Hallbjörg Bjarnadóttir Hallbjörg Bjarnadóttir listakona lést á Landspítalanum hinn 28. september. Með Hallbjörgu Bjarnadóttur er genginn sérstæður persónuleiki, hún var fjölhæf, skyldurækin, og mátti aldrei vamm sitt vita, vinur vina sinna og trygg með afbrigðum.

Hallbjörg fæddist í Hjallabúð á Brimisvöllum. Foreldrar hennar voru Bjarni Hallsteinsson frá Skorholti í Leirá og Meðalhreppi í Borgarfirði, sonur Hallsteins Ólafssonar og Steinunnar konu hans. Móðir hennar var Geirþrúður Kristjánsdóttir, fædd 5. apríl 1883, foreldrar hennar voru Kristján Þorsteinsson, bóndi og skipstjóri á opnum bát í Hjallabúð, og kona hans Sigurlín Þórðardóttir, hreppstjóra á Skerðingsstöðum, en átti ættir að rekja til Breiðafjarðareyja, þar sem allir eru skyldir hver öðrum, þó þau hjón kenndu sig við Árneyjaætt. Bæði voru hjónin skáldmælt og lifa kvæði þeirra og rímur ennþá í hugum eyjabúa og á Snæfellsnesi. Bjarni Hallsteinsson lést á besta aldri, af slysförum, en hann var þá háseti á bát frá Akranesi, sem eins og í þá daga "gerðu út" frá Sandgerði. Þá var Bjarni Hallsteinsson aðeins 34 ára, árið 1925. Þá var Hallbjörg komin fyrir nokkru í fóstur að Brunnastöðum til sæmdarhjónanna Kristínar Jónsdóttur og Jóns Ólafssonar, sem voru barnlaus og lögðu hart að Geirþrúði að fá Hallbjörgu til uppeldis. Systur hennar voru tvær fyrir, Kristbjörg tvíburasystir hennar og Steinunn, sem var nokkrum árum yngri. Þær eru báðar látnar, bjuggu að mestu leyti í Bretlandi, giftar breskum mönnum, báðar söng- og leikkonur, sem veitti þeim þá lífsfyllingu, sem þeim var hugleikin. Það kom engum á óvart að Hallbjörg Bjarnadóttir yrði fræg af söng sínum og listfengi. Báðir foreldrar hennar voru söngelskir, svo af bar. Bjarni var eftirsóttur leikari á Akranesi, sérstaklega í erfið hlutverk hjá Leikfélagsskap Skagamanna í Báruhúsinu.

Hallbjörg giftist eftirlifandi manni sínum árið 1940, Jens Fischer Nielsen, lyfjafræðingi frá Danmörku, en hann var í hlutastarfi hér á landi sem apótekari, þegar þau hjón kynntust. Fischer Nielsen er mikill mannkostamaður, prúðmenni og listfengur mjög, eða eins og eiginkona hans sagði: "Hann er ekki aðeins eiginmaður minn, hann er besti vinur minn og félagi." Þessi ummæli eru ef til vill skýring á heimilisbrag þeirra hjóna, sem einkenndist af góðvild og drengskap, sem þeim báðum voru eiginleg og gætu orðið til fyrirmyndar þeim sem láta tímann líða "aðeins til að vera til". Enda höfðu þau sömu áhugamál, sem er ekki alltaf fyrir hendi. "Ungmenni nokkurt sagði við Meistarann: Ræddu við okkur um vináttuna. (Spámaðurinn, þýðing Gunnar Dal.) Og hann svaraði og sagði: Vinur þinn er þér allt. Hann er akur sálarinnar, þar sem samúð þinni er sáð, og gleði þín uppskorin. Hann er brauð þitt, og arineldur. Þú kemur til hans svangur, og í leit að friði. Þegar vinur þinn talar þá andmælir þú honum óttalaust, eða ert honum samþykkur af heilum hug. Og þegar hann þegir, skiljið þið hvort annað, því í þögulli vináttu ykkar verða allar hugsanir, allar langanir og vonir ykkar til, og þeirra er notið í gleði sem krefst einskis. Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn, því að það sem þér þótti vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið best af sléttunni. Þessum orðum Spámannsins má líkja við samband þeirra hjóna. Sérstakt!

Hallbjörg og eiginmaður voru ekki lengi hérlendis eftir giftingu nema í stuttum heimsóknum, þá söng Hallbjörg ævinlega fyrir landsmenn, en hún hafði þá haslað sér völl með söng og leik í Evrópu, og seinna í Bandaríkjunum, allstaðar við mikla hrifningu áheyrenda. Hún náði svo sannarlega til fólksins með söng sínum og leik, enda birtu dagblöð og tímarit fjöldann allan af greinum og viðtölum, um söng hennar og hæfni. Hallbjörg var ekki aðeins sönglistakona, hún var einnig myndlistarkona. Málverk hennar eru kunn á Norðurlöndum og víðar. Þau hjónin komu alkomin heim fyrir fimm árum.

Fátækleg kveðjuorð mín eiga ekki að vera í eftirmælastíl, heldur einungis þakklætisorð og láta í ljós þá ósk til eiginmanns hennar og ættingja, að hryggðin yfir brottför hennar megi víkja fyrir voninni um hjartnæma endurfundi, ásamt gleðinni yfir því hve gott er að minnast hennar.

"Dauðinn er öllum líkn, sem lifa vel. Við sem eftir lifum samfögnum henni við sólarás þess lífs sem leysir fjötur af fæti." (Matthías Jochumsson.)

Ég minnist þess þegar við sem börn hlupum allan Langasandinn á enda inn að Krossi, og virtum fyrir okkur álfana í Jaðarsbökkum. Elsku frænka, ég þakka þér samfylgdina liðin ár, ég sé þig í anda syngjandi í ljósbirtu morgunroðans.

Þóra Einarsdóttir.