Hvað veldur kynbundnu vali lækna á sérgrein? er yfirskrift fyrirlestrar sem Þorgerður Einarsdóttir félagsfræðingur heldur í dag í Odda, Háskóla Íslands. "Þegar ég var að ákveða efnið í doktorsritgerðina fannst mér tilvalið að skoða einhverja stétt háskólamenntaðs fólks því hér áður var því haldið fram að menntun væri lykillinn að jafnrétti," segir Þorgerður.
Kynbundið val lækna á sérgrein Karlar eru í virðingarmestu

læknastörfunum

Hvað veldur kynbundnu vali lækna á sérgrein? er yfirskrift fyrirlestrar sem Þorgerður Einarsdóttir félagsfræðingur heldur í dag í Odda, Háskóla Íslands.

"Þegar ég var að ákveða efnið í doktorsritgerðina fannst mér tilvalið að skoða einhverja stétt háskólamenntaðs fólks því hér áður var því haldið fram að menntun væri lykillinn að jafnrétti," segir Þorgerður. Hún hafði áður gert jafnréttiskönnun fyrir Bandalag háskólamanna sem sýndi að kynskipting var meðal háskólamanna.

­ Hversvegna valdirðu læknastéttina?

"Konum hefur fjölgað ört í læknastétt, í flestum vestrænum löndum er verið að skera niður í heilbrigðiskerfum, vinnuálag þekkt og síðast en ekki síst þá hefur virðing fyrir læknastétt farið þverrandi," segir hún. "Af þessum sökum fannst mér kjörið að taka læknastéttina fyrir."

­ Hversu marga lækna barstu saman?

"Ég sendi spurningalista til tæplega þúsund sérfræðinga í læknafélagi Gautaborgar og fékk rúmlega 80% svörun. Að auki tók ég ítarleg viðtöl við á annan tug lækna."

­ Að hverju komstu svo?

"Ég komst að því að kynskiptingin hangir saman við virðingarröðina á sérgreinum lækna. Sérgreinar njóta mismunandi virðingar meðal lækna. Heila- og hjartaskurðlækningar eru þær sérgreinar sem eru efst á virðingarlistanum og síðan koma sérgreinar eins og hjartasjúkdómar og taugalækningar. Neðstar í röðinni eru sérgreinar eins og geðlækningar, öldrunarlækningar og heilsugæslu- og heimilislækningar."

Þorgerður segir kynjahlutföllin þannig að karlar séu flestir í þeim sérgreinum sem virðing er borin fyrir en konur flestar í þeim greinum sem njóta ekki eins mikillar virðingar.

­ Hversvegna telur þú að þessu sé svona háttað?

"Ein kenningin er sú að karlagreinarnar séu erfiðastar og konur velji sér greinar þar sem hægt er að samræma starfið fjölskyldulífi eða kvenlegu eðli. Ég komst hins vegar fljótt að því að þessar skýringar standast engan veginn. Ég notaði því kenningar sem hafa verið notaðar til að skýra fagþróun og átök milli fagstétta. Ég skoðaði hvort raunverulegur munur væri á kynjum þegar atriði eins og starfsframi er annars vegar."

­ Var marktækur munur?

"Já, hann var marktækur milli hópa í þá veru að þær greinar sem njóta lítillar virðingar eru auðveldastar með tilliti til starfsframa. Það er erfiðast að komast áfram í þeim greinum sem njóta mestrar virðingar vegna mikillar samkeppni."

Þorgerður segir að meiri munur sé milli sérgreinahópa en kvenna og karla innan stéttarinnar. Hún rannsakaði fjölskylduaðstæður og sá að þær eru ekki raunveruleg ástæða fyrir vali á sérgrein. "Það var enginn munur á fjölskylduaðstæðum kvenna eftir því hvaða sérgreinar þær höfðu valið sér. Það þýðir með öðrum orðum að ekkert er hæft í því að konur þurfi að vera ógiftar og barnlausar til að komast áfram í hjartaskurðlækningum."

­ Þú skoðaðir líka ritdeilur milli sérgreinahópa?

"Ritdeilurnar voru í sænska læknablaðinu og milli sérgreinahópa. Þar sá ég á hverju virðingarröðin byggist og hvernig henni er viðhaldið. Störfin voru t.d. kven- og karlgerð í orðræðu. Starfi skurðlæknis var oft líkt við karlmannlegar athafnir meðan umönnunarþætti hjá öldrunarlæknum var líkt við kvenlegar athafnir. Skurðlækningum var til dæmis líkt við að stökkva í fallhlíf eða klífa fjöll. Í öldrunarlækningum var talað um að slíkar lækningar væru ekki alvöru lækningar og dætur eða eiginkonur gætu allt eins vel sinnt því hlutverki. Þetta eru óbein skilaboð, orðræður sem virka sem félagsleg útilokunaraðferð."

­ Hvað með launamismun eftir sérgreinum?

"Launin eru hærri í þessum kvennagreinum því þar er hægt að komast fyrr á toppinn, fá með því þægilegri vinnutíma og hærri laun. Karlmenn virðast tilbúnir að hafa lægri laun en hljóta fyrir bragðið meiri virðingu."

­ Heldurðu að þessar niðurstöður eigi við á Íslandi líka?

"Já, ég held það. Það má þó benda á að konur eru færri hér á landi sem hafa lagt fyrir sig læknisfræði en í Svíþjóð. Það er líka margt um að vera hjá íslensku læknastéttinni sem dregur athygli frá þessu eins og launabarátta og breytingar á vinnuaðstöðu þeirra."

Fyrirlestur Þorgerðar er haldinn á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum og er öllum opinn. Hann fer fram í stofu 101 í Odda í dag, fimmtudaginnn 23. október og hefst klukkan 17.15.

Þorgerður Einarsdóttir er fædd 31. maí árið 1957. Hún lauk BA-prófi í félagsfræði frá Gautaborgarháskóla árið 1982 og hefur m.a. stundað kennslu síðan. Þorgerður lauk doktorsprófi í félagsfræði frá Gautaborgarháskóla vorið 1997 og starfar sem félagsfræðingur.

Eiginmaður hennar er Pálmi Magnússon sagnfræðingur og eiga þau þrjú börn.

Karlar velja lægri laun en meiri virðingu

Þorgerður Einarsdóttir