Fornleifauppgröfturinn í Viðey: Innsigli Skúla Magnússonar fógeta fundið TORKENNILEGUR málmklumpur, sem kom upp við fornleifauppgröft í Viðey í fyrrasumar reyndist vera hinn merkilegasti gripur, þegar búið var að skafa hann og hreinsa.

Fornleifauppgröfturinn í Viðey: Innsigli Skúla Magnússonar fógeta fundið

TORKENNILEGUR málmklumpur, sem kom upp við fornleifauppgröft í Viðey í fyrrasumar reyndist vera hinn merkilegasti gripur, þegar búið var að skafa hann og hreinsa. Þar er komið innsigli Skúla Magnússonar landfógeta, sennilega til persónulegra nota. Innsiglið er svo vel varðveitt að það er eins og Skúli hafi haldið á því í gær, eins og Margrét Hallgrímsdóttir fornleifafræðingur segir.

Innsiglið fannst í yfirborðslögum austan við Viðeyjarstofu. Það er áreiðanlega yfir 200 ára gamalt þar sem Skúli lézt í Viðey árið 1794. Forvörzlu innsiglisins lauk fyrir nokkrum dögum. Margrét sagði í samtali við Morgunblaðið að hún væri gott dæmi um árangur þeirrar rannsóknar- og hreinsunarvinnu, sem fram færi á veturna á meðan ekki væri hægt að grafa eftir fornleifum.

Annað innsigli úr eigu Skúla er varðveitt, í einkaeign. Það er emb ættisinnsigli landfógeta, fangamark Skúla með kórónu yfir. Innsiglið, sem grafið var upp í Viðey, er með sömu stafagerð en kórónu laust. Björk Ingimundardóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafni, sagði í samtali við Morgunblaðið að gerð innsiglisins styddi þá tilgátu að um persónulegt innsigli Skúla væri að ræða. Frekari rannsóknir á skjölum og bréfum frá Skúla þurfa þó líklega að koma til áður en það er endanlega staðfest.

Margir kassar af forngripum hafa komið upp úr rústum Viðeyjarklausturs undanfarnar vikur. Ýmsir bera þeir vott um íburð og góð efni klaustursins. Margrét Hallgrímsdóttir sýndi Morgunblaðsmönnum til dæmis hringnælu, sennilega úr silfri, sem kom uppfyrir nokkrum dögum. Fornleifafræðingar telja sig nú geta aldursgreint elztu hleðslur klausturrús tanna nokkuð nákvæmlega með samanburði við öskulög. Veggur, sem grafinn hefur verið upp, er hlaðinn einhvern tímann á tímabilinu frá 1100 til 1226, en síðan þá er elzti máldagi klaustursins. Svo heppilega vill til að sama ár féll öskulag, sem fornleifafræðingar nota til aldursgreiningar.

Morgunblaðið/RAX

Teikning hefur verið gerð af innsiglinu, sem fannst í Viðey. Innsiglið er úr kopar, um tveir sentimetrar í þvermál og rúmir fjórir á hæð.Á innfelldu myndinni sést embættisinnsigli Skúla. Stafagerðin er sú sama, stafirnir S og M fléttaðir saman með miklu flúri, og kóróna yfir. Kórónuna vantar á innsiglið, sem fannst við uppgröftinn, en í hennar stað er einhvers konar sívalningur eða sporbaugur.