UPPGANGUR hlutabréfa í Bandaríkjunum undanfarin ár hefur verið með ólíkindum. Til að mynda hefur Dow Jones hlutabréfavísitalan þrefaldast í forsetatíð Clintons og þar af hefur hún aukist um 24% á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs.

Eru birnirnir

í næsta

nágrenni?

Eins og á Íslandi undanfarin ár virðist það ekki hafa skipt miklu máli í Bandaríkjunum í hvaða stórum fyrirtækjum fjárfest hefur verið, verð þeirra hefur nánast undantekningarlaust farið upp, skrifar Már Wolfgang Mixa . Nú þarf að fara að vanda valið mun betur.

UPPGANGUR hlutabréfa í Bandaríkjunum undanfarin ár hefur verið með ólíkindum. Til að mynda hefur Dow Jones hlutabréfavísitalan þrefaldast í forsetatíð Clintons og þar af hefur hún aukist um 24% á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs.

Þessi uppgangur hefur jafnvel verið enn athyglisverðari í ljósi þess að skammtímavextir hafa farið upp frekar en niður þetta tímabil og engin teikn eru á lofti um að lækkanir á skammtímavöxtum séu handan við hornið. Hafa margir talið að markaðurinn hefði náð toppnum einhvers staðar á þessu tímaskeiði, selt stóran hluta hlutabréfaeigna sinna, aðeins til að horfa á markaðinn fara enn lengra upp og þá jafnvel aftur farið að kaupa hlutabréf. Þekktasta dæmið er þegar sjóðsstjóri stærsta hlutabréfasjóðs Bandaríkjanna, Magellan hjá Fidelity verðbréfasjóðsfyrirtækinu, taldi að aðalhækkunin hefði þá þegar átt sér stað á hlutabréfamarkaðnum og seldi því flest hlutabréf í sjóðnum og keypti skuldabréf í staðinn. Hlutabréfamarkaðurinn hélt áfram að rjúka upp og hluthafar sjóðsins fóru því á mis við mikla hækkun á verði hlutabréfa. Í dag er vægi sjóðsins í hlutabréfum svipað því sem áður var en sjóðsstjórinn er þó annar.

Ofmatið áætlað 10-25%

Eftir alla þá hækkun sem undanfarið hefur átt sér stað eru sífellt fleiri að komast á þá skoðun að verð hlutabréfa í Bandaríkjunum sé orðið of hátt og að of mikillar bjartsýni gæti um vöxt efnahagsins, afkomu fyrirtækja og almenna vaxtastefnu í verði þeirra, sama hvernig á málið sé litið. Tölurnar sem oftast eru nefndar um ofmat bandarískra hlutabréfa eru á bilinu 10%-25%. Skal engan undra, nú þegar v/h (markaðsverð fyrirtækis/árshagnaður fyrirtækis) hlutfall bréfa í Dow Jones vísitölunni er orðið 25. Því er það engin furða þótt margir hafi áhyggjur af því að haldið verði upp á áratugar afmæli fallsins mikla sem átti sér stað 19. október 1987 með endurtekningu. Fréttir herma að sjálfur Warren Buffet, sem margir telja að sé mesti snillingurinn á hlutabréfamarkaðnum, hafi selt stóran hluta af hlutabréfasafni sínu í miðjum ágústmánuði. Þau eru mörg góðu rökin fyrir því að besta skeiðið sé runnið á enda í bili.

Helstu ástæður sem gefnar hafa verið fyrir uppgangi efnahagsins í Bandaríkjunum undanfarin ár er sá stöðugleiki sem einkennt hefur efnahaginn og sú mikla hagræðing sem fyrirtæki hafa náð á sama tíma. Hefur þessi aukna hagræðing t.a.m. verið stór þáttur í því að þrátt fyrir aukna framleiðni og lítið atvinnuleysi hefur ofþensla ekki myndast, sem í framhaldi af því hefur haldið vöxtum stöðugum. Halda margir því fram að hagræðingin, gjarnan nefnd "nýaldar efnahagur", eigi eftir að auka enn á framleiðni bandarískra fyrirtækja. Staðreyndin er hinsvegar sú að auðveldasta hagræðingin hefur nú þegar átt sér stað, aðallega í geirum þar sem tölvutæknin hefur aukið afköstin. Tæknin heldur áfram að þróast, en það sem skiptir öllu meira máli er að æ fleiri starfskraftar eru orðnir vanir notkun tölvunnar. Vissulega eiga tölvur eftir að auka framleiðni enn meira á mörgun sviðum en víst má telja að vöxturinn eigi ekki eftir að vera eins mikill og undanfarin ár, auk þess sem framleiðni við sum störf, t.d. ýmis þjónustustörf, hefur litla vaxtarmöguleika með tilkomu tölva. Hinsvegar halda sumir því fram að lítt mælanleg hagræðing hafi í raun átt sér stað (opinberar tölur sýna aðeins 1% aukningu í framleiðni á milli ára). Þær tölur sem nefndar eru varðandi hagræðingu eru að mestu leyti komnar til vegna atvinnuóöryggis Bandaríkjamanna. Hafa bandarískir launþegar ekki náð sama kaupmætti, þrátt fyrir góðærið sem ríkt hefur þar, og þeir nutu árið 1989, áður en kreppan frá 1989 til 1991 reið yfir.

Atvinnuóöryggi Bandaríkjamanna er talin vera ein helsta skýringin á því að laun hafa lítið hækkað þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi. Nú eru bandarískir launþegar hinsvegar farnir að gera meiri kröfur. Þeir samningar sem starfsmenn United Parcel Service (fyrirtæki sem veitir hraðsendingarþjónustu) náðu í ágústmánuði og jákvætt viðmót almennings til þeirra samninga ber vott um að þrýstingur á launahækkun í láglaunastörfum eigi eftir að aukast. Þrýstingurinn er nú þegar farinn að aukast í störfum þar sem tækniþekking er nauðsynleg.

Framleiðniaukning þarf að tvöfaldast

Hægt er að rökræða fram og aftur um hversu mikil hagræðing getur enn átt sér stað og hversu miklar launahækkanir séu í farvatninu. Ljóst er þó að eftir litlar verðhækkanir undanfarin ár er æ erfiðara fyrir fyrirtæki að hækka verð. Þau fyrirtæki í Bandaríkjunum sem undanfarið hafa hækkað verð sitt hafa í mörgum tilvikum átt erfitt uppdráttar vegna minnkandi viðskipta. Almenningur hefur vanist stöðugu verðlagi og er því mjög meðvitaður um allar verðbreytingar. Samkvæmt Alan Greenspan, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, þarf núverandi aukning á framleiðni að tvöfaldast til að viðhalda sömu aukningu á hagnaði og undanfarin ár. Slíkt er ekki óhugsandi, en ákaflega mikil bjartsýni þó.

Fleiri teikn eru nú á lofti en fyrr um að blómaskeið bandaríska markaðsins sé í raun senn á enda, í bili a.m.k. (þar sem stöðugt góðæri er enn í gangi mætti e.t.v. umorða þetta á þann veg að fjárfestar í Bandaríkjunum hafa hugsanlega aðeins farið framúr sjálfum sér). Þrátt fyrir að nýlegar tölur um atvinnuleysi hafi sýnt miklu minni þenslu en áætlað var, og þ.a.l. minni líkur á vaxtahækkunum, fór markaðurinn ekki nærri því eins hátt upp og gert hefði verið ráð fyrir, ef hann væri ekki af mörgum talinn vera ofmetinn fyrir. Eins og spáð hafði verið hefur Nasdaq vísitalan, sem mælir gengi smærri fyrirtækja, farið miklum hamförum undanfarið. Er það sögulegt merki um að uppgangur markaðsins sé á lokasprettinum. Sú sögulega staðreynd sem ætti að ugga fjárfesta í Bandaríkjunum hvað mest er þó grafið sem sýnir ótrúlega líkan uppgang hlutabréfa á þeim þremur árum áður en markaðurinn tók snögga stefnu suður á bóginn árið 1929 og 1987. Auk þess gæti vaxtahækkun, sem Greenspan er stöðugt að vara við, kollvarpað allri bjartsýni á Wall Street.

V/H hlutfall 25

Samanburður kennitalna veitir þó kannski betri vísbendingu um gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum í dag. Eins og áður var sagt er v/h hlutfall hlutabréfa í Dow Jones vísitölunni í dag um 25, en var "aðeins" 22 áður en markaðurinn hrundi árið 1987. Síðan mæling hlutabréfavísitalna hófst hefur v/h hlutfallið verið á bilinu 5 á skeiðum svartsýni og 25 þegar bjartsýni hefur verið ríkjandi. Meðaltalið hefur hinsvegar verið tæplega 14. Annað hlutfall sem vert er að athuga er Q hlutfallið, sem er hlutfallið milli markaðsverðmætis og bókfærðs eigin fjár. Þegar það er lágt er verð fyrirtækja lágt og þveröfugt þegar hlutfallið er hátt. Það er núna tvöfalt hærra en langtíma meðaltal þess og þrefalt hærra en fyrir tíu árum. Á tímum sem tækni gerir bókfært eigið fé ekki að eins áreiðanlegum mælikvarða á virði fyrirtækja væri hugsanlega hægt að halda því fram að þessi kennitala segi ekki alla söguna. Aftur á móti virðist fullmikil bjartsýni samt felast í slíkum rökum.

Þýðir þetta það að nú eigi ekki að kaupa nein hlutabréf í Bandaríkjunum? Eins og á Íslandi undanfarin ár virðist það ekki hafa skipt miklu máli í Bandaríkjunum í hvaða stórum fyrirtækjum fjárfest hefur verið, verð þeirra hefur nánast undantekningarlaust farið upp. Nú þarf að fara að vanda valið mun betur. Þrátt fyrir að verðbréfamarkaður Japana hafi fallið undanfarið hafa hlutabréf fyrirtækja sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á útflutningi hækkað í verði. Þar hafa sumir fjárfestar því hagnast vel þrátt fyrir lægð markaðsins í heild. Það sama er uppi á teningnum í Bandaríkjunum. Enn eru góð tækifæri til fjárfestinga í þeim fyrirtækjum sem ekki hefur verið blint fjárfest í. Á það aðallega við um þau smærri fyrirtæki sem ekki hefur verið gefinn nægjanlegur gaumur. Þar er að finna fyrirtæki, aðallega í tækniiðnaðinum, sem hafa möguleika á því að verða risar morgundagsins. Vaxtamöguleikar þeirra eru meiri en í stærri og þekktari fyrirtækjum og því hægt að réttlæta meira há v/h hlutföll á þeim slóðum. Sveiflur á verði þeirra eru hinsvegar miklar og því þarf að fara varlega í slíkar fjárfestingar og dreifa slíkri áhættu. Þar, hinsvegar, eru tækifærin í dag, ekki í þeim risum sem fjárfest hefur verið hvað mest í undanfarin ár.

Heimild: Financial Times.

Höfundur er verðbréfamiðlari.

Már Wolfgang Mixa