HUGVIT HF. var stofnað árið 1993 og eru helstu eigendur Eignarhaldsfélag Alþýðubankans, Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn, Ólafur Daðason og fjölskylda ásamt fleiri einstaklingum og fyrirtækjum. Strax í upphafi var lögð áhersla á þróun hugbúnaðar undir Lotus Notes sem hentaði að mati aðstandenda best fyrir þau hópvinnukerfi sem þróa átti.
Staðlaður hópvinnuhugbúnaður

Stofnað 1993

HUGVIT HF. var stofnað árið 1993 og eru helstu eigendur Eignarhaldsfélag Alþýðubankans, Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn, Ólafur Daðason og fjölskylda ásamt fleiri einstaklingum og fyrirtækjum. Strax í upphafi var lögð áhersla á þróun hugbúnaðar undir Lotus Notes sem hentaði að mati aðstandenda best fyrir þau hópvinnukerfi sem þróa átti.

Á upphafsárum Hugvits var ráðist í verkefni með nokkrum ráðuneytum varðandi tölvuvæðingu og skráningu erinda sem þeim berst. Það kerfi kallast Málaskrá ráðuneytanna og eru öll erindi skráð inn í málaskrána og haldið utan um feril málanna ásamt þeim skjölum sem tengjast þeim.

Málaskráin varð síðan grunnur af skjala-, verkefna- og samskiptabrunni sem heitir GoPro. GoPro er nú í notkun hjá fjöldanum öllum af íslenskum fyrirtækjum og er að hasla sér völl á erlendri grundu. Árið 1996 fékk GoPro "Euro Beacon"-verðlaunin frá Lotus inc. 3.200 önnur fyrirtæki voru í pottinum og er Hugvit eitt af fimm fyrirtækjum í Evrópu sem nota mega Euro Beacon merkið á sína vöru. Árið 1997 fékk Hugvit Nýsköpunarverðlaun Rannsóknar- og útflutningsráðs.

Agnar M. Jónsson hjá Hugviti segir að í framhaldi af Euror Beacon verðlaununum hafi GoPro vakið tölvuerða athygli erlendra fyrirtækja og í dag sé það selt og markaðssett af IBM í Svíþjóð og Danmörku. "Verið er að kanna aðra markaði í dag og fyrir liggur að þýða GoPro yfir á þýsku, frönsku og spænsku og í framhaldinu markaðsetja vöruna í viðkomandi löndum."

Agnar segir að stefna Hugvits í dag sé að framleiða staðlaðan hópvinnuhugbúnað fyrir LotusNotes til sölu og markaðsetningar á innlendum sem erlendum markaði. "Hugvit hefur stækkað mikið frá stofnun þess og eru starfsmenn nú um 40 talsins. Eins og gengur og gerist með öll fyrirtæki þá breytast áherslur með straumum og stefnum en engin meiriháttar stefnubreyting hefur átt sér stað, heldur hefur fyrirtækið þrengt áherslusvið sitt og leggur nú megináherslu á þróun GoPro fjölskyldunnar.

Það er vissulega hægt að lifa af hugbúnaðarsmíð á Íslandi, en þegar hugbúnaðurinn er orðinn jafn viðamikill og GoPro þá verður að leita út fyrir landsteinana, Íslenski markaðurinn er einfaldlega ekki nægjanlega stór til að fjármagna slíkt verkefni."

Agnar segir að Íslendingar séu mjög fljótir að tileinka sér tæknina og láta hana vinna með sér. Þar af leiðandi sé ekki erfitt að vinna nýjan markað hér á landi svo framarlega sem menn hafi eitthvað uppá að bjóða.

Það er ekki líklegt að íslensk fyrirtæki nái að keppa við erlenda risa á borð við Microsoft, Oracle, IBM. Það er mun vænlegri leið til árangurs að finna vannýttan markaðskima og koma með lausn þar á undan öðrum og nota síðan forskotið til markaðssetningar erlendis. Til þess getur verið nauðsynlegt að leita til samstarfs við fyrirtæki sem þekkja betur til aðstæðna á mörkuðunum og hafa bolmagn til að ná árangri. Við höfum alist upp í sköpunarríku þjóðfélagi með sterka menningararfleið og það nýtist okkur í hugbúnaðarsmíðinni."

Agnar segir að starfsmenn Hugvits hafi snemma áttað sig á tækifærum netsins. "Þau tækifæri felast einkum og sér í lagi í þeim ógöngum sem fyrirtæki hafa lent í við viðhald á heimasíðum sínum. Starfsmenn fyrirtækja hafa þurft að reiða sig á tæknimenn með HTML-kunnáttu til að birta efni á vefnum. Þetta hefur orðið til þess að vefir fyrirtækja hafa úrelst og þeir þar af leiðandi ekki orðið sá vettvangur sem menn vonuðust eftir. Þegar fyrirtæki hefur áttað sig á þessari stöðu hefur tvennt verið til ráða, annars vegar að loka vefnum eða að uppfæra og viðhalda honum með tilheyrandi kostnaði án nokkurrar tryggingar um að vefurinn verði í sama fari að nokkrum tíma liðnum.

Til að leysa þetta vandamál hefur Hugvit hannað og þróað hópvinnubúnað fyrir vistun heimasíðna fyrirtækja og ber hann nafnið InterPro. Með InterPro vinna starfsmenn fyrirtækjanna sem þekkinguna hafa efnið sem birta á á vefnum. Tryggt er að engar síður birtist nema þær séu samþykktar af ábyrgðarmanni viðkomandi efnisflokks. Hægt er að tengja dagsetningar við hverja síðu þannig að þegar kemur að úreldingu þá hverfur hún af heimasíðunni, höfundur og ábyrgðarmaður fá tilkynningu um breytingarnar. InterPro er mjög einfaldur í notkun og þurfa þeir sem nota hann enga þekkingu á stýrikerfum, uppbyggingu skráarkerfa, HTML forritun eða notkun flókinna internet- tóla. InterPro er í raun auðveldari í notkun en einföld ritvinnsluforrit á borð við MS-Write. InterPro er nú þegar selt til allmargra íslenskra fyrirtækja og má þar nefna Marel, Flugleiðir, VÍS, Samvinnuferðir- Landsýn.

Það er margt spennandi framundan. Við erum að byrja markaðssetningu á InterPro, ný útgáfa er væntanleg af GoPro þar sem boðið er uppá verkstýringu (e. workflow) og samþykktaferli á skjöl. Við bindum nokkrar vonir við erlenda markaðinn en við höldum báðum löppum þétt við jörð þrátt fyrir háleit markmið og umfram allt þá spyrjum við að leikslokum."

Morgunblaðið/Þorkell Frá vinstri: Agnar Már Jónsson, markaðsstjóri, Markús Pétursson, þjónustustjóri, Árni Gústafsson, verkefnisstjóri, Guðmundur Helgason, framleiðslustjóri Íslensku Internetþjónustunnar, og Óskar K. Jensson, forritari hjá Íslensku Internetþjónustunni.