FYRSTA dagblaðið, sem kom út í veröldinni, sá dagsins ljós á fyrsta áratug 17. aldar og því er unnt að segja að saga dagblaða sé brátt 400 ára. Hvar eða hvenær þetta átti sér stað er ekki vitað með vissu,
BLAÐAMANNAFÉLAG ÍSLANDS ALDARGAMALT

Til að "auka

veg og gengi

heiðvirðrar

blaðamennsku"

Fyrir réttum 100 árum var Blaðamannafélag Íslands stofnað. Það var í raun fyrst í stað klúbbur manna, sem unnu á ritstjórnum blaða, sem þá voru gefin út í Reykjavík, en breyttist í tímans rás í stéttarfélag sömu manna. Magnús Finnsson rifjar hér upp aðdraganda að stofnun félagsins, gerð þess í upphafi og drepur á nokkra þætti síðustu 100 ára.

FYRSTA dagblaðið, sem kom út í veröld inni, sá dagsins ljós á fyrsta áratug 17. aldar og því er unnt að segja að saga dagblaða sé brátt 400 ára. Hvar eða hvenær þetta átti sér stað er ekki vitað með vissu, en ljóst er að dagblöð fóru að koma út á því árinu 1609 og þá í Augsburg, Strassburg og í borg í Neðra-Saxlandi, sem heitir Wolfenbüttel. Aðrar borgir í Mið-Evrópu fylgdu strax í kjölfarið og eignuðust sín blöð. Fyrsta dagblaðið, sem kom út á Bretlandi, kom út 1622, í Frakklandi 1631 og í Danmörku mun fyrsta dagblaðið hafa komið út 1634. Fyrsta sænska dagblaðið sá dagsins ljós 1645 og í Rússlandi kom dagblað fyrst út 1703 og átti Pétur mikli sjálfur frumkvæði að því. Ári síðar eða 1704 kom fyrsta blaðið út í Ameríku og í Noregi kom fyrsta blaðið 1763. Í Kína og Japan komu fyrstu blöðin ekki fyrr en um 1860 og það jafnvel þótt vísir að blaði hefði orðið til í Kína á 7. og 8. árhundraðinu.

Prentlistin barst til Íslands á ofanverðri 16. öld. Allt fram á síðari hluta 18. aldar var þó nær eingöngu prentað guðsorð á Íslandi. Kirkjan var þá eini aðilinn, sem hafði bolmagn til þess að starfrækja prentverk hérlendis og gefa út prentað mál, bækur. Það er ekki fyrr en 1773 að tímamót verða í útgáfu prentaðs máls hér á landi og það án tilstyrks kirkjunnar. Þá hóf fyrsta íslenzka tímaritið Islandske maanedstidender göngu sína. Ritið var í 16 síðna broti og kom út mánaðarlega á dönsku í 3 ár. Efni blaðsins var að stærstum hluta ýmiss konar greinaskrif. Fjallað var um landsins gagn og nauðsynjar en einnig reynt að flytja fréttir. Þær voru flokkaðar eftir héruðum og einnig í "góðar fréttir og slæmar fréttir".

Í lok 19. aldar er útgáfa blaða orðin blómleg á Íslandi og í upphafi 20. aldar fæðast eiginlegir fjölmiðlar í nútíma skilningi þess orðs. Reykjavík varð þá miðstöð blaðaútgáfu í landinu, efni blaðanna hafði aukizt og upplag þeirra orðið stærra.

Fyrsta blaðið eða tímaritið á íslenzku var Minnisverð tíðindi, sem Magnús Stephensen gaf út. Það hóf göngu sína 1789 og kom út árlega, eins konar annálaritun, og var gefið út til 1808. 1826 hóf svo Magnús útgáfu mánaðarrits, sem hann nefndi Klausturpóstinn. Þegar þriðjungur 19. aldar er síðan að baki færist líf í íslenzka blaðaútgáfu og út koma Ármann á Alþingi (1829­ 1833), Fjölnir (1835­1847), Sunnanpósturinn (1835­1837), Ný félagsrit (1841­1873), Þjóðólfur (1848), Íslendingur (1860), Ísafold (1874), Baldur (1868), Göngu-Hrólfur (1873) og Skuld (1877), svo að einhver séu nefnd.

Fyrsta tilraun til þess að gefa út dagblað var gerð 1897, þegar Einar Benediktsson hóf að gefa út blað, sem hann nefndi Dagskrá. Sú tilraun heppnaðist ekki. Hins vegar var fyrsta dagblaðið, sem kom til þess að vera á blaðamarkaði hérlendis Dagblaðið Vísir, sem kom fyrst út 1910. Þremur árum síðar eða hinn 2. nóvember 1913 kom Morgunblaðið út í fyrsta sinni.

Stofnun Blaðamannafélagsins

Þegar Blaðamannafélag Íslands er stofnað föstudaginn 19. nóvember 1897 eru helztu blöðin Þjóðólfur, ritstjóri Hannes Þorsteinsson, Ísafold, ritstjóri Björn Jónsson, Fjallkonan, ritstjóri Valdimar Ásmundsson, Kvennablaðið, ritstjóri Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Dagskrá, ritstjóri Einar Benediktsson, Ísland, ritstjóri Þorsteinn Gíslason og Nýja öldin, ritstjóri Jón Ólafsson og útgefandi Jón Jakobsson. Sagt er að Bríet hafi fengið hugmyndina að stofnun félagsins, en Jón Ólafsson mun hafa gripið hana á lofti, því að hann er sá, sem undirritar bréf, er hann sendir til allra ofangreindra ritstjóra svo og Einars Hjörleifssonar, meðritstjóra Ísafoldar.

Hinn 18. nóvember ritar Jón Ólafsson ritstjóri bréfið, sem hljóðar svo: "Það eru vinsamleg tilmæli mín við yðr, að þér vilduð gera svo vel að koma niðr á salinn á Hótel Ísland (þar sem Stúdentafélagið er vant að halda fundi) á föstudaginn 19. Nóv. kl. 8 síðdegis. Tilgangur minn er að bera þar upp við yðr tillögu um stofnun blaðamanna-félags, bæði í því skyni að efla hagsmuni stéttar vorrar á ýmsa lund og efla félagslega umgengni og viðurkenning blaðamanna á milli. Skal ég á fundi þessum reyna að skýra fundarefnið ýtarlegar og bendi á ýmisleg verkefni, er mér hafa hugkvæmzt sem sennileg viðfangsefni fyrir blaðamannafélag, ef það kemst á."

Fyrstu lögin

Engar fregnir sérstakar eru til af þessum stofnfundi, en líklegt er þó að Jón Ólafsson hafi fengið samþykkt af fundarmönnum að félagið skyldi stofnað, því að hinn 4. janúar undirrita Björn Jónsson, Bríet Bjarnhéðinsdóttir Jón Ólafsson, Valdimar Ásmundsson, Þorsteinn Gíslason, Jón Jakobsson og Einar Hjörleifsson "Lög fyrir hið íslenzka blaðamannafélag" í 13. greinum. Tveir þeirra, sem boðaðir voru á stofnfundinn, Einar Benediktsson og Þorsteinn Gíslason, undirrita ekki lögin, hvernig svo sem á því stendur. Lögin hljóðuðu svo:

1. gr. Hið íslenzka blaðamannafjelag hefir heimilisfang í Reykjavík. Það er stofnað af útgefendum og ritstjórum íslenzkra blaða í Reykjavík.

2. gr. Meðlimir geta orðið útgefendur, ritstjórar og aðstoðarritstjórar íslenzkra blaða eða tímarita, og aðrir þeir menn, er hafa ritun eða útgáfu blaða eða tímarita að atvinnuvegi eða stöðugu starfi, ef fjelagið veitir þeim viðtöku sem meðlimum.

3. gr. Nýja fjelaga skal bera upp á fundi og greiða atkvæði um; þarf atkvæða þeirra, sem greidd eru, til að samþykkja upptökuna.

4. gr. Ef tillaga kemur fram um að gera mann rekan úr fjelaginu, verður hún að vera skrifleg og studd af tveim fjelagsmönnum auk tillögumanns. Skal þá til fundar boða með sjerstöku fundarboði og geta tilefnis. Atkvæði skulu greidd skriflega og þarf þeirra atkvæða, er á fundi eru, til að gera mann rækan. Alla hina sömu aðferð skal við hafa, ef maður, sem rekinn hefir verið úr fjelaginu, óskar upptöku á ný.

5. gr. Frá hverju því blaði, sem fulltrúa hefir í fjelaginu, skal jafn atkvæðafjöldi á fundum, þannig að fulltrúi eða fulltrúar hvers blaðs um sig skal hafa jafnmörg atkvæði sem fulltrúar þess, er flest hefir.

6. gr. Nú vill einhver segja sig úr fjelaginu, skal hann þá tilkynna ritara það skriflega, og er laus úr fjelaginu sólarhring eptir að ritari tók við tilkynningunni eða hún hefir afhent verið vottanlega á heimili hans. Ritari skal tilkynna úrsögnina þeim fjelagsmönnum öllum, sem í Reykjavík eru, svo tímanlega að tilkynningin komi til þeirra innan 16 stunda, frá því er hann fekk úrsögnina.

7. gr. Tilgangur félagsins er að styðja með samtökum atvinnuveg blaðamanna (en með því er átt við tímaritamenn) og hvað eina, er stendur í sambandi við hann, efla viðkynning fjelagsmanna hvers við annan og auka veg og gengi heiðvirðrar blaðamennsku í landinu.

8. gr. Tilgangi sínum leitast fjelagið við að ná meðal annars með því að reyna að koma hagfeldu og réttvíslegu skipulagi á ýmislegt það í löggjöf vorri, er varðar blaðamennsku og ritmennsku, svo sem burðargjaldslög, áskriptarlög, prentmáls sakalög o.fl., svo og með samningum fjelagsmanna á meðal um sennilegar og hagfeldar ákvarðanir um auglýsingar og borgun þeirra, afslátt af þeim, sölukjör blaða, afstýring prettvísi í viðskiptum o.s.frv.

9. gr. Með því að fjelagið telur núgildandi sakalög um prentmál að mörgu leyti órjettvís, óhagfeld og illa viðunandi, þá vill fjelagið reyna að styðja af fremsta megni að því, að fá æðri og rjettvísari mælistiku fyrir rjettum takmörkum blaðamálfrelsis eða prentfrelsis yfir höfuð. nÍ þessu skyni skuldbinda fjelagsmenn allir sig til þess, að leita aldrei úrslita dómstólanna um ágreining, er milli þerirra rís af móðgunar- ummælum þeirra hvers um annan, meðan þeir eru í fjelaginu, heldur skipar fjelagið kjördóm, er dæmir öll slík mál milli fjelagsmanna. Skal dómur sá ekki dæma slík mál eptir landslögum, heldur eptir reglum, er fjelagið sjálft samþykkir í aukalögum um það efni. Í þeim skal til tekin tala gerðarmanna og reglugerð ger um verksvið þeirra og starf. Í samtök þau, er þessi grein ræðir um, leitast fjelagið við að fá, sem flesta rithöfunda íslenzka. Úrskurði kjördóms skuldbinda sig allir, er þeim aukalögum gerast háðir, til að halda svo sem hæstarjettardómur væri.

10. gr. Fjelagið kýs sjer stjórn: forseta, fjehirði, ritara, svo og varamenn sem þurfa þykir. Kosning gildir til 12 mánaða í senn.

11. gr. Tillag greiða fjelagsmenn eptir því sem ákveðið verður á aðalfundi, eða, ef til kemur, aukatillag, er viðtekið kann að verða með fundarsamþykt.

12. gr. Ársfund heldur fjelagið í síðustur viku Júní eða fyrsta Júlí ár hvert, eptir því sem formaður ákveður, og má með fundarsamþykt ákveða, hve löngu fyrir fram hann skuli boðaður vera. Fyrsta og þriðja mánudagskveld í mánuði hverjum koma fjelagsmenn saman og ræða mál sín. Breyta má þessari ákvörðun með einfaldri fundarsamþykt. Kveðja má formaður til aukafundar, ef nauðsyn krefur, en skyldur er hann til þess, ef 4 fjelagsmenn óska þess skriflega.

13. gr. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundum, og verða tillögur til breytinganna að vera bornar upp skriflega svo löngu tíma fyrir fram að ritara, að hann geti kunngert fjelagsmönnum þær samtímis fundarboðinu. Samþyktar verða slíkar breytingar því að eins, að atkvæða, þeirra er á fundi eru, sje með þeim greidd, enda sje þeirra fjelagsmanna, er viðstaddir eru í bænum og óforfallaðir, á fundi. Forföll meta fundarmenn enn á þeim fundi. Viðauka við lög þessi má samþykkja á aukafundi, ef þeir koma eigi í bága við lögin. Þarf til þess viðstaddra atkvæða, og gilda slíkir viðaukar aðeins til næsta aðalfundar."

Siðareglurnar

Þessum lögum fylgdu svo "Aukalög ins íslenzka blaðamannafélags um kjördóm í meiðyrðamálum", ítarlegur lagabálkur í 16 greinum, eins konar siðareglur. Þar afsala félagarnir sér með skriflegri skuldbindingu "öllum rétti til, meðan þeir eru í félaginu eða háðir skuldbindingu þessari, að leita úrslita inna lögskipuðu dómstóla landsins út af neinum þeim ummælum á prenti, er þeir þykjast meiddir af, ef höfundur eða ábyrgðarmaður ummælanna er meðlimur blaðamannafélagsins eða háðr áðr greindri skuldbindingu". Leggja þeir félagar öll slík mál fyrir kjördóm og skal úrskurður hans "vera svo bindandi fyrir málsaðila, sem hæstaréttardómur væri eða sáttagerð fyrir sáttanefnd".

Jón Ólafsson var fyrsti formaður félagsins og á fundi, sem í því var haldinn komu menn sér saman um að samræma stafsetningarreglur, en áður höfðu allmargar slíkar verið í gildi. Siðareglurnar samþykkti félagið, þar sem félagarnir skuldbundu sig til þess að "birta ekki á prenti persónuleg meiðyrði eða hnjóðsyrði hver um annan né neitt það er lýsir persónulegri óvild til þess félagsmanns er minnst kann að vera á heldur stunda sjálfir vinsemd og kurteisi í ummælum hver um annan og stuðla að því að aðrir, sem rita í málgögn vor, geri slíkt hið sama. Vanhaldi einhver þessa skuldbindingu skulu aðrir félagsmenn bera sáttarorð á milli og gera sér allt far um að jafna yfir það sem fljótast og afstýra frekari brotum með góðum fortölum eða öðrum hyggilegum ráðum er þeim kann að hugkvæmast".

Samkvæmt siðareglunum var eftirfarandi saknæmt að bera öðrum á brýn:

að hann vilji svíkja eða skaða ættjörð sína;

að hann hafi gert sig sekan í þjófnaði, fjárdrætti, fjárprettum, mútuþágu, sviksemi, fölsun, meinsæri, eða öðrum ámóta glæpum, er svívirðilegri eru að almenningsáliti;

að hann segi í alvöru og vísvitandi ósatt;

að menn fyrir eiginna hagsmuna sakir breyti gegn betri vitund; nokkuð annað það er svívirðilegt er eða ódrengilegt; saknæm eru og mannorðsmeiðandi illyrði, svo og spottyrði eða dylgjur, er fela í sér aðdróttun um eitthvað það, er saknæmt.

Í 11. grein aukalaganna eða siðareglnanna segir síðan, að brot við 1. til 2. töluliðar varði sektum á bilinu frá 50 til 1.000 króna og brot gegn töluliðum 3 til 7 varðar sektum að upphæð 25 til 500 króna.

Ávarp til Íslendinga

Blaðamannafélagið virðist hafa verið talsvert virkt sem félag fyrstu ár sín. Í nóvembermánuði árið 1906 birtu nokkrir félaganna "Ávarp til Íslendinga". Þetta voru 6 ritstjórar áhrifamikilla landsmálablaða og þar skýra þeir svo frá að þeir hafi komið sér saman um grundvallarkröfur þær, sem Íslendingum beri að gera, þá er gengið er til samninga um réttarstöðu Íslands. Ávarpið vakti mikla athygli og er það í umræðu manna almennt nefnt ,blaðamannaávarpið". Þótti eigi litlum tíðindum sæta er gömul andstæðingablöð eins og til dæmis Þjóðólfur og Ísafold, skipuðu sér undir sameiginlegt merki í jafnmiklu stórmáli. Ávarpið var svohljóðandi:

"Vegna þess hvernig stjórnmál Íslands nú horfir við, höfum við undirritaðir stjórnendur íslenzkra blaða komið oss saman um, að veita fylgi vort og styðja að því, að ákveðin verði staða Íslands gagnvart Danmerkurríki svo sem hér segir:

Ísland skal vera frjálst sambandsland við Danmörku, og skal með sambandslögum, er Ísland tekur óháðan þátt í, kveðið á um það, hver málefni Íslands hljóta eptir ástæðum landsins að vera sameiginleg mál þess og ríkisins. Í öllum öðrum málum skulu Íslendingar vera einráðir með konungi um löggjöf sína og stjórn, og verða þau mál ekki borin upp fyrir konung í ríkisráði Dana. Á þessum grundvelli viljum vér ganga að nýjum lögum um réttarstöðu Íslands, væntanlega með ráði fyrirhugaðrar millilandanefndar.

En eins og vér álítum brýna nauðsyn þess, að blöð landsins láti nú almenning hér á landi vita það, að vér viljum vinna saman að því, að búið verði með lögum þannig lagaða réttarstöðu Íslands, eins er það og sannfæring vor, að þeim málstað verði greiðlegar sigurs auðið þess eindregnar og almennar, sem þjóð vor lætur í ljós samhuga fylgi sitt við þessa meginstefnu, hvar sem kemur til hennar kasta. Vér erum á þeim tímamótum, að einnig vor út á við í þessu máli er skilyrði velferðar vorrar og þjóðarsóma; og fyrir því viljum vér skora á landsmenn að halda nú fast fram og án ágreinings þessum undirstöðuatriðum hinna væntanlegu nýju sambandslaga.

Löggjafarfulltrúar landsins hafa komið fram sem einn maður erlendis í þessu máli. Blöð Íslands og opinberar raddir almennings þurfa að eiga að koma fram á sama hátt, og vér treystum því, að þjóðin muni öll láta á sér finna, að hún vilji taka í sama streng með hverjum þeim hætti, er henni veitist færi á að lýsa yfir skoðun sinni.

Reykjavík, Bessastöðum og Akureyri 12. nóvember 1906."

Undir ávarpið rita: Benedikt Sveinsson, ritstjóri Ingólfs, Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar, Einar Hjörleifsson, ritstjóri Fjallkonunnar, Hannes Þorsteinsson, ritstjóri Þjóðólfs, Sigurður Hjörleifsson, ritstjóri Norðurlands og Skúli Thoroddsen, ritstjóri Þjóðviljans. Friðrik VIII Danakonungur heimsótti síðan Ísland um mitt sumar 1907 og skipaði þá nefnd til að semja frumvarp um stöðu Íslands í ríkinu.

Þingvallafundur

En ritstjórarnir létu ekki þar við sitja. Þeir efndu til Þingvallafundar um sjálfstæðismálið og bláhvíti fáninn var "löghelgaður" á Lögbergi. Boðað var til fundarins 29. júní og var hann sá langfjölmennasti allsherjarfundur, er nokkru sinni hafði þá verið haldinn á Þingvöllum, en slíkir fundir höfðu hafizt þar 60 árum áður. Fundinn sóttu 92 fulltrúar allra sýslna landsins, nema tveggja. Fundinn sóttu menn úr ýmsum stjórnmálaflokkum, en "þó einkum þeir, sem halda vilja fram hinum fyllstu kröfum vorum á hendur Dönum í væntanlegum samningum", segir í Öldinni okkar af fundinum. Áður en fundurinn hófst, hélt Bjarni Jónsson frá Vogi ræðu fyrir bláhvíta fánanum íslenzka að Lögbergi og "löghelgaði" hann þar. Síðan var gengið til fundarstarfa. Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar, setti fundinn með ræðu og gat verkefnis þess, er fyrir lægi. Fundarstjóri var valinn Sigurður Gunnarsson prófastur.

Fundurinn samþykkti eftirfarandi tillögur:

a. Fundurinn krefst þess, að væntanlegur sáttmáli við Dani um afstöðu landanna sé gerður á þeim grundvelli einum, að Ísland sé frjálst land í konungssambandi við Danmörku, með fullu jafnrétti og fullu valdi yfir öllum sínum málum. En þeim sáttmála má hvor aðili um sig segja upp. Fundurinn mótmælir allri sáttmálsgerð, sem skemmra fer, og telur þá eigi annað fyrir höndum, en skilnað landanna, ef eigi nást samningar, sem nefndir voru.

b. Fundurinn telur sjálfsagt, að Ísland hafi sérstakan fána, og fellst á tillögur stúdentafélagsins um gerð hans.

c. Fundurinn krefst þess að þegnaréttur vor verði íslenzkur.

Sökum þess að Alþingi var eigi rofið, þegar afráðið var að skipa samninganefnd í sjálfstæðismálinu, skorar fundurinn á Alþingi og stjórn að sjá um, að nefndin verði eigi skipuð fyrr af Íslands hálfu, en kosið hefur verið til Alþingis að nýju.

Blaðamannafélagið, stéttarfélag blaðamanna

Talið er að starfsemi Blaðamannafélagsins hafi lagzt í einhvers konar dvala, er Björn Jónsson varð ráðherra snemma árs 1909. Eftir hatramar deilur um skeytasendingar ákveða svo aðstandendur Dagblaðsins Vísis og fleiri að endurreisa Blaðamannafélagið árið 1915. Morgunblaðsmenn viðurkenndu ekki þetta félag og töldu það fréttaskeytasamlag andstæðinga sinna í deilum um fréttaskeyti frá útlöndum. Engu að síður gengu um 20 manns í félagið endurreist. Blaðamenn Morgunblaðsins og Ísafoldar voru þó ekki með fyrr en félagið var endurreist á ný árið 1918 og um 1920 verður félagið félagi í samtökum norrænna blaðamanna. Síðar gerðist félagið aðili að alþjóðasamtökum blaðamanna.

Á þessum árum var Blaðamannafélag Íslands ekki orðið að stéttarfélagi, þótt það berðist fyrir ýmsum hagsmunamálum blaðanna og blaðaútgáfu. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, lét sér til að mynda talsvert annt um félagið og var í því fyrst framan af eða unz hann dró sig í hlé upp úr miðri öldinni, þá aðallega vegna þess að honum fannst félagið vera að breytast í stéttarfélag blaðamanna. Hann var í raun báðum megin við borðið sem einn aðaleigenda blaðsins og stjórnarmaður í Árvakri, útgáfufélagi þess.

Á þessum árum voru stjórnmálaátök milli blaðanna oft hatröm og hið gamla upphaf Blaðamannafélagsins, að menn meiddu ekki í orðum hver annan hafði breytzt. Siðareglur voru þó við lýði, þótt í öðru formi væru. En pólitíkin skapaði vandkvæði og lengi vel var sú regla höfð að formenn félagsins voru aðeins kjörnir til eins árs í senn og þeir skiptust í milli blaðanna eftir ákveðinni hringreglu. Þannig gegndi Morgunblaðsmaður formennsku eitt árið, Alþýðublaðsmaður annað, Vísismaður hið þriðja, Þjóðviljamaður hið fjórða, þá Tímamaður o.s.frv. unz aftur kom að Morgunblaðsmanninum. Því gegndi hver maður formennskunni aðeins í eitt ár um langt árabil og líklegast hefur aldrei þetta tímabil sami maður aftur verið kjörinn formaður frá sama blaði. Formannshópur Blaðamannafélags Íslands er því orðinn æði stór í gegnum tíðina. Síðasti formaðurinn, sem kjörinn var eftir þessari reglu sat til ársins 1978 og frá því ári hafa aðeins þrír menn gegnt formannsembættinu.

Endalok þessarar hringskiptareglu hurfu, er málgögn stjórnmálaflokkanna týndu tölunni og félagið breyttist í hreint stéttarfélag. Á síðari stigum voru ljósmyndarar og teknir inn í félagið, prófarkalesarar og yfirleitt allir þeir, sem vinna að útgáfumálum blaðanna á ritstjórnum þeirra. Í félaginu eru nú um 450 manns, og hefur fjölgað stórum á síðasta hálfum öðrum áratug. Á skrifstofu þess starfa nokkrir starfsmenn að meðtöldum formanni félagsins. Félagið á nú hluta af húseign í Síðumúla 23, á lítið raðhús í Glerárhverfi á Akureyri, sem notað er sem orlofsbústaður, og tvo bústaði á það í Brekkuskógi í Biskupstungum. Félagið hefur haldið upp á aldarafmælið þessa viku með kvöldvökum á Sóloni Íslandusi í Bankastræti og á laugardag verður hátíðarskemmtun á Hótel Íslandi. Það er skemmtileg tilviljun, að fyrir réttum 100 árum var félagið stofnað á Hótel Íslandi, sem stóð á horni Aðalstrætis og Austurstrætis og brann til grunna árið 1944. Fyrir réttum 10 árum var 90 ára afmælisfagnaður félagsins vígsla hins nýja Hótels Íslands.

Björn Jónsson

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Einar Benediktsson

Einar Hjörleifsson

Hannes Þorsteinsson

Jón Ólafsson

Valdimar Ásmundsson

Þorsteinn Gíslason

BRÉF Jóns Ólafssonar er dagsett 18. nóvember 1897 og þar boðar hann til stofnfundarins daginn eftir.

Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Blaðamenn í sameinuðust í sjálfstæðismálinu

Félagið hefur verið endurreist tvisvar sinnum