7. september 1997 | Sunnudagsblað | 2552 orð

Í hinum eina sanna miðbæ

HILMAR Foss hefur verið starfandi skjalaþýðandi og dómtúlkur í Reykjavík og af og til í Lundúnum í hálfa öld og lengi framan af eini atvinnumaðurinn á því sviði í Reykjavík. Hann hlaut löggildingu 1947 og hafði þá áður starfað við þýðingar og
Í hinum eina sanna miðbæ

Miðbærinn í Reykjavík væri ekki samur ef ekki sæist þar ganga hægum skrefum yfirlætislaus maður sem minnir í fasi á breskan hefðarmann. Í hálfa öld hefur Hilmar Foss, dómtúlkur og skjalaþýðandi úr og á ensku, gengið til skrifstofu sinnar í Hafnarstræti 11, þar sem líka er æskuheimili hans. Nær áttræðu heldur hann enn daglega til vinnu frá heimili sínu við Pósthússtræti. Elín Pálmadóttir leit inn til þessa "síðasta móhíkana" í hinum eina sanna miðbæ Reykjavíkur.

HILMAR Foss hefur verið starfandi skjalaþýðandi og dómtúlkur í Reykjavík og af og til í Lundúnum í hálfa öld og lengi framan af eini atvinnumaðurinn á því sviði í Reykjavík. Hann hlaut löggildingu 1947 og hafði þá áður starfað við þýðingar og erlendar bréfaskriftir í London og hér heima í sjö ár og þar áður sem leiðsögumaður og túlkur að sumarlagi. Þegar blaðamaður úr hávaðaheimi nútíma fjölmiðlunar hefur orð á að það hafi farið hljóðlega, segir Hilmar aðeins: "Löggiltir skjalaþýðendur og dómtúlkar vinna flest sín störf í kyrrþey enda venjulega um trúnaðarmál að ræða og engu uppljóstrað. Er því lítt fjallað um þessi störf, sem unnin eru fyrir dómstóla, stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, innlenda og erlenda. Mikið er um þýðingar dómskjala varðandi skipakaup og sölur, sifjamála, leigumála og samninga, svo og skjala um erlendan máflutning og löggjöf. En flest þetta er hulið þagnarheiti skjalaþýðenda og dómtúlka." Það er greinilega ekki hætta á að trúnaðarmálin leki út frá þessari skrifstofu og greinilegt að vart mundi fréttamönnum gagna að gera harða hríð að Hilmari Foss.

Hilmar var kominn til náms í London þegar stríðið skall á. Hann kvaðst að loknu námi hér heima í Verslunarskóla Íslands hafa ætlað í London School of Economics í London. Skólanum var lokað en húsnæðið nýtt undir starfsemi Ministry of Economic Warfare, sem annaðist styrjaldarrekstur á viðskiptasviðinu. Dr. Harris, sem seinna varð viðskiptafulltrúi hér, réð þangað þennan tvítuga Íslending. Þá stóð svo á að sett hafði verið á stofn bresk-íslensk viðskiptanefnd og Pétur Benediktsson varð fulltrúi Íslands í Bretlandi. Þá var enginn viðskiptasamningur milli landanna og þurfti m.a. að útvega til Íslands alls konar vörur sem voru illfáanlegar vegna stríðsins, svo sem kol og járn, auk þess að afgreiða mál frá degi til dags.

"Í mars 1940 var ég lánaður af bresku aðilunum ritari hjá þessari fastanefnd og var það mikið lán að fá að vera aðstoðarmaður Péturs í daglegri og oft næturlangri umgengni við hann á þriðja ár þar á eftir," segir Hilmar. Bretarnir sáu þessum íslensku fulltrúum fyrir húsnæði í Ryder Street, þar sem fátækrafulltrúar Lundúnaborgar höfðu áður verið, og fór töluverður tími Hilmars í að hlusta á raunasögur fólks sem kom og bar sig upp við þá. Hilmar segir að fátt hafi verið um Íslendinga í London. Fyrir utan þá Pétur var þar Brynhildur Sörensen, sú ágæta dama sem brátt kom til starfa með þeim við vélritun og stóð sig mjög vel í þessum þrengingum, dr. Jón Stefánsson gamli, sem bjó þar gegnum tvær heimsstyrjaldir, allar götur frá 1897 til 1947 og grúskaði á British Museum, Björn Björnsson, bakari og stofnandi Hressingarskálans, auk nokkurra íslenskra kvenna, sem giftar voru enskum mönnum. En þær voru fáar því flestar fluttu konurnar úr borginni vegna loftárásanna.Sprengjuárásir á hverri nóttu

Hilmar var í London loftárásaveturinn 1940­41. Hann játar því að þetta hafi verið ógnvænleg lífsreynsla: "Við Pétur vorum einir og héldum okkur mest á vinnustaðnum og heima. Maður fór ekki í loftvarnabyrgi nema fyrst. En þegar maður er einhleypur og ungur, gerir þetta manni ekki svo mikið til. Það hlýtur að vera voðalegt að vera með fjölskyldu og börn á staðnum og vita aldrei hvort fólk sé á lífi þegar komið er heim. Þetta var erfitt fyrst í stað, lítið um svefn allan þennan vetur og oft hella fyrir eyrum. Frá 7. september til 10. maí komu þýsku flugvélarnar og vörpuðu spengjum á London á hverri nóttu. Þá vandist maður þessu. Það var bara orðin rútína. Svo sögðu Bretar alltaf að væri ekki nafnið þitt á sprengjunni þá mundi hún ekki hitta þig. Í þeirri von lifðum við. Í loftárásum verður maður forlagatrúar, finnst að ef einhver sprengjan sé manni ætluð komi hún á tilteknum degi, annars ekki. Sumt fólk svaf alltaf niðri í neðanjarðarhvelfingum járnbrautanna. En við vorum eins og flestir hættir að hirða um slíkt," segir Hilmar og sýnir mér lítið spengjubrot með hvössum oddum sem kom rétt hjá honum og hann tók upp sjóðheitt. Sprengjubrotin voru hættulegust, splundruðust í allar áttir og ekki hefði þurft um sárt að binda ef þetta hefði lent í Hilmari. Það hefði sjálfsagt farið í gegnum hann. Hilmar kom þó heill á húfi heim til Íslands.

Eldsvoði í Hafnarstræti

"Rétt fyrir jólin 1941 brann hús móður minnar hér í Hafnarstræti 11 og ég varð að koma heim. Munaði minnstu að systir mín og 5 og 8 ára gamlir synir hennar, sem við höfðum sent heim til að forða þeim frá loftárásunum á London, færust þarna. Það var fyrir harðfylgi þessara bráðslyngu lögreglumanna að fólkið bjargaðist. Það voru kvistir uppi og þeir Kristján Vattnes og Ólafur Guðmundsson óðu inn í eldinn og vippuðu móður minni og öllu fólkinu, 8 manns, upp á þakið. Eldurinn var svo mikill að þeir sögðu að þegar þeir komu þarna upp og drógu andann hefðu hnapparnir hrokkið af búningunum þeirra. Systursonur minn sagði í viðtali seinna að þeir drengirnir hefðu ekki verið hræddir af því að lögreglumennirnir brostu alltaf svo fallega meðan á þessu stóð," segir Hilmar. Hann sýnir mér illa farna bók, sem var önnur af þeim tveimur bókum sem eftir voru af eigum móður hans því allt brann á heimilinu sem brunnið gat.

Í Morgunblaðinu er stór fyrirsögn 21. desember: "Stórbruni í Hafnarstræti 11 í nótt. Fólk bjargast nauðuglega, slökkviliðsmaður slasast." Blaðið segir að fólkið hafi búið á efstu hæðinni og verið bjargað upp á þakið á náttklæðunum. Slökkviliðsmenn lögðu svo stiga upp að þakskegginu og báru það niður. En skömmu eftir að öllum var borgið lagði logana út um gluggana og upp undir þakskeggið. Í grein í jólablaðinu 1941 segir frá eldsupptökum, en menn veltu mikið fyrir sér hvað hefði getað magnað eldinn svona. Þennan síðasta laugardag fyrir jól var opið í búðinni til miðnættis. Stúlkur sem voru þar að vinna fengu sér þá kaffi í bakherbergi og mun hafa kviknað í ruslakörfu undan sígarettu. Eldurinn læsti sig upp stiga og stigaganga framhjá tveimur hæðum og náði sér á strik á efstu hæðinni.

Þetta vandaða fjögurra hæða steinhús byggði árið 1929 móðir Hilmars, Elísabet Foss, dóttir Kristjáns Jónssonar háyfirdómara og Íslandsráðherra. Þar rak hún á neðstu hæðinni Lífstykkjabúðina, sem hún hafði stofnað 1916 og eldri Reykvíkingar muna eftir, allt þar til neðsta og efsta hæð hússins brunnu. Hún var einmitt að læra sína lífstykkjagerð í Bretlandi þegar Hilmar fæddist og því er hann fæddur í Brighton 28. febrúar 1920.

Hann er alinn upp í húsinu við Hafnarstræti, sem hann segir að hafi verið mjög skemmtilegt. Indælt var að búa uppi á efstu hæðinni með útsýni til norðurs yfir höfnina meðan ekkert hús skyggði þar á, eins og að vera í einbýlishúsi. Og strákarnir léku sér í fjörunni þarna fyrir neðan. Lögreglustöðin var þar við hliðina sem veitti öryggi. Í næstu húsum bjó nokkuð af fólki. Annars var Hafnarstrætið aðallega heildsalagata, útskýrir Hilmar Foss. Allar helstu heildverslanir bæjarins voru þar með skrifstofur á neðri hæðunum, í Edinborgarhúsi og Ingólfshvoli gamla og eftir allri röðinni. Bankinn var aðeins Austurstrætismegin. Einhvern tíma varð kunningja Hilmars, sem hafði litið inn á skrifstofuna til hans og gengið út á svalirnar, að orði: "Hér er gaman að koma því hér er hægt að fara á heildsalaskyttirí." Enda sátu þeir allir höfðingjarnir hver við sinn glugga í húsunum á móti, Óli Haukur, Guídó, Einar P. og Óli Gilla, Sigfús í Heklu og hvað þeir hétu. Nú eru þarna bara bankar og búllur. Skrifstofa Hilmars Foss hefur alltaf verið í Hafnarstræti 11, í breyttu og versnandi umhverfi, segir hann.

Skjalaþýðandi í hálfa öld

Eftir að hann opnaði skrifstofuna í Hafnarstrætinu í aprílmánuði 1947 lögðu margir í vana sinn að líta þarna inn, sem honum þótti mjög skemmtilegt og saknar þeirra sem voru þarna daglegir gestir í áratugi. Til dæmis hafði athafnamaðurinn úr Hafnarfirði, Loftur Bjarnason, enga skrifstofu í Reykjavík en kom alltaf til skiptis til hans og Sveins Benedikssonar úti í Mjólkurfélagshúsi. Einar Baldvin Guðmundsson, einn af ágætustu lögmönnum í bænum, kom þar ætíð við á leið sinni á skrifstofuna í Aðalstræti þegar hann kom af stjórnarfundum Eimskips og oft voru þar því fjörugar umræður.

Þeir sem með honum störfuðu í félagsmálum komu gjarnan á þessa skrifstofu í miðbænum. Hilmar var ritari og formaður Félags enskumælandi manna 1946­58 og formaður Íslandsdeildar Amnesty International 1975­1977.

En hvernig stóð á því að Hilmar gerði þýðingar að ævistarfi? Hann kveðst snemma hafa fengið áhuga á ensku máli enda hafði hann meðan hann var enn í gagnfræðaskóla og verslunarskóla átt kost á að fara til Englands í tvö sumur þar sem systir hans giftist enskum manni. Og á skólaárunum var hann stundum túlkur á sumrin með breskum ferðamönnum.

Starf dómtúlka og skjalaþýðenda var nýlegt hér þegar Hilmar Foss og Þórarinn Jónsson hlutu löggildingu 1947. Þórarinn var formaður Félags löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda 1965­1975 og Hilmar 1975­91, síðan heiðursfélagi. Í upphafi ráku þeir um hríð saman skrifstofu. "En ljóst varð að skjólstæðingum líkaði ekki fyllilega það sem þeir kölluðu samkrull og skiptum við því liði, en höfðum nána samvinnu í nær fjóra áratugi eða þar til Þórarinn lét af störfum," segir Hilmar. "Erfitt var að búa sig undir starfið og litlar leiðbeiningar að fá en við nutum báðir ágætrar aðstoðar prófnefndarmannanna Boga Ólafssonar og Björns Bjarnasonar, svo og Bjarna Guðmundssonar blaðafulltrúa, sem allir voru hinir ágætustu enskumenn og þýðendur. Einnig fengum við fjöldann allan af sjóréttarmálum lánaðan hjá Einari Arnalds, þáverandi borgardómara. Við embætti hans var starfandi sjó- og verslunardómur Reykjavíkur og sjóréttur ofarlega á baugi."

Hilmar kveðst sérstaklega minnast þess er síld veiddist hér í Kollafirði og grennd í svo miklu magni að aka varð til geymslu á knattspyrnuvöllum og víðar, en leigja erlend flutningaskip til að flytja síldina í bræðslu norðanlands og austan. Skipin voru ekki sérbúin fyrir þessa hættulegu farma sem áttu það til að kastast til í lestum svo skipin fengu á sig slagsíðu og þurftu aðstoð til að leita vars og hafnar. Einnig var mikið um strand og sjóskaða á þessum árum. Snar þáttur í starfinu fyrstu árin eftir heimsstyrjöldina síðari segir Hilmar að hafi verið að annast erlendar bréfaskriftir fyrir innflytjendur og aðra viðskiptaaðila. Um þetta leyti hófust flugsamgöngur við útlönd. Var í upphafi flogið utan á þriðjudagsmorgnum og örtröð verkbeiðenda á mánudögum, sem þeir brátt kölluðu Botníudaga eftir póstskipinu gamla í Danmerkursiglingunum. En verkefnin voru margvísleg. Réttarhöld vegna fiskveiðilagabrota voru mjög tíð og mikið um dómtúlkun og þýðingu málsskjala á því sviði. Var Hilmar Foss jafnan kvaddur til dómtúlksstarfa í þessum málum eftir að Snæbjörn Jónsson hætti störfum. Oftast var þá réttað úti á landi við ærið misjafnar starfsaðstæður. Þurfti oft að fara fyrirvaralaust á Austfirði eða Vestfirði og samgöngur ótryggar. Segir Hilmar að erfitt hafi verið að þurfa að túlka viðstöðulaust, stundum dögum saman og fram á nótt þegar um flókin siglingafræðileg meint brot var að ræða. Starfið þá örðugt og lýjandi. Snemma á sjöunda áratugnum fóru svo að koma inn málefni varðandi virkjanir og stóriðjuáætlanir, þar sem hæst bar samningaumleitanir við erlenda aðila um lántökur og hvers kyns áform á stóriðjusviði.

Og Hilmar lætur ekki deigan síga, vinnur enn að skjalaþýðingum í fullu starfi. "Ég gæti ekki hugsað mér að hætta," segir hann. Og bætir við: "Enda höfum við engin eftirlaun, svo það verður bara að halda áfram þar til yfir lýkur. Ég gæti raunar ekki hugsað mér að vera iðjulaus. Skólabræður mínir. dómarar, embættismenn og aðrir, eru hættir fyrir 10 árum. Reyndar held að ég að ég mundi aldrei fara að spila golf eins og margir fást við. Og maður verður að hafa eitthvert hugðarefni." Það er á honum að heyra að honum finnist starfið enn jafn áhugavert. Auk þess er Hilmar svo heppinn að enginn getur sagt honum að hætta. Því ráða verkbeiðendur sem enn sækja til hans.

Og ekki hefur Hilmar flúið úr miðbænum, eins og svo margir aðrir. "Fyrir 13 árum keypti ég íbúðir fyrir okkur Guðrúnu og dóttur okkar í Pósthússtræti 13. Kristján móðurafi minn átti húsið sem þar stóð áður, þar til hann þurfti að selja það til að geta menntað syni sína. Við keyptum þetta fyrir staðinn og ætluðum okkur það fyrir elliheimili. Umhverfið við Pósthússtræti er ekki rólegt lengur, en við Hafnarstræti verður að teljast heilsuspillandi húsnæði því fólk nýtur ekki svefnfriðar. Hér er ekki hægt að koma á föstudags- og laugardagskvöldum," segir Hilmar. Við rifjum upp að á þeim tíma var það stefna Reykjavíkurborgar að fá fólk til að búa í miðbænum. Að hafa íbúðir á efri hæðum og þjónustufyrirtæki yrðu á neðri hæðum. Þá voru húsið í Pósthússtræti og annað stórt íbúðarhús við Lækjargötu reist. En nú hefur þetta alveg snúist við. "Það mundi minnka þetta bílafargan og ferðalög fólks í vinnu. Ég hefi ekki þurft að eiga bíl í fjöldamörg ár, bara spásserað hér á milli," segir Hilmar, enda er fjölskylda hans öll búsett í miðbænum.

Hilmar dregur upp lítið segulbandstæki sem hann hafði látið liggja í gluggakistunni á fjórðu hæðinni hjá syni sínum og fjölskyldu hans eina nóttina. Hávaðinn og lætin sem berst neðan frá götunni er með ólíkindum. "Svona er það upp úr miðnætti og fram undir 6­7 á morgnana. Hér var um daginn stunginn maður á götunni klukkan 6.30 að morgni. Þúsundir manna þyrpast ölóðir saman," segir Hilmar. Hann segir að ekki sé hægt að koma út eftir miðnætti þessi kvöld, kveðst ekki láta sér detta í hug að ganga yfir til sonar síns og fjölskyldu hans þegar líður á kvöldið. Sonur hans, Hilmar Friðrik Foss, býr líka með fjölskyldu sinni í miðbænum, lét fyrir 15 árum innrétta fyrir sig íbúð á efstu hæðinni í Hafnarstræti 11. Á hverjum morgni verður hann að þrífa þarna niðri og portið líka því stundum er svo mikil ólykt þegar menn hafa verið að pissa þar og æla. "Ég fæ oft virðulegt fólk sem kemur á skrifstofuna og manni finnst leiðinlegt að láta fólk sjá þetta. Austurstræti, Hafnarstræti og Tryggvagata eru orðin óíbúðarhæf vegna hávaða og óþrifa. Það eru talsverðar búsifjar af þessum vanda miðbæjarins, sem maður verður að vona að verði tekið á, því þessi mikli, almenni drykkjuskapur er þjóðfélagsböl. Að þúsundir manna skuli þyrpast saman, meira og minna allar ölóðar. Þetta fólk er ekki að skemmta sér, virðist bara í vandræðum með sig. Drekkur frá sér vitið og hefur ekki áhuga fyrir lífinu. Þetta er mikill ljóður á miðborginni, eins og þessi lýður sé þar ríkjandi, hafi tekið völdin. Ég hef áhyggjur vegna unga fólksins sem tekur við þessu, börnum og barnabörnum," segir Hilmar og segist sjálfur þrauka.

HILMAR Foss á svölunum við skrifstofu sína í Hafnarstræti 11. Áður var þetta heildsalagata og hefði þá mátt fara á heildsalaskyttirí af þessum svölum, eins og einhverjum kunningja hans varð að orði þegar hann leit alla helstu heildsala bæjarins sitjandi í röðum við gluggana á húsunum á móti.

Morgunblaðið/Þorkell

ÞEGAR bruninn mikli varð í Hafnarstræti 11 bjargaðist fólkið upp á þak fyrir vaska framgöngu þessara tveggja lögreglumanna, Kristjáns Vattnes og Ólafs Guðmundssonar. Á milli þeirra er systursonur Hilmars, Hilmar Foss Poulton skipstjóri, sem þá var drengur og einn af þeim átta sem bjargað var.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.