónmáli, og það var ástæða til að staldra við og gleðjast. Var ekki tilefni til að gera eitthvað virðulegra fyrir umhverfið en dranginn Kleifaguddu? Á þeim tíma hugsuðu menn í vegavinnu vestur á fjörðum ekki um ódauðleg listaverk eða myndræna sköpun, athafnaþráin og vinnugleðin rak þá áfram.

Margar listilega fallegar vörður hafa verið hlaðnar á Íslandi í aldanna rás, og er það vel og löngu tímabært að þeim sé nú gefinn aukinn gaumur. Vörður sem leiðarvísir, landamerki, eða bara til að takast á við verkefnið og til skrauts er trúlega séríslenskt fyrirbæri. Reyndu að hlaða vörðu og þú kemst að því að meira þarf til en bara grjótið.

Kleifabúi er hlekkur í vörðuhleðsluhefð, sem var að renna sitt skeið og hann hefur nokkra sérstöðu. Hann er minnisvarði, minnisvarði um þá menn, sem fengu hugmyndina og framkvæmdu. Allur unninn í frítíma þeirra manna, sem höfðu af því atvinnu að fást við grjót. Unninn á kvöldin eftir langan vinnudag, en nú varð grjótið ekki lengur "galli að glíma við", heldur efniviður í sköpunarverk, alþýðulistaverk.

Kleifabúi er ca 5 metra hár í mannsmynd, hlaðinn úr grjóti, en límdur saman með sementi, höfuðið er alfarið úr steinsteypu. Margar sögur hafa myndast um Kleifabúa, og honum verið gefin önnur nöfn en sitt rétta. Sömuleiðis varð sú saga lífseig að höfuðið væri eftirmynd frægs óðalsbónda og höfðingja af Barðaströnd. Faðir okkar var að eðlisfari hæglátur og skipti ógjarnan um málróm, ef hins vegar þessi orðrómur barst honum til eyrna brást hann snöggur við og átti til að hvessa sig til að bera þennan söguburð til baka.

Kleifabúi var ekki ímynd eins eða neins, og allra síst reistur til að endurgera þennan eða hinn. Hann var og er hluti af urðinni, sem hann er sprottinn upp úr. Óþvingað og eðlilegt sköpunarverk glaðlyndra og listfengra vegavinnumanna.

Aðeins var Kleifabúi farinn að láta á sjá í tímans rás, en nýverið framkvæmdi Vegagerð ríkisins á honum nauðsynlegt viðhald og merkti. Því verki stjórnaði Höskuldur Þorsteinsson frá Litlu-Hlíð, en hann var ungur maður í vegavinnuflokknum 1947 og tók þátt í ævintýrinu þá. Kleifabúi stendur því nú, keikur sem aldrei fyrr, á brún Kleifaheiðar.

Að lokum fylgja hér þrjár vísur, sem faðir okkar orti honum til heiðurs sumarið 1947.

Hátt á bergi Búi stendur,

býður sína traustu mund;

horfir yfir heiðarlendur

hár og þögull alla stund.Búinn varstu úr bergi hörðu,

blóði vana kempan treg;

minnir helst á heiðarvörðu

hér við Barðastrandarveg.Stattu lengi heill á húfi,

hetjan prúð, í fjallasal,

þó að váleg veður rjúfi

varman frið um strönd og dal.

María, Jens og Björn Kristleifsbörn.

KLEIFABÚI var allur unninn í frítíma þeirra manna sem höfðu atvinnu af því að fást við grjót. Myndin var tekin 1947.