ENID Blyton ætlaði aðeins að skrifa sex bækur í þekktasta bókaflokki sínum, bókunum um hin fræknu fimm, að sögn dóttur hennar. Hún lét hins vegar undan þrýstingi útgefanda síns og lesenda og samdi alls 21 bók um fimmmenningana á árunum 1942 til 1963, þrátt fyrir að hún væri orðin hundleið á efninu.
Eitt hundrað ár eru frá fæðingu barnabókahöfundarins Enid Blyton Hundleið á hinum fimm fræknu

London. The Daily Telegraph.

ENID Blyton ætlaði aðeins að skrifa sex bækur í þekktasta bókaflokki sínum, bókunum um hin fræknu fimm, að sögn dóttur hennar. Hún lét hins vegar undan þrýstingi útgefanda síns og lesenda og samdi alls 21 bók um fimmmenningana á árunum 1942 til 1963, þrátt fyrir að hún væri orðin hundleið á efninu. Blyton, sem var um tíma harðlega gagnrýnd fyrir afturhaldssemi í bókum sínum, hefur nú hlotið uppreisn æru og er fyrirhuguð stórsókn á Bandaríkjamarkað með bækur hennar.

Fyrr í vikunni var afhjúpaður minningarskjöldur um Blyton á húsi hennar í Surbiton í London en um þessar mundir eru 100 ár frá fæðingu hennar. Gillian Baverstock, dóttir rithöfundarins, sagði við það tækifæri að móðir sín hefði ekki viljað skrifa nema sex bækur í hverjum flokki. "Hún sagðist vera orðin leið á sumum persónum sínum og sex titlar væru hámarkið. Bækurnar um Fimm fræknu urðu svo vinsælar að henni fannst henni bera skylda til að skrifa alls 21 bók um þau. Þær voru ekki allar skrifaðar af áhuga." Ótrúleg afköst

Blyton skrifaði sína fyrstu barnabók "Barnahvísl" á árunum 1920 ­ 1924 en þá starfaði hún á barnaheimili. Er Blyton lést árið 1968, 71 árs að aldri, höfðu alls um 700 bækur hennar verið gefnar út um heim allan og selst í um 200 milljónum eintaka. Lesendur biðu óþreyjufullir eftir næstu bók og það kom fram í afköstunum, hún var þekkt fyrir að skrifa allt að eina bók á viku, skrifa um 10.000 orð á dag. Þetta varð að sjálfsögðu til að ýta undir orðróm um að hún hefði fjölda hulduhöfunda á sínum snærum. Leiðin til frægðar og frama reyndist torsótt framan af, því áður en Blyton tókst að fá útgefanda að fyrstu bókinni, hafði hún fengið um 500 neitunarbréf. Og dvölin á tindinum var stundum næðingssöm, Enid Blyton var sökuðu um karlrembu, kynþáttahatur, snobb og hverdagsleika, sem var kannski það sem skaðaði hana mest. Þá hafa verið gerðar atlögur að skáldkonunni sjálfri, í breskri heimildarmynd sem sýnd var síðasta vetur var farið mörgum orðum um ástarsamband hennar við kvæntan mann þegar hún var í sínu fyrsta hjónabandi og látið að því liggja að hún hefði verið svo upptekin af því að hún hefði ekki sinnt dætrum sínum sem skyldi. Uppreisn æru

En Blyton fékk nýlega uppreisn æru, því fyrr á þessu ári var fjallað um verk hennar á ráðstefnu Rannsóknarstöðvar í barnabókmenntum og lýstu ráðstefnugestir yfir ánægju með bækur hennar sem væru "feiknagóð lesning". Þá var borið lof á Blyton fyrir þátt hennar í því að gera milljónir barna betur læs. Á síðasta ári voru útgáfu- og söluréttur á verkum Blytons seld Trocadero-samsteypunni fyrir 13,5 milljónir punda, um 1,5 milljarða ísl. kr. Allt bendir til þess að vinsældir áðurnefndra fimmmenninga og Dodda, svo einhverjir séu nefndir, muni haldast. Doddi, sem er orðinn 48 ára, á eigin heimasíðu á alnetinu, nú stendur yfir Dodda-sýning í Leikfanga- og módelsafninu í London, bækurnar um hann voru endurútgefnar fyrir skemmstu og sjónvarpsþættir endursýndir og ævintýrin um hann hafa verið þýdd á 30 tungumál, þar á meðal latínu. Trocadero hyggst gera strandhögg í Bandaríkjunum, og senda Dodda til höfuðs Mikka mús og öðrum hugarfóstrum Walts Disneys. Gera á teiknimyndabækur og -myndir um Dodda fyrir um 5 milljónir punda, um 565 milljónir ísl. kr. Þá eru enn endurprentaðar um 500 af 700 bókum Blytons. Í hópi aðdáenda hennar eru leikkonan Elizabeth Hurley, sem sagði einhvern tíma að bækur eftir Blyton væru fullkomin hvíld frá álagi frægðarinnar. Þá lýsti fyrirsætan Claudia Schiffer því eitt sinn yfir að veggirnir í svefnherbergi hennar væru þaktir bókum Blyton og að hún hefði lesið hverja einustu þeirra.