Kristín M.J. Björnsson Amma var elst alsystkina sinna. Hrokkinhærð pabbastelpa sem fékk oft að fylgja föður sínum sem var mikill hesta- og selskapsmaður. Hún var snemma ljóðelsk og vel hagmælt. Amma hneigðist víst ekki til innistarfanna. Alla ævi hafði hún meira gaman af lestri bóka og skemmtilegum samræðum heldur en húsmóðurstörfunum.

Hún nam við Kvennaskólann á Blönduósi og fór síðan 18 ára gömul til Bandaríkjanna að læra hjúkrun. Þar bjó amma í skjóli tveggja föðursystra sinna. Er ekki að efa að sex ára dvöl í Bandaríkjunum hafi verið húnvetnskri sveitastúlku mjög lærdómsrík. Heim kom hún árið 1926 með amerískt diplom sem hjúkrunarkona. Það gilti ekki á Íslandi og áætlanir hennar um að starfa að hjúkrun voru þar með úr sögunni.

Eftir heimkomuna giftist amma Kristjóni Ágústi Þorvarðarsyni. Árið 1928 eignuðust þau einkasoninn Hákon Heimi. Kristjón afi var fyrrum kennari og bóndi að Leikskálum í Dalasýslu. Hann vann hjá Rafveitu Reykjavíkur. Hann var mun eldri en amma og dó þegar við vorum litlar telpur. Í minningunni er hann virðulegi, kankvísi afinn sem gekk um í svörtum frakka með Homburger-hatt á höfði og bjó í Ljóninu á Laugaveginum. Amma og afi skildu.

Seinni manni sínum, Einari Sveinssyni, ættuðum úr Breiðafirði, kynntist amma þegar hún var með kostgangara á heimili sínu á Hverfisgötu 16A. Einn daginn þegar hann kom í hádegismat var ekkert á borðum. Amma veik og bjargarlaus. Afi gerði sér lítið fyrir og eldaði mat handa fólkinu sem tíndist inn. Þetta atvik er lýsandi fyrir hjálpsemi Einars afa. Þau giftust fljótlega eftir þetta. Um 1950 hófu þau búskap á æskuheimili ömmu, Gauksmýri í Línakradal.

Á sjötta áratugnum vorum við systurnar í sveit hjá afa og ömmu og eigum margar góðar minningar þaðan. Amma lagði mikla áherslu á að fræða okkur og hélt að okkur bókmenntum og ljóðum. Kvöldlestrarnir voru ekki af verri endanum fyrir ungu ömmustelpurnar, Sögur herlæknisins, Dæmisögur Esóps, Maður og kona, Heljarslóðarorrusta. Einnig kenndi hún okkur mikið af ljóðum og söngvum, enda kunni hún ógrynnin öll. Afi var þar enginn eftirbátur, einkum var hann fróður í Íslendingasögum og mannkynssögu og var oft gaman að hlusta á þau ræða þessi sameiginlegu áhugamál. Samband þeirra var einstakt. Okkur er minnisstætt þegar amma og afi sungu í tvísöng lagið Kvöldið er fagurt, sól er sest og sefur fugl á grein. Það var eins og þetta ástarljóð hefði verið ort sérstaklega fyrir þau. Jafnhliða rammíslenskri innrætingu kallaði hún okkur "honey pie" og vitnaði í amerísku stjórnarskrána. Þannig var amma, blanda af Íslendingi aldamótakynslóðarinnar og heimsborgara.

Þegar aldurinn færðist yfir brugðu amma og afi búi og fluttu í Kópavoginn. Þar sinnti amma hugðarefnum sínum, skáldskapnum, og liggja eftir hana nokkrar bækur. Framan af ævinni notaði hún skáldanafnið Ómar ungi. Einar afi sinnti reiðhestunum sem þau fluttu með sér suður og tók að sér smíði báta. Þegar við systurnar byrjuðum að búa og frumburðirnir fæddust sáu afi og amma til þess að litlar fjölskyldur skorti hvorki kartöflur né folaldakjöt.

Kristín amma hafði stórbrotið skap og var ekki allra. Stundum var kappið meira en forsjáin. Einar afi veiktist alvarlega í byrjun níunda áratugarins. Eftir það var hann rúmliggjandi á sjúkrastofnunum. Þá nýttist ömmu kappið og dugnaðurinn. Af einstakri umhyggju og krafti sinnti hún honum. Hún heimsótti hann alla daga og stundum tvisvar á dag og lét hvorki ófærð né háan aldur aftra sér.

Síðustu árin dvaldi amma á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og naut þar mjög góðs atlætis. Við viljum fyrir hönd fjölskyldu okkar þakka sérstaklega fyrir það.

Hvíli hún í friði.

Hulda og Sigrún.