NÝTT íslenskt leikrit, Gallerí Njála eftir Hlín Agnarsdóttur, verður frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins í kvöld kl. 20.30. Er efniviðurinn sóttur í Brennu-Njálssögu. Í kynningu segir að Gallerí Njála sé fyndið, erótískt og rammíslenskt nútímaleikrit, fullt af magnaðri tónlist og leikhúsbrellum.
Gallerí Njála frumsýnd

NÝTT íslenskt leikrit, Gallerí Njála eftir Hlín Agnarsdóttur, verður frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins í kvöld kl. 20.30. Er efniviðurinn sóttur í Brennu-Njálssögu.

Í kynningu segir að Gallerí Njála sé fyndið, erótískt og rammíslenskt nútímaleikrit, fullt af magnaðri tónlist og leikhúsbrellum. Verkið er tvíleikur sem segir frá dramatísku ástarsambandi menntakonu og rútubílstjóra sem kynnast á ferð sinni um Njáluslóðir. Með þeim takast spennandi kynni sem leiða áhorfendur inn í dularfullan myndheim Njálssögu, að því er segir í kynningu. Hún hefur óvænt áhrif á hann sem er, eins og svo margir aðrir Íslendingar, forfallinn áhugamaður um Njálu. Með hlutverk rútubílstjórans fer Stefán Sturla Sigurjónsson og menntakonuna leikur Sigrún Gylfadóttir.

Leikstjórn hefur Hlín Agnarsdóttir sjálf með höndum, tónlist er eftir Guðna Franzson, söng annast Sigrún Hjálmtýsdóttir, leikmynd er eftir Vigni Jóhannsson, búningar eftir Áslaugu Leifsdóttur og lýsingu gerir Jóhann Bjarni Pálmason. Það er menningarfyrirtækið Nótt og dagur sem framleiðir sýninguna.

Morgunblaðið/Ásdís SIGRÚN Gylfadóttir og Stefán Sturla Sigurjónsson í hlutverkum sínum.