Hlutafélag í Bolungarvík kaupir loðnuskipið Júpíter EINAR Guðfinnsson hf. á Bolungarvík og Lárus Grímsson skipstjóri hafa keypt hlut í loðnuskipinu Júpíter af Hrólfi Gunnarssyni útgerðarmanni í Reykjavík og hafa þessir þrír aðilar stofnað hlutafélag um...

Hlutafélag í Bolungarvík kaupir loðnuskipið Júpíter

EINAR Guðfinnsson hf. á Bolungarvík og Lárus Grímsson skipstjóri hafa keypt hlut í loðnuskipinu Júpíter af Hrólfi Gunnarssyni útgerðarmanni í Reykjavík og hafa þessir þrír aðilar stofnað hlutafélag um rekstur skipsins. Einar Guðfinnsson hf. og Hrólfur Gunnarsson eiga nú jafnstóran hlut í skipinu eða 47,5% og Lárus Grímsson 5%. Skipið verður skráð og gert út frá Bolungarvík og mun Lárus Grímsson verða skipstjóri þess. Einar K. Guðfinnsson, útgerðarstjóri hjá Einari Guðfinnssyni hf., vildi ekki segja hvert kaupverð hvors hlutar hefði verið í samtali við Morgunblaðið í gær.

Júpíter er 800 tonna loðnuskip. Loðnukvóti þess er 23 þúsund tonn en það hefur einnig 150 tonna rækjukvóta, tæplega 100 tonna bolfiskkvóta og 1000 tonna síldarkvóta. "Það er okkur mikið fagnaðarefni að Júpíter skuli nú bætast í flota Bolvíkinga," sagði Einar K. Guðfinnsson.

Að sögn Einars K. Guðfinnssonar mun Júpíter fara á veiðar fljótlega og verða á rækjuveiðum fram eftir hausti. Lárus Grímsson, skipstjóri á Júpíter, var áður skipstjóri á loðnuskipinu Hafrúnu sem gert var út frá Bolungarvík. Síðustu ár hefur hann verið skipstjóri á Hilmi II frá Reykjavík.

Júpíter hét áður Gerpir og var síðutogari smíðaður árið 1957. Hrólfur Gunnarsson útgerðarmaður keypti skipið af Tryggva Ófeigssyni og breytti því í loðnuskip árið 1979.