2. nóvember 1997 | Sunnudagsblað | 3586 orð

ÓLÖF PÁLSDÓTTIR

Listin og lífið Höggmyndalist er ekki gömul á Íslandi miðað við það sem gerist víða um heim og tiltölulega fáar íslenskar konur

ÁFORSÍÐU efnisskrár Sinfóníuhljómsveitar Íslands í haust er mynd af höggmynd Ólafar Pálsdóttur af Erling Blöndal Bengtson sellóleikara. Umrædd höggmynd stendur á Hagatorgi fyrir framan Háskólabíó.
ÓLÖF PÁLSDÓTTIR

Listin og lífið

Höggmyndalist er ekki gömul á Íslandi miðað við það sem gerist víða um heim og tiltölulega fáar íslenskar konur hafa lagt hana fyrir sig. Ólöf Pálsdóttur tók snemma ákvörðun um að verða myndhöggvari og er í hópi brautryðjenda hér í þeirri stétt. Hún sagði GUÐRÚNU GUÐLAUGSDÓTTUR frá tildrögum þeirrar ákvörðunar sinnar, námi sínu, starfi og hlut þess í einkalífi sínu.

ÁFORSÍÐU efnisskrár Sinfóníuhljómsveitar Íslands í haust er mynd af höggmynd Ólafar Pálsdóttur af Erling Blöndal Bengt son sellóleikara. Umrædd höggmynd stendur á Hagatorgi fyrir framan Háskólabíó. "Ég gerði þessa mynd í bílskúr íslenska sendiherrabústaðarins í Kaupmannahöfn," segir Ólöf þegar blaðamaður innir hana eftir gerð umræddrar höggmyndar. "Maðurinn minn, Sigurður Bjarnason, hafði þá tekið við störfum sendiherra þar í borg og þegar sú hugmynd kom upp að Erling sæti fyrir hjá mér þá datt mér í hug að bílskúrinn væri skásti vinnustaður sem völ væri á, hann var ekki notaður þá því bílarnir voru oftast í opnum bílageymslum sendiherrabústaðsins, svokölluð "carport".

Þetta var ákaflega skemmtilegt verkefni, Erling var áhugasamur um verkið og æfði sig alltaf meðan ég mótaði myndina af honum. Ég man að það kom blaðamaður frá Politiken meðan þessi vinna stóð yfir og skrifaði m.a. að líklega hefði aldrei hljómað fínni tónlist í bílskúr! Tónlistin truflaði mig reyndar fyrst, ég hlustaði svo mikið eftir henni, en svo vandist ég henni og gat loks varla verið án hennar." Höggmyndin af Erling Blöndal er stórt verk, "eiginlega hálfgerð grúppa," segir myndhöggvarinn og vísar m.a. til cellósins sem mikilvægs þáttar skúlptúrsins, og stallsins. Hún kvaðst þó hafa verið fljót að vinna þetta verk. "Sigurður var í fríi heima á Íslandi meðan þetta gerðist og starfsfólkið í sendiherrabústaðnum sýndi mér tillitssemi svo ég fékk gott næði," segir hún og brosir við endurminninguna.

Við förum lengra aftur í tímann ­ allt til þeirrar stundar þegar Ólöf ákvað að gerast myndhöggvari. "Det kom pludselig over mig," segir hún og hlær. "Danir hafa þetta að orðtaki og afsaka sig oft þannig þegar þeir hafa gert eitthvað hræðilegt svo sem að myrða mann. Þá segja hinir: "Nå, så kan man godt forstå det,". Kannski á þetta nú ekki alveg við í þessu sambandi." Hún hlær aftur og ég virði hana fyrir mér. Konan er komin yfir sjötugt en samt hefur hún eitthvað við sig sem einkennir helst ungt fólk ­ frjálslegt fas og augnaráð sem leitar kjarnans á næstum óskammfeilinn hátt ­ leiftrandi hraða í hugsun og háttum. Jafnvel klæðnaður hennar og hárgreiðsla ber þessu vott ­ mjög þröngar buxur, svört víð peysa, slæða með hlébarðamunstri vafin þétt um hálsinn, hárið undið upp á höfuðið. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til þess að sjá hana fyrir sér sem ungan bóhem í Kaupmannahöfn á eftirstríðsárunum.

"Ég fór ung að kaupa mér mikið af myndhöggvarabókum og fékk áhuga á þessu fagi í gegnum bókmenntir. Svo sló allt í einu niður í huga minn: "Þetta er einmitt það sem ég vil gera ­ og það varð ekki aftur snúið." "Það kom ýmislegt í veg fyrir að ég gæti komist til náms, svo sem það að ég lokaðist inni í Færeyjum með föður mínum öll stríðsárin en þar byrjaði ég reyndar í teikniskóla. Þegar ég komst til Danmerkur byrjaði ég í Fredriksbergs Tekniske skole. Hann hentaði mér ekki og ég hefði getað notað betur þau tvö ár sem fóru í nám þarna."

Af prestaættum

Ólöf Pálsdóttir fæddist inn í ætt þar sem "varla var hægt að þverfóta fyrir prestum," eins og hún orðar það. Faðir hennar Páll var sonur Ólafs Ólafssonar prófasts í Hjarðarholti í Dölum ­ hann skírði hana í höfuðið á sér. Kona hans var Ingibjörg Pálsdóttir Mathiesen. "Þegar hún var jörðuð í Reykjavík sagði séra Bjarni, sem hafði gaman af endurtekningum: "Hún var prestdóttir, hún var prestkona, hún var prestsystir." Hann hefði getað gengið lengra í þessa átt því afi hennar var prestur líka." Móðir Ólafar var Hildur, dóttir Stefáns Jónssonar prests á Auðkúlu í Húnavatnssýslu. Ólöf er fædd á Hólavöllum við Landakotstúnið. "Ég var sú eina af okkur fimm systkinum sem er fædd þar og er ég næstyngst," segir hún. Yngstur er dr. Jens Ó.P. Pálsson fyrsti prófessor í líffræðilegri mannfræði við Háskóla Íslands. Hann er kvæntur þýskri konu, Önnu Kandler mannfræðingi. Elsti bróðirinn Stefán tannlæknir er löngu látinn, hann var kvæntur Guðnýju Nielsdóttur. Systur Ólafar, Ingibjörg kona Péturs Eggerz sendiherra og Þorbjörg kona Andrésar Ásmundssonar læknis eru báðar listakonur. Faðir Ólafar var framkvæmdastjóri útgerðafélaga og var vel efnum búinn en útgerðin fór að ganga erfiðlega á kreppuárunum. Hann var líka um tíma einn af stærri jarðareigendum í Reykjavík, átti t.d Laugaland þar sem Laugardalshöllin er núna, Undraland og einar fimm jarðir á Kjalarnesi m.a. Arnarholt og Brautarholt þar sem Ólöf var stundum í sveit sem barn. Einnig dvaldi hún á Torfastöðum og Auðkúlu um tíma hjá elstu móðurbræðrum sínum, þeim próföstunum Eiríki og Birni. "Það hefur alltaf blundað í mér löngun til að búa í sveit," segir þessi heimsborgarlega listakona sem situr gegnt mér í stofu þar sem allt vitnar um óteljandi ferðalög hennar víða um heim. Meðan Ólöf hitar kaffi fyrir okkur skömmu síðar geng ég um þrjár samliggjandi stofur Útsala á Seltjarnarnesi og skoða muni sem fremur mætti búast við að berja augum á erlendum lista- og fornminjasöfnum. Það leynir sér heldur ekki á húsmunum og málverkum að húsráðendur hafa smekk fyrir því sem vandað er og frumlegt.

Enn víkur sögunni aftur í tímann. "Foreldrar mínir áttu yndislegt heimili og þóttu vera glæsilegt fólk, jafnt í útliti sem andlegu atgervi. Þau áttu landsfræga gæðinga og riðu út á frídögum. Þau voru mikið fyrir tónlist og spiluðu bæði á hljóðfæri, pabbi þurfti ekki annað en heyra lag flautað einu sinni þá gat hann spilað það á píanóið, hann samdi mörg falleg ljóð og lög sem sum hafa verið gefin út, búin til prentunar af Carl Billich. Þau áttu geysimikið af gömlum músikbókum og sígildum hljómplötum, einnig gott bókasafn," segir Ólöf. Sjálf lærði hún á hljóðfæri en kveðst hafa verið "viðbjóðslega" löt að æfa sig. "Svo var ég lengi án hljóðfæris meðan ég var að stúdera," bætir hún við.

Stríðsár í Færeyjum

Ólöf stundaði nám í Verzlunarskóla Íslands áður en hún flutti til útlanda. "Ég var þar látin elta systur mínar en hefði átt betur heima í menntaskóla, ég hafði mun meiri áhuga á sögu og tungumálum en verslunarrétti og bókfærslu ­ þau fög áttu ekki við mig en líklega hafa þau orðið mér að einhverju gagni, alla vega hef ég unnið fyrir mér oft sem skrifstofustúlka í þremur löndum, lengst af á Hagstofu Íslands og í Háskóla Íslands." Örlögin bundu enda á verslunarnámið þegar styrjöldin hófst. "Faðir minn var þá nýlega kominn til Færeyja til þess að taka við mikilli verksmiðju sem til stóð að koma þar upp. Búið var að vinna mikla undirbúningsvinnu. Ég ákvað að fara til pabba og vera hjá honum, hann þurfti að vera í Færeyjum starfs síns vegna og var þar einn því mamma var hér heima með heimilið nema hvað Stefán bróðir var kominn til Danmerkur í tannlæknaháskólann þar sem hann var öll stríðsárin. Ég fór með síðustu ferð norska skipsins Lyru til Færeyja, það var hin mesta hættuför, siglt á myrkvuðu skipi. Þegar við loks komum til Færeyja í rigningu og þoku leist mér ekki á blikuna og ákvað að fara ekki í land ef pabbi biði mín ekki á bryggjunni. En hann kom og ég fór í land og var þar næstu þrjú árin. Ég komst loks heim til Íslands á enn áhættusamari hátt en ég fór þaðan. Kafbátur elti okkur t.d. langa leið. Á Seyðisfirði tóku hermenn bandamanna okkur pabba og Pál Patursson frá Kirkjubæ föst. Við þóttum mjög einkennileg, Patursson í færeyska þjóðbúningunum, pabbi alskeggjaður og ég í geitarskinnspels sem ég hafði sjálf saumað. En við vorum fljótlega látin laus og komumst til Reykjavíkur með varðskipi.

Pabbi fór aftur til Færeyja skömmu síðar. Loftárásir nasista á Þórshöfn voru tíðar og urðu bæði ég og aðrir að hlaupa undan kúlnaregni frá flugvélum þeirra, auk þess sá maður oft menn borna sundurskotna í land úr niðurskotnum skipum. Framkvæmdum við verksmiðjuna sem pabbi átti að veita forstöðu var hætt vegna stríðsins en hann stofnaði þess í stað bæði útgerðarfélag og heildsölu í Færeyjum sem hann þurfti að sinna. Hann varð síðar fyrsti ræðismaður Íslands í Færeyjum. Ég fór líka aftur til Færeyja og vann m.a. hjá heildsölunni Helgason og Melsteð og hjá pabba meðan ég beið þess að komast til Danmerkur. Mamma kom til Færeyja í lok stríðsins og við fórum svo öll saman til Danmerkur þegar stríðinu lauk. Þess má geta að mér var löngu seinna boðið sem fyrsta Íslendingi að sýna höggmyndir í Þórshöfn en ég gat ekki komið því við.

Gullverðlaun

Þegar til Danmerkur kom fór ég allra fyrst til Århus til að læra myndlist í einkaskóla. Þá var viðhorfið til Íslendinga ekki notalegt. Ég man að sumir nemendurnir sögðu: "Åh, det bliver koldt í stuen når fröken Island kommer." Einnig voru Svíar illa liðnir í Danmörku. Eftir að tveggja ára námi í tækniskólanum lauk fór ég í Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Foreldrar mínir keyptu yndislega villu í Kaupmannahöfn og ég bjó þar hjá þeim um tíma, en svo fluttu þau heim og ég fór að búa ein. Ég undi mér vel á listaháskólanum og svo var Kaupmannahöfn afskaplega skemmtileg borg þá. Ég bjó alltaf rétt við Kongens Nytorv, rétt hjá akademíunni. Yfirleitt voru nemendur þarna fátækir en þó voru innan um barónessur og fólk frá útlöndum. Sjálf var ég á styrkjum frá danska ríkinu og frá Alþingi Íslendinga. Ég fékk frá upphafi góða dóma fyrir verk mín. Strax á fyrstu skólasýningunni var eitt verka minna sagt "det mest modne" verk á sýningunni. Seinna, eftir stóra opinbera sýningu á Charlottenborg, börðu félagar mínir á dyrnar hjá mér snemma morguns þegar blöðin komu út og sögðu: "Sover du, din torsk", hefur þú ekki séð pressuna." Þeim fannst ég sýna blaðadómunum fulllitla athygli. Síðar fékk ég gullverðlaun Konunglega listaháskólans í Kaupmannahöfn. Þau afhenti mér Ingiríður Danadrottning, athöfnin og stór veisla fór fram í hátíðarsal Charlottenborgar. Var þar fjöldi boðsgesta, ríkisstjórn Dana, sendiherrar, prófessorar og listamenn. Tveir aðrir Íslendingar hafa fengið þessi verðlaun, þeir Albert Thorvaldsen og Sigurjón Ólafsson."

Gifting og barneignir

Á Íslandi var Ólöf um tíma í sveit á Laugabóli í Ísafjarðardjúpi þegar hún var sextán ára. Það sumar fór ég í orlofsferð út í Vigur og sá Sigurð þar fyrst. Mamma þekkti vel mömmu Sigurðar, þær voru skólasystur og ég var kunnug bræðrum hans sem gistu hjá okkur," segir Ólöf þegar talið berst að tildrögum hjónabands hennar og Sigurðar Bjarnasonar. "En löngu seinna hittumst við í Reykjavík og segir hann stundum sposkur að það hafi tekið hann tíu ár að elta mig og fá mig til að giftast sér.

Ég hikaði við að gifta mig og efaðist um að hjónaband og hugsanlegar barneignir ættu samleið með myndhöggvarastarfi mínu ­ þær grundsemdir reyndust síðar eiga við talsverð rök að styðjast. Á þeim tíma sem ég var ung þótti sjálfsagt að konur gæfu upp sitt starf til að hugsa um börn og heimili, ég hugsaði ekki þannig og sigldi því á móti straumnum hvað það snerti.

Sigurður varð fljótt umsvifamikill maður, var ritstjóri Morgunblaðsins um árabil, sat á alþingi í 30 ár, lengi forseti neðri deildar og sat í ótrúlega mörgum vinnunefndum þingsins. Hann varð síðar sendiherra bæði í Danmörku og Bretlandi og ýmsum öðrum löndum eins og Tyrklandi, Írlandi, Hollandi, Indlandi, Nígeríu og fl. ásamt því að vera fyrsti sendiherra í Kína. Við eignuðumst tvö börn, Hildi Helgu og Ólaf Pál sem bæði eru gift Bretum og hafa stundað háskólanám í Bretlandi. Þetta hafði sín áhrif hvað starf mitt snertir. Sumir hafa talið að ég hafi haft hag af þjóðfélagsstöðu minni sem listamaður en því fór fjarri ­ þvert á móti hefur listakonan orðið undir.

Ein af örfáum...

Eftir að ég flutti heim til Íslands nýgift árið 1955 saknaði ég félaganna úr listaheiminum í Danmörku. Þar var mikið gert af því að ræða um listir og umheiminn en slíkar umræður voru bæði minni og öðruvísi hér en ytra. Ég þekkti þessa vini mína svo vel, okkar tími saman fór oft í skemmtilegar "diskúsjónir". Ég hugsaði ekki um starf mitt sem leið til frama, þótt auðvitað hefði ég átt að gera það, ég sé það núna. Mér gekk hins vegar vel - hinn frægi og harði gagnrýnandi Pierre L¨ubecker hjá Politiken sagði eitt sinn við mig: "Þú ert ein af örfáum sem geta lifað á að vera myndhöggvari."

Auðvitað hætti ég ekki að starfa sem myndhöggvari þótt ég yrði eiginkona og móðir. Ragnar í Smára útvegaði mér pláss undir vinnustofu á Vesturgötunni, skammt frá heimili okkar Sigurðar á Öldugötu. Fáir vissu um þennan vinnustað minn, meira að segja Sigurður vissi varla hvar hann var. Einu sinni var hann á göngu með son okkar sem þá var þriggja ára. Þegar þeir feðgar gengu fram hjá vinnustofu minni benti strákur á staðinn og sagði hátt og snjallt: "Mamma vinna." Þeir börðu svo að dyrum og ég varð steinhissa, það komu sjaldan gestir á þann stað. Stóð þá ekki Sigurður Bjarnason þar fyrir utan. "Hvernig fannstu mig," spurði ég. Hann sagðist bara hafa elt drenginn. Ég mótaði á þessum árum ýmis verk, m.a. brjóstmynd af Halldóri Laxness að beiðni Ragnars Jónssonar í Smára, sem hann gaf Þjóðleikhúsinu á 70 ára afmæli skáldsins. Myndinni var vel komið fyrir í svokölluðum Kristalsal Þjóðleikhússins en var laus á stöpli og hvarf. Ég vann líka um tíma að almynd í fullri stærð af Laxness, einnig að ósk Ragnars Jónssonar. Var ánægjulegt að vinna með Laxness en tal hans var það skemmtilegt að það truflaði mig nokkuð. Þá tók ég það ráð að setja á klassíska músík og þá þögðum við bæði mestmegnis. Starf þetta raskaðist við brottför okkar Sigurðar til útlanda.

Ég eignaðist vissulega vini meðal íslenskra listamanna, svo sem Ásmund Sveinsson, Jón Gunnar, Svavar Guðnason og fleiri, en ég var samt mótuð á annan hátt en þeir og féll því ekki eins vel í þann hóp og í hóp listvina minna í Danmörku, þar sem ég hafði dvalið mín aðalþroskaár. Líklega hef ég verið dálítið einmana fyrstu árin eftir að ég flutti heim. Árin í Færeyjum og í Kaupmannahöfn höfðu verið minn sérheimur. Ég var fyrst að festa rætur hér heima þegar við fluttum til Danmerkur. Þá var aðstaða mín snöggtum öðruvísi en hún hafði verið á námsárunum. Nú kom ég sem sendiherrafrú og þurfti mörgum skyldum að sinna vegna þess. Heimur diplómata er á margan hátt mjög ólíkur þeim heimi sem listafólk lifir í. Ég eignaðist líka marga góða vini í diplómataheiminum.

Eins og gefur að skilja gafst ekki mikið næði til listsköpunar mitt í miklum gestagangi. Á móti kom að ég kynntist mörgu góðu fólki og kom á staði sem mér þykir gaman að hafa fengið tækifæri til að kynnast. Meðan ég var sendiherrafrú reyndi ég samhliða gestgjafastörfum að kynna fyrir þarlendum íslenskt menningarlíf eftir því sem ég gat. Í Kaupmannahöfn stóð ég m.a. fyrir listsýningu íslenskra kvenna í húsi Jóns Sigurðssonar. Einnig var ég beðin um að vera verndari stórrar íslenskrar sýningar í Taastrup kultur center, sem ég raunar tók þátt í sem eini myndhöggvarinn. Það var mikið starf en skemmtilegt á bak við þá sýningu því ég safnaði sjálf að mestu málverkunum saman. Þá stóð ég fyrir ýmsum tónleikum. Ingólfur Guðbrandsson og Þorgerður Ingólfsdóttir komu með kóra í heimsókn og Þorgerður kom líka með kór til London. Í Kaupmannahöfn útbjó ég kjallarann sem kvikmyndastofu og sýndi þar íslenskar myndir. Ég hélt líka fyrirlestra, t.d. um Íslendinga sem þekktir höfðu orðið í Danmörku. Í London tók ég aðra stefnu, þar bauð ég t.d. íslenskum foreldrum að hafa um helgar skóla í sendiherrabústaðnum fyrir börn til að viðhalda íslenskukunnáttu þeirra. Einnig fékk ég íslenska listamenn til að koma fram í boðum í sendiráðinu, eins og t.d. Sigríði Ellu Magnúsdóttur óperusöngkonu, Jónínu Ólafsdóttur leikkonu o.fl."

Ferðaðist víða um heim

Eftir að Ólöf og Sigurður fluttu alkomin heim til Íslands á ný, breyttist tilvera þeirra enn einu sinni. "Við tók næði sem var á ýmsan hátt kærkomið en sem mér hefur ekki tekist að nýta nægilega í þágu listarinnar, enda hefur heilsan ekki alltaf verið upp á það besta," segir Ólöf. "Ég var beðin að kenna við Myndhöggvaraskólann, eins og ég hafði gert áður, en harma að hafa ekki getað komið því við." Ég spyr Ólöfu hvort hún sakni liðinna daga? Nei, það tekur hún fyrir. "Hins vegar verða t.d. ýmsir hlutir sem ég hef safnað að mér ómarkvisst á ferðalögum til að minna á hið liðna og það eru skemmtilegar minningar. Helga heitin Valtýsdóttir, frænka Sigurðar, fékk mig til þess að lofa sér að ég skrifaði sögu allra fornu munanna minna. Ég fór í nokkrar ferðir með Kunstakademiunni, m.a. til Ítalíu, Grikklands og Spánar.

En það land sem er mér hugstæðast er Egyptaland, ég hef alltaf elskað það land, bæði áður en ég fór þangað og eftir. Ég upplifði "fantastiska" hluti þar. Það átti t.d. að skjóta mig þar tvisvar sinnum, þetta var stuttu eftir að Farouk konungur var rekinn frá völdum og þess vegna voru þeir sem töluðu ensku litnir þar tortryggnisaugum. Ég fékk að skoða þar ótrúlega hluti. Þegar ég kom þangað fyrst bjó ég um tíma hjá hjónum, maðurinn var danskur, forstjóri fyrir SAS í Cairó. Sameiginlegur vinur hafði áður boðið mér að koma en mér datt ekki hug að fara fyrr en hann var farinn úr landi, ég hef aldrei verið sniðug að notfæra mér "praktisk" tilboð. Ég borgaði fyrir mig hjá þessum hjónum með bestu brjóstmynd sem ég hef gert, hún var af dóttur þeirra, ég hef ekki séð hana síðan.

Ég var á leiðinni frá Kaupmannahöfn til Parísar með vinafólki mínu. Við fórum yfir Hamborg og dönsuðum þar alla nóttina. Um morguninn fékk ég þá flugu í höfuðið að ef ég færi ekki einmitt núna til Egyptalands þá færi ég aldrei þangað. Ég sagði vinum mínum frá þessu og þeim leist ekki á þegar ég keypti mér farmiða fyrir allt sem ég átti. Svo sendi ég umræddum hjónum skeyti og lagði síðan af stað án þess að fá staðfestingu á að þau væru heima. Ég fór af stað um morguninn, alveg ósofin, og var á ferð í fjórtán tíma. Smám saman fóru að læðast að mér áhyggjur um hvað yrði um mig. Þegar ég loks kom til Cairó um miðja nótt bað ég til Guðs að Mr. Bock væri kominn til að taka á móti mér. Smám saman fækkaði fólki á flugvellinum og loks var bara einn maður eftir sem svaf fram á borð ­ það var hann og hann var ekkert sérstaklega hrifinn af tiltæki mínu!

Við ókum yfir eyðimörkina og frú Bock hafði skipulagt kokteilsamkvæmi daginn eftir mér til heiðurs, en ég missti af því vegna þess að ég svaf samfleytt 36 tíma eftir þetta ferðalag. Frúin sagði að ég hefði ekki verið hvít heldur græn af þreytu þegar ég komst á áfangastað og morguninn sem ég vaknaði voru fæturnir á mér stokkbólgnir, ég horfði á þá döpur og hugsaði: "Skyldi ég eiga að lifa með þessa elefantfætur alla ævi." Ég var í nokkra mánuði í Egyptalandi. Þar kynntist ég m.a. ungum manni, doktor í landbúnaðarfræðum, hann sýndi mér margt og mikið. Síðar kynntist ég danskri hjúkrunarkonu sem bauð mér að flytja til sín, hún bjó á stærsta fátækraspítala í heimi sem stóð við ána Níl í miðri Cairo. Hún var yfirhjúkrunarkona á þessum spítala. Þar sá ég grátkonur og fékk að vera viðstödd margar skurðaðgerðir og fannst það mjög merkileg lífsreynsla ­ en ekki þó eins merkileg og múmíurnar sem ég kom til að sjá, svo og egypsk listaverk. Síðast en ekki síst kynntist ég prófessor Ramses Wissa Wassef arkitekt, sem varð heimsfrægur fyrir listvefnað sem börn hafa unnið undir hans stjórn. Tengdafaðir hans var mjög þekktur myndhöggvari. Þetta varð því hinn merkasti námstími þegar upp var staðið."

Að taka viðtöl við fólk sem margt hefur lifað og séð er einna líkast því að kafa með hendina djúpt ofan í happdrættispott og draga upp örfáa af ótalmörgum samanbrotnum miðum sem þar eru að byltast hver um annan þveran. Viðtal mitt við Ólöfu Pálsdóttur er þessu marki brennt. Þótt Ólöfu láti ágætlega að segja frá lætur henni enn betur að láta verk sín tala. Höggmyndin af stúlkunni Grétu ber þessu vott sem og önnur verk hennar sem ég skoða. Það er mál manna að Ólöf hafi verið prýðilegur fulltrúi Íslendinga á erlendri grund. En lífið er þversagnakennt ­ samviskusemin sem hún sýndi í því starfi hefur vafalaust sett henni viss takmörk í listsköpun sinni, hætt er við að margar "Grétur" liggi af þeim sökum óbættar hjá garði. Þrátt fyrir þessa staðreynd er vísast að höggmyndir Ólafar Pálsdóttur muni lifa okkur öll, mig sem skrifa þessa grein og ykkur sem lesið hana ­ listin er löng en lífið er stutt.

ÓLÖF Pálsdóttir hugsandi að kvöldi brúðkaupsdagsins, enn íklædd brúðarskartinu, gamalli silkiblússu sem móðir hennar gifti sig í 40 árum áður.

ÓLÖF Pálsdóttir. Teikning eftir Otto C, hinn fræga teiknara Berlingske Tidende.

ÓLÖF Pálsdóttir var kjörin heiðursfélagi Konunglega breska myndhöggvarafélagsins 1987, ein af örfáum sem hlotið hafa þann heiður. Félag þetta var stofnað um síðustu aldamót og er Elísabet drottning verndari þess.

ÓLÖF við mynd sína af Erling Blöndal Bengtsson á sýningu í heiðurssal Charlottenborg í Kaupmannahöfn.

ÞETTA verk Ólafar Pálsdóttur, Sonur", hlaut gullverðlaun Konunglega listaháskólans í Kaupmannahöfn. Það er í eigu Listasafns ríkisins.

GRÉTA, ljósmynd sem Ragnar Jónsson í Smára lét taka af verkinu og skrifaði aftan á hana: "Þetta er áreiðanlega eitt fegursta verk, gert á þess landi." Gamlir nemendur Verzlunarskóla Íslands hafa keypt þetta verk með það fyrir augum að gefa það skólanum.

MYND af Halldóri Laxness sem Ólöf Pálsdóttir mótaði að beiðni Ragnars Jónssonar. Ragnar gaf Þjóðleikhúsinu hana á 70 ára afmæli skáldsins.

SENDIHERRAHJÓNIN í London koma úr veislu Hollandsdrottningar.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.